Mikilvægi listkennslu, KAP jóga og Kristín lesandi vikunnar
Við ræddum við Gunnar Guðbjörnsson skólastjóra Söngskóla Sigurðar Demetz er þar eins og hjá öðrum listaskólum eru ekki settar á svið nemendasýningar eða tónleikar á hefðbundin hátt. Óperu og söngleikjasýningar liggja niðri hjá Söngskólanum en þó er enn kennsla í gangi, í gegnum netið. Nú á að bæta við og bjóða vinum skólans uppá ókeypis söngtíma í gegnum netið sem eflaust margir vilja notfæra sér. Einnig sagði Gunnar frá rannsóknum WHO (Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar) á áhrifum listanna á heilsufar fólks, andlega sem líkamlega. Eitthvað sem svo sannarlega á við að ræða á þessum tímum.
Þóra Hlín Friðriksdóttir hjúkrunarfræðingur hefur stundað jóga í yfir 20 ár og kennt jóga í 13-14 ár. Fyrir tveimur árum stofnaði hún KAP á Íslandi og hefur haldið KAP viðburði síðan við miklar vinsældir. En hvað er KAP? Jú þú liggur einfaldlega á jógamottu og/eða teppi á gólfinu og færð snertingu yfir ákveðna punkta líkamans. Stundum finnst þátttakendum eins og þeir séu límdir við gólfið, þeir ná dýpri slökun en nokkru sinni fyrr á meðan aðrir upplifa líkamleg viðbrögð, t.d. ósjálfráðar hreyfingar, skjálfta, danshreyfingar eða hláturskast. Þóra sagði frá KAP jóga í þættinum í dag.
Og lesandi vikunnar í þetta sinn var Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna og stundakennari. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða höfundar og bækur hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.