Kjarni málsins
Gjarnan er því haldið fram að á Íslandi sé hvorki stéttaskipting í samfélaginu né mikill munur á máli og málnotkun milli hópa, til dæmis eftir búsetu. Í þáttunum eru mállýskur í íslensku skoðaðar frá fjölbreyttu sjónarhorni með spurningum á borð við hvort á Íslandi sé stéttaskipting sem kemur fram í málfari, hvort konur sem flytja til Reykjavíkur frá Akureyri séu fljótari en karlar að leggja norðlensk máleinkenni af og hvort flámæli sé svo slæmt að því þurfi að útrýma. Spurt er hvort réttlætanlegt sé að lítillækka fólk út frá málfari á samfélagsmiðlum, hvort okkur tekst að varðveita tungumálið án þess að vera of leiðinleg og hvort hraðlestrarpróf og utanbókarlærdómur hugtaka bjarga málinu. Spáð er í hvort tungumálið sameinar okkur sem þjóð um leið og það útilokar þá sem kunna það ekki.
Umsjón með þættinum hafa Anna Sigríður Þráinsdóttir og Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir.