16:05
Síðdegisútvarpið
10. júní
Síðdegisútvarpið

Þau Valur Grettisson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Nú er ljóst að vegaframkvæmdir í sumar verða þær umfangsmestu frá því fyrir hrun því framkvæma á fyrir 35 milljarða samkvæmt samgönguáætlun. En hvað þýðir það fyrir vegakerfi landsins og hvar verða stærstu framkvæmdirnar ? Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar kemur til okkar í þáttinn og svarar því.

Ein af stórvinkonum þáttarins og óformlegur sendiherra Íslands á Tenerife Anna Kristjánsdóttir er komin til landsins. Er hún að flýja alla þá íslendinga sem nú streyma út, er hún flutt heim og hvernig gekk að komast í gegnum landamærin? Anna segir okkur allt um málið á eftir.

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds sem sérhæfir sig í herkænsku og hlutverkjaleikjum var að gefa út nýjan leik sem heitir Starborne: Frontiers. Í honum fara spilarar í hlutverk foringja yfir geimflota sem safnar að sér geimskipum og berst við óvini úr hinum ýmsu fylkingum. Markaðsfulltrúi Solid Clouds, Eyvindur Karlsson og framkvæmdastjórinn Stefán Gunnarsson segja okkur betur frá plönum Solid Clouds og nýja leiknum.

Grænt plan Reykjavíkurborgar kveður á um að hraða skuli stafrænni umbreytingu með það að markmiði að bæta þjónustu borgarinnar. Er stefnt á að þjónustan verði nánast öll starfræn og hvað þýðir það fyrir þá sem eru ekki með tölvufærni á hreinu ? Þröstur Sigurðsson er skrifstofustjóri Stafænnar Reykjavíkur.

Nýlega var hleypt af stokkunum appi sem kallast hvorki meira né minna en Austurland. Appið er til þess að hjálpa heimafólki og þeim sem heimsækja fjórðunginn fagra við að finna þá þjónustu sem það leitar að og einnig til þess að benda á skemmtilegar ferðaleiðir um svæðið. En það er meira í appinu. Jónína Brynjólfsdóttir leiðandi hópsins á bak við forritið veit meira.

Var aðgengilegt til 10. júní 2022.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,