Glans

TíMAFLAKK: IV

Í þætti dagsins heimsækjum við annars vegar lyfjaverslun í Reykjavík fyrir miðbik síðustu aldar og hins vegar helli árið 1918. Fyrir meira en hundrað árum bjuggu tvær íslenskar fjölskyldur í Laugarvatnshellum. Við beinum sjónum okkar annarri þeirra sem bjó í hellunum á árunum 1918-1922. Þetta voru hjónin Vigdís Helgadóttir og Jón Þorvarðsson og börn þeirra, en fjölskyldan hefur á seinni árum verið kölluð síðustu hellisbúar Íslands. Jón sagði frá búsetunni í Laugarvatnshelli í Ríkisútvarpinu árið 1957. Hann segir þar meðal annars frá erfiðri fæðingu frumburðar þeirra hjóna í hellinum. Á hellisárunum stækkaði fjölskyldan svo um munaði, en tvö af þremur börnum þeirra fæddust í hellinum. Við ræðum einnig við Smára Stefánsson sem þekkir sögu þeirra hjóna mæta vel, en fyrirtæki hans Laugarvatn Adventure stóð fyrir endurgerð hellanna í eins upprunalegri mynd og mögulegt var.

Við skyggnumst einnig bak við tjöldin í Iðunnarapóteki og heyrum viðtal við Snæbjörn Kaldalóns, lyfjafræðing, sem var tekið fyrir miðbik síðustu aldar. Heimur lyfjafræðinnar hefur breyst töluvert síðan þá. Við heyrum því í ungum lyfjafræðingi sem starfar í Lyfju á Egilsstöðum, Ingu Sæbjörgu Magnúsdóttur, og ræðum við hana um starf lyfjafræðinga í nútímanum.

Umsjónarmaður: Anna Gyða Sigurgísladóttir

Birt

15. maí 2020

Aðgengilegt til

17. maí 2021
Glans

Glans

„Það sem er raunverulega áhugavert við hvert og eitt okkar eru grímurnar, ekki raunsæið á bak við þær. Þetta er auðmýkjandi játning, en við erum öll gerð úr því sama,“ skrifaði Oscar Wilde í einni ritgerða sinna. Án grímunnar og dýrðarljómans erum við öll tiltölulega svipuð, mannleg. Í þessari þáttaröð verður varpað ljósi á glansmyndirnar allt um lykjandi. Fyrirbrigði, táknmyndir og hugmyndir verða skoðaðar frá persónulegu sjónarhorni og til mynda fjallað um minni, svik, hlustun, hraða, feguð,fölsun, eignir og egó.

Umsjón: Anna Gyða Sigurgísladóttir og Katrín Ásmundsdóttir.