Fjórir voru handteknir í gær grunaðir um vopnaframleiðslu og alvarlegar hótanir. Lögregla hyggst boða til blaðamannafundar síðar í dag.
Stjórnvöld í Íran hafa takmarkað aðgang almennings að samfélagsmiðlum, eftir víðtæk mótmæli sem hafa breiðst út um landið undanfarna daga. Minnst sautján hafa látið lífið. Mótmælin hófust eftir að rúmlega tvítug kona lést í haldi siðgæðislögreglu landsins.
Landamæri Finnlands verða brátt lokuð rússneskum ferðamönnum, verði áform stjórnvalda í Helsinki að veruleika en þau ætla að hætta að gefa út vegabréfsáritanir til Rússa. Umferð um stöðvar á landamærum Finnlands og Rússlands jókst nokkuð í gær, eftir að Rússlandsforseti tilkynnti um herkvaðningu.
Verðbólga lækkar meira en spáð var því húsnæðisverð hefur lækkað. Greinendur telja að hún lækki um hálft prósentustig frá því sem var í júní.
Forsætisráðherra segir að vilji ríkisstjórnarinnar varðandi byggingu nýrrar þjóðarhallar sé skýr og bindur vonir við að hægt verði að ljúka framkvæmdum á þessu kjörtímabili.
Hraðfrystihúsið Gunnvör hefur sagt upp þrettán manna áhöfn skipsins Stefnis ÍS og hyggst hætta útgerð þess vegna niðurskurðar í þorskkvóta.
Bíllausi dagurinn er haldinn í dag í tilefni samgönguviku. Á Akureyri virðist dagurinn hafa lítil áhrif á bílaumferð í upphafi dags.
Það er skammt stórra högga á milli hjá knattspyrnulandsliðum Íslands í dag. Karlalandsliðið leikur vináttuleik í dag, kvennalandsliðið fyrir HM umspilið verður tilkynnt í dag og 21 árs landslið karla er á leið í umspil um sæti í lokakeppni EM.