18:00
Spegillinn
Siðprúðir Hakkarar
Spegillinn

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Spegillinn 10.6. 2021

Umsjónarmaður: Bergljót Baldursdóttir

Mannréttindadómstóll Evrópu vill að íslenska ríkið svari af hverju níu kynferðisofbeldismál voru felld niður án þess að hljóta dómsmeðferð. Ríkislögmaður hefur frest til hausts til að svara. Rætt við Védísi Evu Guðmundsdóttur, lögmann kvennanna.

Frumvarp heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta verður ekki afgreitt á þessu kjörtímabili og ekki heldur áfengisfrumvarp dómsmálaráðherra. Forystumenn þingflokka á Alþingi reyna nú að ná samkomulagi um afgreiðslu mála fyrir þinglok.

Saksóknari í Perú fer fram á að Keiko Fujimori forsetaframbjóðandi verði sett í gæsluvarðhald. Réttarhöld eru í gangi gegn henni fyrir fjármálamisferli.

Bjartara er yfir rekstri hótela á höfuðborgarsvæðinu en var fyrir skömmu. Formaður fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu segir bókanir ganga vel.

Skýrsla Haraldar Briem fyrrverandi sóttvarnalæknis um skimanir fyrir leghálskrabbameini verður ekki birt fyrr en hún hefur verið prófarkalesin og umbroti lokið, segir Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis. Það hafi verið of mikil bjartsýni að ætla að hún yrði tilbúin fyrr en í vikulok. Þetta kom fram í svari hans til Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og formanns velferðarnefndar.

Lengra umfjöllunarefni:

Framkvæmdastjóri SA segir ekki ganga upp að atvinnurekendur séu í stökustu vandræðum með að manna störf. Forseti ASÍ segir að ekki megi líta á atvinnulaust fólk sem einhverja lagervöru. Arnar Páll Hauksson, fjallar um atvinnuleysi og ræðir við Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og Drífu Snædal, forseta ASÍ. Einnig heyrist í Ásmundi Einari Daðasyni, félagsmálaráðherra og Birnu Guðmundsdóttur, deildarstjóra gagnagreininga hjá Vinnumálastofnun.

Íslendingar eru aftarlega á merinni í tölvuöryggismálum. Sérfræðingur segir að fá eigi siðprúða hakkara til að finna öryggisgalla í kerfum hins opinbera. Bergljót Baldursdóttir ræðir við Theódór R Gíslason, tæknistjóra hjá tölvuöryggisfyrirtækinu Syndis og Guðmund Arnar Sigmundsson, forstöðumann netöryggissveitarinnar CERT-IS

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 30 mín.
,