Samtök atvinnulífsins greiða atkvæði um verkbann á tuttugu þúsund Eflingarfélaga. Bannið tekur gildi 2. mars, verði það samþykkt. Formaður Eflingar segist hafa verið vongóð um að samningar næðust í gær þegar upp úr slitnaði, atkvæðagreiðslan um verkbann sé svívirðileg aðför að félagsfólki Eflingar.
Bandaríkjaforseti kom í óvænta heimsókn til Kyiv, höfuðborgar Úkraínu í morgun. Hann ræðir við Úkraínuforseta, og ætlar að bæta í stuðning vegna innrásar Rússa.
Kona fannst meðvitundarlaus í Lágafellslaug í Mosfellsbæ í morgun. Ástand hennar er alvarlegt.
Rannsókn á eldsupptökum í áfangaheimilinu Betra lífi á föstudag stendur yfir. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur lokið úttekt á brunavörnum heimilisins. Ekkert eftirlit er með rekstri slíkra heimila.
Heilu hverfin eru á floti og á fjórða tug eru látin í flóðum og aurskriðum í Sao Paulo í Brasilíu. Tuga er saknað.
Notendum Facebook og Instagram býðst nú að kaupa áskrift að miðlunum. Í henni felst aukin vernd.
Bolludagurinn er í dag og mikið annríki í bakaríum um allt land. Við lítum inn í bakarí á Siglufirði síðar í fréttatímanum.