Kynferðisleg áreitni og hótanir eru meðal þess sem þrjár konur í Flokki fólksins á Akureyri hafa sakað karlforystu flokksins um. Aðalstjórn flokksins fundar í dag vegna málsins og Inga Sæland formaður segist harmi slegin.
Forseti Íslands setur Alþingi eftir hádegi og forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína annað kvöld. Þetta er í fyrsta skipti í þrjú ár sem gestir verða viðstaddir með hefðbundnum hætti.
Rússar segjast hafa gert harðar árásir gegn úkraínska hernum, eftir sókn þeirra síðarnefndu undanfarna daga. Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti segir að hersveitir Úkraínu hafi náð aftur yfirráðum á um sex þúsund ferkílómetrum lands í austurhluta landsins.
Bifreiðakostnaður kemur til með að hækka verulega á næsta ári, segir formaður FÍB. Fjárlagafrumvarpið gangi allt of langt.
Langar biðraðir hafa verið í nótt og í morgun fyrir utan St. Giles dómkirkjuna í Edinborg þar sem líkkista Elísabetar drottningar hefur legið á viðhafnarbörum síðan í gær. Búist er við um fimm hundruð þjóðhöfðingjum til Lundúna í jarðarförina næsta mánudag.
Samfylkingin fær nýtt nafn, Jafnaðarflokkurinn, ef tillaga tveggja fyrrverandi þingmanna flokksins nær fram að ganga á landsfundi í haust. Þeir segja tímabært að nafn flokksins vísi til stefnunnar en ekki aðferðarinnar við stofnun hans.
Enn er stefnt að því að framkvæmdir geti hafist við Fjarðarheiðargöng á næsta ári. Áður en verkið er boðið út þarf Alþingi að útkljá hvernig gjaldheimtu í þágu flýtiframkvæmda verður háttað.