16:05
Tengivagninn
Kex, El Grillo, jarðkynhneigð og Reykjavík Fringe
Tengivagninn

Í Tengivagninum er fjallað um það helsta sem er að gerast í menningu í sumar. Við lítum út á landsbyggðina, hverfum aftur í tímann og horfum út fyrir landssteinana. Kafað verður á dýpið, og spjallað við fjölbreytta listamenn á léttu nótunum. Tengivagninn, alla virka daga í sumar.

Í þætti dagsins verður hugað að hátíðinni Reykjavík Fringe Festival sem hófst um helgina og stendur yfir til 11 júlí. Tengivagninn bregður sér niður í Aðalstræti og ræðir við Nönnu Gunnars stjórnanda og skipuleggjanda hátíðarinnar. En við fáum líka til okkar Magnús Thorlacius en á Reykjavík Fringe Festival flytur hann 20 mínútna útvarpsleikritið El Grillo með enskum texta í Aðalstræti 2.

Agnes Ársælsdóttir og Sylvía Dröfn Jónsdóttir hafa á síðustu mánuðum rannsakað mismunandi sambönd fólks við náttúruna með því að taka viðtöl við ýmsa aðila. Þær höfðu í huga hugtakið jarðkynhneigð sem er frekar nýtt af nálinni en það er ákveðið form af aktívisma sem felur í sér að breyta sambandi sínu við jörðina í ástarsamband í stað þess að líta á hana sem móður jörð. Við spilum fyrsta innslag þeirra af sex um fyrirbærið í þætti dagsins.

Og í seinni hluta þáttarins fáum við til okkar góða gesti sem ætlar að sitja með okkur og ræða lífið og listina út frá þemanu KEX. Það er AABA eða leikhópurinn kex, skipaður þeim Önnulísu Hermannsdóttur sviðshöfundi og tónlistarkonu, Almari Blæ Sigurjónssyni leikara, Björgu Steinunni Gunnarsdóttur sviðshöfundanema og Andrési Þór Þorvarðarsyni tónskáldi.

Umsjón: Tómas Ævar Ólafsson, Melkorka Gunborg Briansdóttir og Jóhannes Ólafsson.

Er aðgengilegt til 06. júlí 2022.
Lengd: 1 klst. 47 mín