Merkja má gliðnun í sprungum norðaustan við gosstöðvarnar í Meradölum. Náttúruvársérfræðingar frá Veðurstofunni fljúga þar yfir í dag og kanna aðstæður. Búist er við því að nýjar gossprungur myndist á næstunni.
Töluverða gasmengun frá gosinu gæti lagt yfir Voga og Garð síðdegis. Spáð er suðlægum áttum næstu daga og aukinni mengun nálægt höfuðborgarsvæðinu.
Yfirmaður leyniþjónustu Grikklands sagði af sér í morgun. Reynt hafði verið að hlera farsíma leiðtoga eins stjórnarandstöðuflokks landsins.
Prófessor í stjórnmálafræði segir nýstofnaðan stjórnmálaflokk í Bandaríkjunum geta grætt á því hve Demókratar og Repúblíkanar hafa færst mikið hvor í sína áttina. Sagan sýni þó að nýir flokkar eiga sjaldnast langt framhaldslíf þar vestra.
Hvít slikja frá skemmtiferðaskipi lá yfir Pollinum á Akureyri í morgun, en áhöld eru um hversu mengandi hún er. Heilbrigðisnefnd bæjarins hefur ítrekað óskað eftir því að bærinn fjárfesti í loftgæðamæli við höfnina.
Verulega hefur dregið úr notkun á getnaðarvarnarpillunni í Danmörku á síðustu árum, vinsældir annarra getnaðarvarna eru sífellt að aukast.
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er í 14. sæti á stigalista Alþjóða knattspyrnusambandsins yfir bestu landslið heims. Ísland hefur aldrei verið hærra á listanum.