Öllu flugi, bæði millilanda og innanlands hefur verið aflýst. Reykjanesbraut er lokuð. Þar er skafrenningur og skyggni slæmt. Björgunarsveitir hafa staðið í ströngu á Suðurnesjum og fjöldahjálparstöð var opnuð í Reykjanesbæ. Hellisheiði og Þrengsli eru lokuð. Ómögulegt er að segja hvenær hægt verður að opna helstu leiðir.
Hvergi er hvassara en á Suðausturlandi. Vindur hefur náð fimmtíu metrum á sekúndu í hviðum í Öræfum en austar er veðrið mun skaplegra. Hvassviðrið færist austar eftir því sem líður á daginn. Ferðaþjónstufyrirtæki aflýstu ferðum í gærkvöldi þegar sá í hvað stefndi.
Orkuveita Reykjavíkur framleiðir fimmtungi minna heitt vatn en venjulega vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun. Allar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu eru lokaðar.
Atkvæðagreiðslu félagsmanna Starfsgreinasambandsins um kjarasamning við Samtök atvinnulífsins lauk í hádeginu. Niðurstöður eru væntanlegar á næstu klukkutímum.
Rússlandsher sendi árásardróna á Kyiv í nótt og eyðilagði orkuinnviði. Ekki hafa borist fregnir af mannfalli. Forsetar Rússlands og Belarús hittast á fundi í dag.
Mikið álag hefur verið á starfsfólki Sjúkrahússins á Akureyri undanfarnar vikur, vegna covid- og inflúensusmita. Þjónusta á bráðamótttöku er skert vegna veikinda starfsfólks.
Argentínska þjóðin gekk nánast af göflunum í gærkvöld þegar karlalandslið þjóðarinnar varð heimsmeistari í fótbolta