Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að engin sveitarstjórn leggi í það að setja fulla álagningarprósentu á fasteignagjöld. Fólk verði að hafa efni á að greiða þau. Borgarstjóri segir að ákvörðun um lægri álögur verði tekin í haust.
Eftirlitsstofnun EFTA hefur verið gert skylt að rannsaka hvort hlutafjáraukning íslenska ríkisins til Farice ehf. vegna nýs sæstrengs stenst reglur um ríkisaðstoð. Niðurstaðan hefur ekki áhrif á lagningu sæstrengsins sem hófst í síðustu viku.
Rússar seldu um fjórðungi minna af jarðgasi til annarra ríkja en fyrrverandi Sovétlýðvelda á fyrstu mánuðum ársins en þeir gerðu í fyrra.
Samningar um afgreiðslu mála frá Alþingi mjakast áfram en mættu ganga hraðar að mati þingflokksformanns Samfylkingarinnar sem grunar að það sé vegna innri ágreinings stjórnarflokkanna.
Alvarleg staða er hjá mörgum bændum vegna mikillar hækkunar á áburðaverði. Dæmi eru um bændur sem báru engan innfluttan áburð á tún í vor og ætla að treysta á góða sprettu án þess.
Stærsta menntaráðstefna sem haldin hefur verið á Norðurlöndum hófst á Hilton Nordica hóteli í Reykjavík í morgun.
Von er á um 200 skemmtiferðaskipum í Faxaflóahafnir í ár, sem er svipað og fyrir faraldur. Hafnirnar fá um 600 milljónir króna í tekjur vegna þessa, ferðamáti farþega hefur breyst og vísa hefur þurft skipum frá vegna plássleysis.
Tveir bestu tennismenn sögunnar háðu mikla rimmu á Opna franska meistaramótinu í tennis í gærkvöldi. Leikur Novak Djokovic og Rafael Nadal tók rúmar fjórar klukkustundir og lauk ekki fyrr en eftir miðnætti.