Færslur: United Silicon

Kemur til greina að taka verksmiðjuna niður
Mikil óvissa er um niðurstöðu söluferlis kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Arion banki hefur fært niður bókfært virði verksmiðjunnar en til greina kemur að taka hana niður.
16.03.2021 - 17:41
Magnúsi gert að greiða 1,2 milljarða króna
Héraðsdómur Reykjaness hafnaði í dag kröfu Magnúsar Ólafs Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra United Silicon um að mál gegn þrotabúi Sameinaðs Sílíkons verði endurupptekið. Dómstóllinn hafi áður gert honum að greiða þrotabúinu 1,2 milljarða króna
09.07.2020 - 20:11
Annmarkar í útgáfu byggingarleyfa fyrir United Silicon
Annmarkar voru á skipulagsferli Reykjanesbæjar og útgáfu byggingarleyfa fyrir United Silicon í Helguvík. Þetta kemur fram í drögum að úttekt á stjórnsýsluháttum vegna kísilverksmiðju United Silicon hf. Ekkert í samskiptum sveitarfélagsins og fyrirtækisins gefi tilefni til að ætla að annarleg sjónarmið hafi ráðið för.
04.06.2020 - 17:17
Kyrrsetti fasteignir og bíl í eigu Magnúsar
Sýslumaður hefur kyrrsett tvær fasteignir og bíl í eigu Magnúsar Ólafs Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra Sameinaðs Silicon. Geir Gestsson, skiptastjóri þrotabúsins, hefur stefnt Magnúsi fyrir Héraðsdóm Reykjaness og krefst þess að kyrrsetningin verði staðfest. Um er að ræða fasteigna ð Huldubraut í Kópavogi, að Islandsvej í Danmörku og Mercedes Benz.
26.09.2019 - 23:08
Ætla að minnka mengun með 52 metra skorsteini
Áætlað er að reisa 52 metra háan skorstein við kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík í Reykjanesbæ. Bygging hans er meðal endurbóta sem ætlað er að minnka mengun frá verksmiðjunni. Stakksberg, sem er dótturfélag Arion banka, ætlar í september að gera drög að umhverfismatsskýrslu vegna kísilverksmiðjunnar, opinber. Þá verður opnað fyrir athugasemdir. Áætlað er að framkvæmdir við endurbætur verksmiðjunnar hefjist eftir áramót.
23.08.2019 - 14:10
Breytt ásýnd kísilverksmiðju samkvæmt tillögum
Tillögur í samráðsgátt Stakksbergs, dótturfélags Arion banka, að áframhaldandi uppbyggingu kísilverksmiðju í Helguvík, sýna breytta ásýnd svæðisins, nái áform þar að lútandi fram að ganga. Forsvarsmaður samtakanna Andstæðingar stóriðju í Helguvík segir málið farsa.
11.07.2019 - 06:30
Fara yfir gögn frá Stakksbergi
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar frestaði afgreiðslu á tillögu Stakksbergs um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík í byrjun mánaðarins. Fram hefur komið í máli fulltrúa meirihlutans að hægt sé að skoða möguleika á íbúakosningu þegar Stakksberg óski eftir breytingum á deiliskipulagi. Stakksberg ætlar að láta lagfæra kísilverksmiðjuna í Helguvík sem áður var kennd við United Silicon og þarf því að óska eftir breytingum á deiliskipulagi.
20.05.2019 - 12:19
Kísilverksmiðja eykur losun Íslands um 10%
Losun á gróðurhúsalofttegundum hér á landi eykst um rúm 10 prósent ef starfsemi verður hafin á ný í kísilverksmiðjunni í Helguvík, sem áður hét United Silicon. Þetta kemur fram í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn fréttastofu. Dótturfélag Arion banka, Stakksberg, vinnur nú að endurbótum á verksmiðjunni og ætlar að selja hana.
Fleiri mál tilkynnt til héraðssaksóknara
Skiptastjóri þrotabús United Silicon hefur á undanförnum mánuðum tilkynnt nokkur ný mál er viðkoma þrotabúinu til héraðssaksóknara. Kröfur í búið nema um 23 milljörðum króna. Eins og staðan er nú er líklegt að ekkert fáist upp í almennar kröfur, né launakröfur.
24.04.2019 - 06:16
Krefst mats á áhrifum verksmiðju á heilsu
Skipulagsstofnun hefur fallist á tillögu Stakksbergs ehf. að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum kísilverksmiðjunnar í Helguvík í Reykjanesbæ. Stofnunin gerir þó nokkrar athugasemdir við matsáætlunina og tekur undir með Embætti landlæknis um að æskilegt sé að meta hvaða áhrif starfsemin hafi á heilsu íbúa.
17.04.2019 - 06:02
Sammála um vægi íbúa en tókust samt á
Tekist var á um íbúakosningu um framtíð stóriðju í Helguvík á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær. Lögmaður bæjarfélagsins komst á dögunum að þeirri niðurstöðu að söfnun undirskrifta hefði ekki verið lögum samkvæmt. Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins, hvatti aðstandendur undirskriftasöfnuninnar til að kæra þá niðurstöðu til ráðuneytis. Meirihlutinn segir ekki útilokað að íbúakosning fari fram þegar Stakksberg óskar eftir breytingu á deiliskipulagi í vor.
