Færslur: Zika-veiran

Fyrstu prófanir á bóluefni gegn zika-veirunni lofa góðu
Fyrsta bóluefnið sem þróað hefur verið gegn zika-veirunni lofar góðu. Fyrstu prófanir á efninu, sem þróað var í Bandaríkjunum, benda til allt að 80 prósenta virkni.
17.02.2021 - 06:30
Zika ekki lengur „bráð heilbrigðisvá“
Zika-veiran og útbreiðsla hennar er ekki lengur skilgreind sem bráð, alþjóðleg heilbrigðisvá í bókum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO. Níu mánuðir eru liðnir frá því að útbreiðsla Zika-veirunnar var skilgreind sem bráð og alþjóðleg heilbrigðisvá. Breytingin nú þýðir þó ekki að sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar líti svo á, að hættan af völdum Zika sé liðin hjá. Þvert á móti felst í þessu skrefi í raun viðurkenning á því, að Zika-veiran sé komin til að vera.
19.11.2016 - 05:54
Zika veiran veldur dvergheila í Taílandi
Tvö tilfelli dvergheila af völdum Zika veirunnar hafa verið greind í Taílandi, þau fyrstu í Suðaustur-Asíu. Heilbrigðisyfirvöld greindu frá því að þriðja tilfelli dvergheila hafi einnig greinst en ekki hefur fengist staðfest um hvort það tengist Zika veirunni.
01.10.2016 - 01:46
Hætta á útbreiðslu Zika veiru í Asíu og Afríku
Hætta er á að Zika veiran breiðist út um Asíu og Afríku að sögn vísindamanna. Um tveir milljarðar búa á þeim svæðum þar sem hætt er við útbreiðslu. Mörg tilfelli veirunnar hafa verið tilkynnt í Singapúr. Íbúar landa á borð við Indland, Indónesíu og Nígeríu eru sagðir í mestri hættu.
02.09.2016 - 02:13
Zika-veira ógnar ferðaþjónustu á Miami Beach
Fimm hafa síðustu daga greinst með Zika-veirusmit á hinum vinsæla ferðamannastað Miami Beach í Flórída-ríki í Bandaríkjunum. Yfirvöld segja ljóst að fólkið hafi sýkst á ferðamannastaðnum, nánar tiltekið á tæplega fjögurra ferkílómetra kafla við ströndina. Smit hafa ekki átt sér stað í öðrum ríkjum. 
19.08.2016 - 19:07
Neyðarástand vegna Zika á Puerto Rico
Bandarísk heilbrigðisyfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi á Puerto Rico vegna Zika-veirufaraldurs, sem þar hefur geisað um skeið. Nær 11.000 manns hafa smitast til þessa. Zika-veiran berst með moskítóflugum. Hún er ekki sérlega hættuleg fullhraustu fólki og sjaldan banvæn, en er sérlega skeinuhætt barnshafandi konum, þar eð hún getur valdið alvarlegum fósturskaða. 1.035 þungaðar konur eru á meðal þeirra 10.690 eyjarskeggja sem smitast hafa í faraldrinum síðustu 7 mánuði.
13.08.2016 - 05:28
Lést í Bandaríkjunum af völdum zika-veirunnar
Aldraður íbúi í Utah ríki í Bandaríkjunum lést nýlega af völdum zika-veirunnar. Að sögn heilbrigðisyfirvalda í Salt Lake-sýslu hafði viðkomandi nýlega ferðast til lands þar sem veiran er útbreidd. Þau gefa ekki upp kyn þess sem lést og ekki til hvaða lands hann eða hún hafði ferðast. Þetta er í fyrsta sinn sem zika-veiran dregur manneskju til dauða á meginlandi Bandaríkjanna.
08.07.2016 - 22:48
Ísland með á ÓL þrátt fyrir Zika
Eitt hundrað og fimmtíu virtir vísindamenn hvetja til þess í opnu bréfi til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að Ólympíuleikunum í sumar verði seinkað eða þeir fluttir. Ástæðan er Zika-veiran sem breiðst hefur hratt út í Brasilíu. Stofnunin telur ekki ástæðu til að verða við áskorununinni. Íslensk íþróttayfirvöld ætla að fylgja ráðleggingum stofnunarinnar.
Vara við enn frekari útbreiðslu zika-veirunnar
Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar vara við því að zika-veiran eigi eftir að breiðast umtalsvert út á næstu mánuðum. Moskítóflugurnar vakni á næstunni til lífsins í Evrópu ogf því sé fyrirsjáanlegt að hún breiðist út á stöðum sem hennar hefur lítt eða ekki orðið vart hingað til. Rástefna um zika-veiruna og útbreiðslu hennar stendur yfir í París.
