Forseti Úkraínu fullyrðir að rússneski herinn hafi beitt fosfórsprengjum í árásum sínum í morgun. Í dag er mánuður frá því Rússar réðust inn í landið. Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins sitja á neyðarfundi í Brussel.
Sóttvarnalæknir segir að ómíkron-bylgjan sé á niðurleið. Álagið á heilbrigðiskerfið hefur minnkað. Allt að tíu prósent þeirra sem smituðust af öðru afbrigði hafa nú sýkst af ómíkron.
Húsleit var gerð á heimili og vinnustað Karls Wernerssonar kaupsýslumanns í gær. Héraðssaksóknari rannsakar mál sem skiptastjóri þrotabús Karls tilkynnti um.
Fjármálaráðherra segir að það geti skapað tóm vandræði að spyrja þjóðina um aðildarviðræður við Evrópusambandið ef ekki er meirihluti fyrir því á Alþingi. Viðreisn og Samfylking hafi stungið ESB í rassvasann í kosningabaráttunni.
Ríkið veitir tæplega þremur milljörðum króna í framkvæmdir og uppbyggingu á ferðamanna- og minjastöðum næstu þrjú árin.
Það glyttir í grænar nálar á knattspyrnuvöllum á höfuðborgarsvæðinu. Gæsir eru mættar til að slíta upp nýgræðinginn. Fyrstu merki vors gera vart við sig.