Þjóðarleiðtogar fjörutíu og sex ríkja í Evrópuráðinu koma saman í Reykjavík í vor, þegar formennsku Íslands í því lýkur. Leiðtogafundurinn verður sá fjölmennasti sem haldinn hefur verið hér á landi.
Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson styrktu báðir stöðu sína innan Sjálfstæðisflokksins í formannsslagnum um helgina að mati Ólafs Þ. Harðarsonar stjórnmálafræðiprófessors.
Um helgina kom tvö þúsundasti flóttamaðurinn frá Úkraínu til landsins. Það er fjöldinn sem yfirvöld bjuggust við að kæmi allt árið frá Úkraínu. Enn er um þriðjungur allra þeirra sem hafa sótt um vernd á árinu í skammtímahúsnæði.
Það er ekki á valdsviði umboðsmanns Alþingis að hafa eftirlit með brottvísunum hælisleitanda. Umboðsmaður segir að lagabreytingu eða aukafjárveitingu þyrfti til.
Demókratar gætu tapað meirihluta sínum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings á morgun, en mjótt gæti orðið á munum í öldungadeildinni, samkvæmt skoðanakönnunum.
Forseti Frakklands hvetur Bandaríkin og Kína til að leggja meiri fjármuni í að aðstoða fátæk lönd í baráttu þeirra gegn loftslagsbreytingum.
Samtök trans fólks gagnrýna að trans fólk eigi ekki rétt á veikindaleyfi til að undirgangast kynleiðréttingaraðgerðir.
Íslenskar landsliðskonur gagnrýna Knattspyrnusamband Íslands. Þær sitji ekki við sama borð og karlar þegar landsliðsfólk er heiðrað. Framkvæmdastjóri segir að samræma eigi verklag.
Ágætis rjúpnaveiði var um helgina og víðast hvar sást talsvert af rjúpu. Talsmaður skotveiðimanna er viss um að allir nái sér í rjúpu í jólamatinn.