Lögregla leitar um tuttugu manna eftir fjölmenna innrás á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Þrír særðust og fjórir hafa verið handteknir.
Rannsókn saksóknara í Svíþjóð hefur leitt í ljós að skemmdarverk voru framin á Nord Stream gasleiðslunum í september. Of snemmt sé að draga ályktun um hver var að verki.
Evrópusambandið segist vera fylgjandi fjárhagsaðstoð til þróunarríkja gegn frekari loforðum um að dregið verði úr losun, í lokayfirlýsingu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Utanríkisráðherra Egyptalands tilkynnti rétt fyrir fréttir að ráðstefnan yrði framlengd um einn dag.
Vegurinn til Grenivíkur er enn lokaður þar sem stór aurskriða féll í gær. Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur í morgun myndað skriðuna með dróna svo sérfræðingar Veðurstofunnar geti metið hvort óhætt verður að opna veginn í dag.
Myglu- og rakavandamál hafa komið upp í 27 skólum í Reykjavík á síðustu fjórum árum. Fjöldi barna sækir skóla annars staðar vegna þessa.
Nýjar upplýsingar frá James Webb geimsjónaukanum benda til þess að fyrstu stjörnuþokur alheimsins hafi myndast mörg hundruð milljónum ára fyrr en talið hefur verið.
Í hádeginu kom í ljós hvaða lið mætast í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar í handbolta. Ríkjandi bikarmeistarar Vals hefja titilvörnina í Vestmannaeyjum.