Mynd:
Uppbygging hæfni og mannauðs í stefnu RÚV
- Störf í fjölmiðlun eru í sífelldri framþróun í takt við örar breytingar á tækni og samfélagi. Hver starfsmaður ber ábyrgð á því að þróa stöðugt þekkingu sína og færni.
- Skil ritstjórnarvinnu og tæknivinnu eru að leysast upp. Þetta skapar ný og spennandi tækifæri í þróun og miðlun efnis.
- Samþætting tækni- og dagskrárhugsunar, breiðrar hæfni og djúprar þekkingar er lykillinn að bættri þjónustu RÚV til framtíðar. Áhersla er því lögð á að þróa hæfni alls starfsfólks til að vinna með nýja tækni sem vaxandi þátt í öllu starfi RÚV. Starfsfólk í dagskrárgerð og á fréttastofu vinnur sjálft efni sitt til birtingar á vef.
- Efni er unnið heildstætt þvert á miðla þar sem tækni er leið að markmiðinu en ekki markmið í sjálfri sér. Þessi þróun kallar á nýja hugsun, innviði, færni, þjálfun og mönnun, þar sem teymi dagskrárgerðar- og tæknimanna bera sameiginlega ritstjórnarlega og tæknilega ábyrgð á þróun, fréttamiðlun og dagskrárgerð. Allt starfsfólk er þjálfað í vinnslu þvert á miðla. Meginmarkmið: Aukin tæknihæfni fyrir fjölbreyttari miðlun.
- RÚV vinnur markvisst að þjálfun og fræðslu allra starfsmanna, með því að byggja upp RÚV–skólann. Uppbygging þjálfunar tekur í meira mæli mið af reynslu systurstöðva RÚV jafnframt því sem þekking innanhúss er nýtt til fullnustu.
- Skýrar kröfur eru gerðar til starfsmanna um hæfni þeirra og fagmennsku í starfi og hún er metin með reglubundnum hætti. Vandað er til við innleiðingu nýrra kerfa og vinnubragða.
- RÚV fylgir skýru ráðningarferli þar sem störf eru skilgreind í takt við umfang og þróun starfseminnar. Ráðning miðast við það að fá til starfa hæfasta einstaklinginn sem uppfyllir jafnframt kröfur um fjölbreytni hópsins.
- Fagleg móttaka allra nýrra starfsmanna og öflug þjálfunaráætlun í upphafi starfs styður við kröfur RÚV um gæði og fagmennsku í allri starfsemi.
Meginmarkmið RÚV fyrir uppbyggingu hæfni og mannauðs:
Skipuleg þjálfun og móttaka efld
Aukin tæknihæfni fyrir fjölbreyttari miðlun