Evrópusambandið stefnir að uppstokkun á orkumarkaði í Evrópu og hyggst skattleggja hagnað orkufyrirtækja, vegna kreppunnar sem til er komin vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Leiðtogi ESB segir að viðskiptaþvingunum á Rússa verði fram haldið.
Forstjóri Landspítala segir fjárlagafrumvarpið í takt við það sem stjórn spítalans átti von á. Verkefni til að bæta mönnun þurfi að fjármagna sérstaklega.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir ekki óeðlilegt að samskiptaörðugleikar komi upp milli fólks í stjórnmálastarfi. Ekki hefur komið til tals að vísa neinum úr flokknum þrátt fyrir alvarlegar ásakanir kvenna gegn körlum í flokknum.
Mikill fjöldi hefur safnast saman í miðborg Lundúna, til að sjá þegar kista Elísabetar drottningar verður flutt frá Buckingham höll til Westminster. Þúsundir bíða þess að votta drottningunni virðingu sína.
Borgarstjóri segir að 9 milljarða króna gat sé í núverandi fjármagni sem snýr að málaflokki fatlaðs fólks. Umtalsverður hluti af því sé vegna búsetuúrræða og uppbyggingar þeirra.
Evrópumótið í hópfimleikum fer fram í Lúxemborg í vikunni. Ísland á fimm lið á mótinu.