Gert er ráð fyrir að nýja hlaupið í Skaftá komi fram við Sveinstind í kvöld og Eldvatn í fyrramálið. Það hefur enn ekki brotist undan jöklinum. Íshellan yfir eystri katlinum lækkar stöðugt.
Lögregla hugar sérstaklega að erlendum ferðamönnum við Skaftá og senda farsímaskilaboð til að reyna að ná til fólks. Farsímasamband er slitrótt.
Sóttvarnalæknir segir ótímabært að ræða tilslakanir þar sem núverandi reglugerð hafi ekki að fullu tekið gildi.
Talibanar segjast hafa náð undir sig síðasta vígi uppreisnarmanna í Afganistan. Leiðtogi uppreisnarmanna neitar því og hvetur íbúa landsins til andófs gegn stjórn Talibana.
Forstjóri persónuverndar stendur við þau orð að ekki hafi verið nógu vel unnið að skýrslu um eignarhald stærstu útgerðarfélaga landsins. Fundur verður hjá persónuvernd á morgun með fulltrúum sjávarútvegsráðuneytis og skattayfirvalda.
Miklar væntingar eru fyrir loðnuleiðangur sem hefst ,í dag en fyrir ári mældist sterkur stofn ungloðnu sem ber uppi veiðina á komandi vertíð.
Tveir andófsmenn í Hvíta Rússlandi voru í morgun dæmdir í tíu og ellefu ára fangelsi fyrir samsæri, tilraun til valdaráns og að hafa skaðað þjóðaröryggi.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er í fimmta sæti af sex í J-riðli þegar undankeppni HM er hálfnuð. Liðið gerði 2-2 jafntefli við Norður-Makedóna í gær. Leikur Argentínu og Brasilíu var stöðvaður eftir sex mínútur vegna brots á sóttkví.