Það var ákvörðun stjórnar KSÍ að Guðni Bergsson viki úr starfi. Íslenskur toppfótbolti krefst þess að framkvæmdastjórinn axli ábyrgð og boðað verði til aukaþings KSÍ. Styrktaraðilar sambandsins ráða nú ráðum sínum.
Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir hjúkrunarfræðingi á geðdeild Landspítalans hefur verið kærður til Landsréttar. Hún er grunuð um manndráp. Búist er við niðurstöðu Landsréttar í dag eða á næstu dögum.
Byssumaðurinn á Egilsstöðum hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Hann er meðal annars sakaður um brot gegn barnaverndarlögum.
Einn er látinn eftir að fellibylurinn Ída gekk á land í Louisiana í Bandaríkjunum. Dregið hefur úr styrk fellibylsins.
Olaf Scholz, kanslaraefni Jafnaðarmanna, þótti standa sig best í sjónvarpskappræðum kanslaraefna í Þýskalandi í gærkvöld. Jafnaðarmenn mælast nú í fyrsta sinn í fimmtán ár með meira fylgi en bandalag Kristilegra demókrata.
Óþefur frá fiskþurrkun á Ólafsfirði hefur valdið íbúum óvenjumiklum ama í sumar. Heilbrigðiseftirlitinu hefur verið falið að leita lausna í málinu.
Már Gunnarsson var hársbreidd frá Íslandsmeti sínu í úrslitum í 200 metra fjórsundi á Ólympíuleikum fatlaðra í morgun. Enn er spnna í efstu deild karla í fótbolta eftir leiki helgarinnar.