Forseti Póllands segir afar líklegt að eldflaug sem sprakk við þorp nálægt landamærum Úkraínu í gær hafi verið úkraínsk loftvarnaflaug; henni skotið á loft í gær, þegar Rússar gerðu víðtæka eldflaugaárás á Úkraínu. Ekkert bendi til þess að þetta hafi verið árás á Pólland.
Bankasýslan skýtur föstum skotum að Ríkisendurskoðun vegna skýrslu um söluna á Íslandsbanka. Forsvarsmenn hennar segja horft framhjá því að besta mögulega verð hafi fengist fyrir hlut ríkisins.
Prófessor í stjórnmálafræði segir að ekki megi afskrifa Donald Trump sem í gærkvöld tilkynnti að hann vildi verða forsetaefni Repúblikana í Bandaríkjunum eftir tvö ár.
Sakborningar í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar neituðu sök eða tóku ekki afstöðu þegar ákæra í málinu var þingfest í morgun. Reiknað er með að réttarhöldin taki þrjá daga.
Samkeppniseftirlitið og Fiskistofa hafa aukið samvinnu til að bregðast við samþjöppun í sjávarútvegi. Samkeppniseftirlitið gagnrýnir að þessar tvær stofnanir noti ólíkar skilgreiningar í ólíkum lögum til að meta hvenær yfirráð tengdra aðila séu of mikil.
Uppsöfnuð úrkoma á Eskifirði undanfarna sjö daga er 180 millimetrar. Þar hefur mælst örlítil hreyfing í jarðlögum en ekki talin ástæða til neinna aðgerða
Artemis-flaug NASA, bandarísku geimferðastofnunarinnar, var skotið á loft frá Canaveral-höfða í Flórída rétt fyrir sjö í morgun. Tæknileg vandkvæði og vont veður tafði jómfrúarferðina.
Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður í fótbolta er snúinn aftur í íslenska landsliðið í fótbolta eftir árshlé. Ísland mætir Litáen í undanúrslitum Eystrasaltsbikarsins í dag.