Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,5 prósentur í morgun, með fjórðu hækkuninni á árinu. Ein ástæðan er launahækkanir í kjarasamningum sem seðlabankastjóri segir úr takti við veruleikann. Forseti ASÍ segir hækkunina hleypa hörku í komandi kjaraviðræður.
Ungir karlar eru fjölmennastir í hópi þeirra sem ekki hafa þegið bólusetningu. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins kannar nú ýmsar leiðir til að ná til þessa hóps, ein þeirra er með strætó. 144 smit greindust hér í gær.
Yfir helmingur landsmanna vill hertar sóttvarnaraðgerðir, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi. Fjölgun smita hafði engin áhrif á fjölda þeirra sem vill að sóttvarnaraðgerðum verði aflétt.
Stjórnvöld í Póllandi vara við því að ástandið á landamærum Hvíta-Rússlands og Póllands geti staðið mánuðum saman, jafnvel í nokkur ár. Hópur manna reyndi að komast yfir landamærin í nótt.
Efni úr Fjarðarheiðargöngum verður mögulega nýtt í landfyllingu á Seyðisfirði. Þannig yrði hægt að skapa rými undir atvinnuhúsnæði sem skemmdist í aurskiðunni í desember eða þarf að flytja vegna hættu á skriðuföllum.
Skálholtskirkjuturn er klukkulaus eftir að klukkurnar hafa bilað ein af annarri. Til greina kemur að notast við klukku frá tólftu öld til að hringja inn jólin í Skálholti þetta árið.
Ari Freyr Skúlason hefur leikið sinn síðasta leik með íslenska karlalandsliðinu í fótbolta. Hann tilkynnti þetta á Twitter nú rétt fyrir hádegi.