Mikið eignatjón hefur orðið í aftakaveðrinu sem gengur yfir landið. Veðrið hefur bitnað einna verst á íbúum Austfjarða. Þar er enn of hvasst til að fólk treysti sér út að meta umfang skemmdanna.
Fagstjóri aðgerðamála hjá almannavörnum segir alvarlegt mál þegar hálft landið verði rafmagnslaust eins og gerðist í gær. Fjarskipti hafi þó haldið sem þakka megi úrbótum sem gerðar hafi verið frá óveðrinu sem skall á 2019.
Þrettán létust og tugir særðust í skotárás í rússneskum barnaskóla í morgun. Rússlandsforseti segir árásina hryðjuverk.
Maður sem úrskurðaður var í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna gruns um undirbúning hryðjuverka hefur farið í eina skýrslutöku frá handtöku fyrir fimm dögum. Lögmaður hans segir skjólstæðing sinn samstarfsfúsan og neitar fullyrðingum um tengsl við öfgasamtök.
Bræðralag Ítalíu, flokkur Giorgiu Meloni, hlaut um fjórðung atkvæða í þingkosningum í gær. Útlit er fyrir að brátt taki við hægrisinnaðasta ríkisstjórn landsins frá lokum síðari heimsstyrjaldar.
Fleiri hermenn frá rússneska sjálfstjórnarhéraðinu Dagestan hafa fallið í stríðinu í Úkraínu en frá öðrum hlutum Rússlands. Herkvaðningu varaliðs var mótmælt í Dagestan um helgina og voru yfir hundrað mótmælendur handteknir.