Vladimir Pútín, forseti Rússlands krefst þess að Úkraínuher leggi niður vopn og hætti hernaðarátökum í Úkraínu. Pútín sagði þetta í ræðu sem hann flytur nú í hátíðasal í Kreml. Búist er við að í ræðunni lýsi hann því formlega yfir að fjögur héruð í Úkrainu verði innlimuð í Rússland. Minnst 23 almennir borgarar féllu í eldflaugaárás í útjaðri úkraínsku borgarinnar Zaporizhzia snemma í morgun.
Um fjögur hundruð hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi í þessum mánuði og tæplega þrjú þúsund á árinu. Aðgerðastjóri mótttöku flóttamanna segir að svo gæti farið að opnuð yrði fjöldahjálparstöð. Það yrði algjört neyðarúrræði.
Metanský úr gasleiðslum í Eystrasalti gæti teygt sig til Íslands en mengunin yrði hverfandi lítil eða engin. Gasið hefur ekki heilsuspillandi áhrif.
Staðfest hefur verið að nítján fórust í Flórída þegar fellibylurinn Ian fór þar yfir. Hann fer yfir Suður-Karólínu í dag og er búist við flóðum þar.
Brynjólfur Ingvarsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Flokks fólksins á Akureyri, ætlar að sitja áfram í bæjarstjórn sem óháður bæjarfulltrúi. Hann hefur sagt úr flokknum.
Hólasandslína verður tekin í notkun með formlegum hætti í dag. Þetta er ný háspennulína sem liggur úr Þingeyjarsýslum í Eyjafjörð og á að auka raforkuöryggi á norðausturhorninu til muna.
Ísland verður með sjö fulltrúa í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu þetta tímabilið. Undankeppnin kláraðist í gærkvöld.