Forseti Úkraínu segir útséð um að landið gangi í Atlantshafsbandalagið í fyrirsjáanlegri framtíð. Rússar vilja að Úkraína verði hlutlaust ríki, líkt og Svíþjóð og Austurríki.
Efnahagsbatinn eftir faraldurinn verður hægari en vænst var vegna innrásarinnar í Úkraínu. Seðlabankastjóri segir ferðaþjónustuna vart mega við öðru áfalli.
Hríðarbylur gengur yfir landið seint í nótt og í fyrramálið. Líklega verður þungfært innanbæjar víða á suðvesturhorninu þegar við stígum framúr í fyrramálið.
Formaður VR segir að fréttir af launahækkunum forstjóra leggist illa í verkalýðsfélögin en bæti samningsstöðu þeirra í kjaraviðræðum sem framundan eru.
Stefnt er að því að fækka sýslumannsembættum úr níu í eitt. Fréttirnar koma flatt upp á formann Félags sýslumanna.
Fólk leitar í stórauknum mæli til Neytendasamtakanna vegna fjársvika. Nánast ómögulegt virðist vera að stöðva greiðslur.
Sjúkraliðafélag Íslands gagnrýnir stjórnendur Landspítala harðlega fyrir að standa ekki við loforð um uppfærða stofnanasamninga.
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær að festa sumartíma í landinu í sessi. Það sé meðal annars gert til að draga úr skammdegisþunglyndi og glæpum.
Hannes Þór Halldórsson, sem varið hefur mark íslenska karlalandsliðsins í fótbolta um árabil, er hættur knattspyrnuiðkun.