Ráðningar í störf hjá RÚV

Myndir frá Tónaflóði Rásar 2 2017
 Mynd: Freyja Gylfadóttir - RÚV

 

RÚV hefur skuldbundið sig til að auglýsa til umsóknar öll laus framtíðarstörf. Það hjálpar okkur að vanda ráðningaferli og eykur líkur á að sem hæfastir einstaklingar ráðist til starfa. Til að viðhalda öflugri starfsþróun leggjum við einnig upp úr því að starfsfólk geti færst til innanhúss án auglýsingar ef ekki er um stjórnunarstöðu að ræða. Við leggjum okkur fram um að við ráðningar sé farið eftir opnu, faglegu og gagnsæju ferli og viljum halda góðu sambandi við umsækjendur um störf hjá okkur.

Við ráðningu í störf hjá RÚV eru allir áhugasamir hvattir til að sækja um laus störf hjá RÚV óháð kyni eða uppruna.

Útfylling umsóknar

Vinsamlega fyllið umsóknareyðublaðið vel út og við óskum eftir meðfylgjandi ferilskrá og kynningarbréfi.

Meðferð umsókna og samskipti við umsækjendur

Við förum með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Við upplýsum umsækjendur um framgang ráðningarferlisins og svörum öllum umsóknum um auglýst störf þegar ráðið hefur verið í starfið. Umsóknir geta gilt í 6 mánuði. Sé skilað inn almennri umsókn er ekki gert ráð fyrir að henni sé svarað sérstaklega. Umsækjendalisti er ekki birtur nema þegar stjórnunarstörf eru auglýst, sé þess óskað.

Val í viðtöl

Við veljum einstaklinga í viðtal á grundvelli innsendra gagna eins og ferilskrár. Ekki er leitað umsagna nema að fengnu leyfi umsækjanda til þess og við meðhöndlum allar umsóknir sem trúnaðarmál. Viðtöl eru oft tvö og er hringurinn þrengdur í seinna viðtalinu og þeir umsækjendur sem koma helst til greina eru boðaðir í annað viðtal. Viðkomandi yfirmaður tekur viðtalið ásamt mannauðsstjóra eða öðrum úr mannauðsdeild.

Val á starfsmanni

Oft fáum við margar umsóknir hæfra einstaklinga. Það er ávallt gleðiefni og við leggjum okkur fram um að sinna ráðningarferlinu af alúð. Valið er oft erfitt en þau sjónarmið sem ber hæst við mat á hæfni einstaklinga eru menntun, reynsla og þekking. Stundum eru verkefni lögð fyrir umsækjendur sem varpa ljósi á vinnubrögð, aðra hæfni og framsetningu þekkingar og í sumum tilfellum eru lögð próf fyrir umsækjendur. Það er til dæmis alltaf gert við ráðningar í störf á fréttastofu og í dagskrárgerð. Að lokum leitum við umsagna eftir atvikum.