06:50
Morgunútvarpið
11. mars - Bíó, málfar, Kvennaathvarf, ferðalög og leigubætur
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir, Rúnar Róbertsson og Hulda G. Geirsdóttir.

Ísland: bíóland er heimildaþáttaröð í tíu hlutum um sögu íslenskra kvikmynda sem hefur göngu sína á RÚV á sunnudaginn kemur. Hver þáttur tekur ákveðið tímabil fyrir, fjallað er um kvikmyndir þess tíma og valdir kaflar sýndir úr þeim. Farið er yfir inntak þeirra, áherslur, nálgun og aðstæður við gerð myndanna. Ásgrímur Sverrisson leikstýrir þáttaröðinni, skrifar handrit og er þulur. Hann sagði okkur nánar af þáttunum.

Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðunautur kom til okkar í sitt vikulega málfarsspjall. Þar ræddum við m.a. mál sem kom upp í þættinum í gær og varðar fingur og lófa sem klæjar í.

Stjórn samtaka um kvennaathvarf hefur ákveðið að framlengja tilraunaverkefni um kvennaathvarf á Norðurlandi. Komið hefur í ljós að þörfin er til staðar og verkefnið hefur því verið framlengt um hálft ár í viðbót, eða út árið 2021. Gígja Hólmgeirsdóttir sló á þráðinn til Signýjar Valdimarsdóttur, verkefnastýru Kvennaathvarfsins á Norðurlandi, og forvitnaðist um stöðuna.

Svo virðist sem Íslendingar séu orðnir ferðaþyrstir enda virðist vera uppselt í margar páskaferðir, t.d. til Spánar þetta árið, þrátt fyrir heimsfaraldur. En hverjir eru að ferðast og hvert er hægt að ferðast? Hvað með mánuðina framundan? Birna Ósk Einarsdóttir framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair kom til okkar og spáði í ferðaspilin.

Foreldri tveggja framhaldsskólanema gagnrýnir þann aðstöðumun sem nemar af landsbyggðinni búa við. Hún segir að svo virðist sem að húsnæðisbætur séu aðeins fyrir útvalda. Á meðan nemar séu undir 17 ára fái þeir bætur frá sveitarfélagi sínu en um leið og viðkomandi er orðin 18 ára og sendir inn umsókn til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar komi annað hljóð í strokkinn og þá gildi önnur lög. Ágústa Ágústsdóttir, íbúi á Norðausturlandi, skrifaði grein um þetta í Vikublaðið á dögunum. Við heyrðum í henni.

Tónlist:

Magni og Ágústa Eva - Þar til að storminn hefur lægt.

Myrra Rós - Kveldúlfur.

Stereophonics - Have a nice a day.

The Beatles - Eleanor Rigby.

Whitney Houston - One moment in time.

Ellen Kristjánsdóttir og John Grant - Veldu stjörnu.

Linda Ronstadt - When will I be loved.

Bríet - Fimm.

Weezer - Buddy Holly.

Var aðgengilegt til 11. mars 2022.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,