Samningar um þinglok gætu verið í uppnámi þar sem óvíst er hvort mál stjórnarandstöðu, sem lofað var í samningunum, fái framgang. Forsætisráðherra segir að það sé mikill áfangi að tekist hafi að afgreiða rammaáætlun, í fyrsta sinn í sex ár.
Á annað hundrað kórónuveirusmit greinast daglega hér á landi. Sóttvarnalæknir segir mikilvægt að gæta smitvarna á fjölmennum samkomum. Þriðja tilfelli apabólu greindist um helgina.
Rauðu hættustigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli og þúsund viðbragðsaðilar kallaðir út í nótt þegar farþegaflugvél Play fékk viðvörun um eldsneytisskort.
Úkraínski herinn hefur hörfað frá miðborg Severodonetsk. Rússar hafa rofið helstu leiðir til og frá borginni.
Fyrstu gæludýrin frá Úkraínu koma í dag í sérútbúna einangrunarstöð sem sett hefur verið upp hér á landi. Þegar hefur verið veitt leyfi fyrir innflutningi á 12 dýrum, hundum og köttum. Einangrunin getur varað í allt að fjóra mánuði.
Landsliðsþjálfari karla í fótbolta segir að viðureignin gegn Ísrael í þjóðadeildinni á Laugardagsvelli í kvöld sé undanúrslitaleikur. Ísland verður að vinna til að eiga möguleika á efsta sæti riðilsins.