25.04.2016 - 09:52
2,2 milljarðar á mögulegu útbreiðslusvæði Zika
2,2 milljarðar manna búa á svæðum þar sem skilyrði eru hagstæð fyrir útbreiðslu Zika-veirunnar. Vísindamenn frá háskólum í Bretlandi, Ástralíu, Bandaríkjunum, Kanada og Þýskalandi og heilbrigðisráðuneyti Brasilíu unnu sameiginlega að því að kortleggja þau landsvæði í heiminum, þar sem Aedes aegypti-moskítóflugan fær þrifist og dafnað og önnur skilyrði fyrir útbreiðslu veirunnar, svo sem þéttbýli manna, eru fyrir hendi.
21.04.2016 - 02:30
Zika-veiran jafnvel skæðari en óttast var
Zika-veiran er meiri ógn er ætlað var í fyrstu og gæti gert meiri usla í Bandaríkjunum en spáð var segja þarlendir embættismenn í heilbrigðisgeiranum. Vonast er til að þróun bóluefnis verði nógu langt á veg komin síðsumars til að hægt verði að hefja tilraunir á mönnum strax í september. Almenn dreifing og notkun bóluefnis getur þó tæpast hafist fyrr en í ársbyrjun 2018.
Telur ólympíufara ekki þurfa að óttast Zika
Margaret Chan, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir heiminn eiga langa baráttu fyrir höndum í stríðinu við Zika-veiruna. Hún kveðst þó sannfærð um að Brasilíumönnum takist að halda ólympíleikana í sumar án teljandi vandræða þrátt fyrir áhyggjur af Zika-verunni. Nú væri febrúar, en leikarnir yrðu ekki fyrr en í ágúst.
24.02.2016 - 01:57
Segir Ólympíufara ekkert hafa að óttast
Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, segir að zika-veiran sé engin ógn við Sumarólympíuleikana, sem verða settir í ágúst. Forsetinn lýsti því yfir í dag að langur tími væri til stefnu til að fækka moskítóflugunum sem bera veirusmitið. Þátttakendurnir hefðu því ekkert að óttast.
13.02.2016 - 15:11
Hálft annað ár í bóluefni gegn zika-veiru
Ekki verður byrjað að bólusetja fólk gegn zikaveiru fyrr en eftir hálft annað ár, að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Um það bil fimmtán fyrirtæki og starfshópar vinna við þróun bóluefnisins. Þegar því starfi er lokið taka við langar prófanir á virkninni áður en heimilað verður að bólusetja fólk gegn veirunni, að sögn Marie-Paule Kieny, aðstoðarforstjóra stofnunarinnar.
12.02.2016 - 10:07
Eiturherferð gegn Zika-veirunni í Brasilíu
Sannkölluð herferð gegn útbreiðslu Zika-veirunnar stendur fyrir dyrum í Brasilíu. Á laugardag munu um 220.000 hermenn ganga hús úr húsi í 350 borgum bæjum og sveitum landsins og dreifa upplýsingabæklingum um veiruna og varnir gegn henni inn á þrjár milljónir heimila. Þar er meðal annars útskýrt að moskítóflugurnar sem dreifa henni fjölgi sér iðulega inni á heimilum fólks, en lirfur þeirra þrífast til dæmis ágætlega í stöðnu vatni í vökvunarkönnum og blómapottum.
12.02.2016 - 02:49
Zika-veiran, hvað vitum við?
Tengsl Zika-veirunnar og höfuðsmæðarheilkennis, alvarlegs fæðingargalla hjá nýburum, eru vísindamönnum enn ráðgáta. Sérfræðinga Alþjóðaheilbrigismálastofnunarinnar grunar þó sterklega að veiran sé valdur þess að í fyrra fæddust 4000 börn með heilkennið í Brasilíu, samanborið við 147 árið á undan. Faraldurinn nær nú til yfir 20 ríkja í Mið- og Suður-Ameríku og Frönsku Pólýnesíu. Veiran ógnar ekki lýðheilsu hér á landi að sögn sóttvarnarlæknis.
03.02.2016 - 18:47
Zika-veiran gæti smitast við kynmök
Zika-veiran gæti smitast til þriðja aðila með kynmökum. Sóttvarnarlæknir segir mikilvægt að þeir sem koma frá svæðum þar sem Zika-veiran geisar noti verjur í um tvo mánuði eftir heimkomu.
03.02.2016 - 12:26
Taílendingur smitaður af Zika-veirunni
Heilbrigðisyfirvöld í Taílandi segja að rúmlega tvítugur karlmaður hafi nýlega smitast af Zika-veirunni. Hann var lagður inn á sjúkrahús, en hefur verið útskrifaður.
02.02.2016 - 14:45
Zika-veiran hefur engin áhrif á ÓL í Ríó
Útbreiðsla zika-veirunnar í Brasilíu hefur ekki áhrif á Ólypíuleikana sem halda á í Rio de Janeiro í ágúst. Zika-veiran er talin valda heilaskaða hjá börnum í móðurkviði. Um það bil fjögur þúsund börn hafa fæðst í Brazilíu með vanskapaða höfuðkúpu og alvarlegan heilaskaða af völdum veirunnar, að talið er.
02.02.2016 - 09:32