06:50
Morgunútvarpið
29. apr.-Matarvagn, málfar, nauðgunarmál, Þorlákshöfn, Natan, Airwaves
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir, Rúnar Róbertsson og Hulda G. Geirsdóttir.

Þúsundir Íslendinga hafa farið að gosstöðvunum á Reykjanesskaga undanfarnar vikur. Flestir vel nestaðir en það stoppaði ekki Issa í því að mæta á bílastæðið með matarvagninn sinn til að bjóða göngufólki uppá íslenskan fisk og franskar. Við hringdum í Issa eða Jóhann Issa Hallgrímsson og forvitnuðumst um viðtökurnar.

Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðunautur var hjá okkur um hálfátta og að þessu sinni ræddi hún kynhlutlaus nöfn.

Anna Lára Friðfinnsdóttir og Eva Huld Ívarsdóttir hafa tekið saman tölur um niðurfelld nauðgunarmál á Íslandi á síðustu 20 árum og þær áætla að um 1600 slík mál hafi verið felld niður á þeim tíma. Þær hafa sett af stað verkefni með það að markmiði að afhjúpa og gera sýnilegt það kerfislæga vandamál sem þær telja að felist í því að nauðgunarmál eru ekki tekin nægilega alvarlega í réttarvörslukerfinu. Þær komu til okkar og sögðu okkur af verkefni sínu sem felst m.a. í því að bjóða fólki að taka þátt í gerð 1600 leirstytta.

Covid smit á Suðurlandi hafa haft mikil áhrif á mannlífið þar um slóðir síðustu daga, til að mynda í Þorlákshöfn þar sem fjöldi fólks er í sóttkví eftir að smit greindust á svæðinu. Við tókum stöðuna hjá Elliða Vignissyni bæjarstjóra Ölfuss eftir átta fréttir.

Morgunútvarpið hefur fylgst vel með Natani Degi, íslenskum strák sem tekur þátt The Voice í Noregi um þessar mundir. Hann sló heldur betur í gegn í fyrstu áheyrnarprufunni. Nú líður að lokum keppninnar og Natan Dagur er kominn í 16 manna úrslitin. Flutningur hans sl. föstudagskvöld á lagi Rihönnu, Stay, vakti athygli og hefur myndbandinu við lagið á Youtube verið streymt ríflega 100 þúsund sinnum. Við hringdum til Noregs og tókum stöðuna á Natani Degi ásamt því að heyra flutning hans síðan á föstudaginn var.

Og við héldum áfram í tónlistinni því heimsfaraldrinum hefur ekki tekist að gera út af við Airwaves tónlistarhátíðina, nema síður sé. Undirbúningur fyrir Iceland Airwaves í ár er í fullum gangi og við fengum nýjustu tíðindi af væntanlegri dagskrá þegar Sindri Ástmarsson dagskrárstjóri Airwaves leit við hjá okkur undir lok þáttar.

Tónlist:

Emilíana Torrini - Me and Armini.

Pretenders - Dont get me wrong.

Biig Piig - Feels right.

Bruno Mars, Anderson Paak og Silk Sonic - Leave the door open.

Friðrik Dór - Segðu mér.

Van Morrison - Only a song.

Howard Jones - No one is to blame (ft. Phil Collins).

Natan Dagur - Stay (upptaka úr The Voice í Noregi).

Arlo Parks - Caroline.

Johnny Nash - I can see clearly now.

Var aðgengilegt til 29. apríl 2022.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,