Lögregla rannsakar hvort ungir menn hafi hlýtt skipunum eldri manna í árásinni á Bankastræti club. Yfir tuttugu hafa verið handtekin og 12 úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna málsins.
Tugir eru látnir og mörg hundruð slösuð eftir jarðskjálfta á indónesísku eyjunni Jövu í morgun.
Orkumálastjóri segir vonbrigði hve lítil áhersla er á samdrátt í losun í samkomulagi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Lokaútkoman sé þó í höndum þeirra þjóða sem menga mest.
Fyrsti samningafundurinn hjá ríkissáttasemjara í núverandi samningalotu hófst klukkan tíu í morgun. Fimm málum samtals 30 félaga og félagsdeilda hefur verið vísað til embættisins.
Ekkert verður af því að fyrirliðar sjö Evrópuþjóða beri band í regnbogalitunum í leikjum á HM í Katar, eftir að FIFA ákvað að allir sem það gerðu fengju gult spjald fyrir. Knattspyrnusambönd þjóðanna eru mjög óánægð með ákvörðun FIFA.
Einstæðir foreldrar á örorkubótum hafa miklar áhyggjur af útgjöldum um hátíðarnar, að sögn talsmanns samtaka fólks í fátækt. Aukning hefur orðið meðal þeirra sem þurfa fjárhagsaðstoð undir lok árs.
Þreyttir farþegar sem ætluðu að blunda á leið sinni til Vestmannaeyja í Herjólfi komust að því þegar þeir vöknuðu að þeir voru enn í Þorlákshöfn. Herjólfur bilaði í gærkvöld og tafðist um fimm tíma.
Mikið er í Lagarfljóti, og Egilsstaðaflugvöllur umflotinn vatni sem nær inn á öryggissvæði vallarins. Vatnið náði hámarki í gærkvöld en þá vantaði enn 60 sentimetra upp á að jafn mikið væri í fljótinu og í flóðunum miklu árið 2002.