03.04.2019 - 14:10
Undirskriftasöfnun ekki samkvæmt reglum
Undirskriftasöfnun samtakanna Andstæðinga stóriðju í Helguvík var ekki framkvæmd samkvæmt sveitarstjórnarlögum og getur því ekki orðið grundvöllur íbúakosninga, að því er fram kemur í fundargerð fundar bæjarráðs Reykjanesbæjar í gær. Einar Atlason, formaður samtakanna, segir þessa niðurstöðu ekki breyta því að þau hafi safnað undirskriftum fjórðungs kosningabærra íbúa. Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs segir niðurstöðuna ekki útiloka að íbúakosning fari fram.
29.03.2019 - 11:30
Hafa varið 20 milljörðum í kísilverksmiðjuna
Rúmum 20 milljörðum króna hefur þegar verið varið í uppbyggingu kísilverksmiðju í Helguvík og því hefur sá möguleiki ekki verið skoðaður innan Arion banka að leggja verksmiðjuna niður. Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn fréttastofu um umhverfisstefnu bankans. Aðild bankans að samtökum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, UN PRI, kemur ekki í veg fyrir fjárfestingar í stóriðju.
26.02.2019 - 06:51
Um 2.700 manns gera kröfu um íbúakosningu
Samtök andstæðinga stóriðju í Helguvík afhentu í gær Friðjóni Einarssyni, forseta bæjarráðs í Reykjanesbæ, undirskriftarlista þar sem þess er krafist að íbúar fái að kjósa um það hvort kísilverksmiðja Stakksbergs, áður United Silicon, fái að hefja starfsemi á ný og um það hvort kísilverksmiðja Thorsil verði reist í bæjarfélaginu.
13.02.2019 - 11:53
Vilja kanna bótaábyrgð sérfræðinga
Lagt er til að skoðað verði möguleg bótaábyrgð af þætti sérfræðinga og ráðgjafa í fjárfestingarferli fimm lífeyrissjóða í United Silicon. Þetta kemur fram í skýrslu sem lögmannsstofan LMB Mandat hefur unnið fyrir Festa lífeyrissjóð, Eftirlaunasjóð atvinnuflugmanna, Brú lífeyrissjóð B-deild vegna Eftirlaunasjóðs Reykjanesbæjar, Frjálsa lífeyrissjóðinn og Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbankans.
01.02.2019 - 16:29
Meirihluti andvígur stóriðju í Helguvík
Rúm 70 prósent íbúa í Reykjanesbæ eru mjög eða frekar andvíg uppbyggingu stóriðju í Helguvík, samkvæmt könnun Gallup. Það er svipað hlutfall og í sambærilegri könnun í fyrra. 39 prósent íbúa eru aftur á móti mjög eða frekar hlynnt stóriðju ef hún uppfyllir ströngustu umhverfiskröfur.
01.02.2019 - 08:20
Hvetja Arion banka og Thorsil til að hætta við
Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og fulltrúi Miðflokksins vilja að Arion banki og Thorsil falli frá áformum sínum um rekstur kísilverksmiðja í Helguvík. Greint er frá þessu á vef Víkurfrétta.
22.01.2019 - 23:06
Spyrja ráðuneytið hvort íbúakosning sé möguleg
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ætla að leita álits sveitarstjórnarráðuneytisins á því hvort hægt sé að halda íbúakosningu um framtíð stóriðju í Helguvík. Sérfræðingur í stjórnsýslurétti segir óljóst hvort slík kosning yrði lögleg.
17.12.2018 - 12:10
Bæjaryfirvöld hlynnt íbúakosningu um Helguvík
Forseti bæjarráðs í Reykjanesbæ, Friðjón Einarsson, er hlynntur því að íbúar fái að kjósa um framtíð stóriðju í Helguvík. Hann segir að Stakksberg, eigandi kísilverksmiðjunnar, þurfi að líta í eigin barm. Stakksberg er í eigu Arion banka sem fjármagnaði United Silcon að stórum hluta á sínum tíma.
15.12.2018 - 19:50
Hafa safnað á þriðja þúsund undirskrifta
Hátt í þrjú þúsund hafa skrifað undir hvatningu til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ um að efna til bindandi íbúakosningar um stóriðju í Helguvík. Rafrænni undirskriftasöfnun lauk á miðnætti.
15.12.2018 - 12:50
Úrbætur á kísilverinu rúmum milljarði dýrari
Rúmum milljarði meira kostar að bæta úr kísilveri United Silicon en áður var talið, meðal annars vegna þess að hráefnisgeymslur þóttu of ljótar. Vonast er til að hægt verði að gangsetja verksmiðjuna haustið 2020 og stjórnarformaðurinn sér ekki fyrir sér að skoðanir íbúa breyti því.
20.11.2018 - 18:12
Hafna beiðni kísilverksmiðju
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hafnaði í gær beiðni Stakksbergs ehf., eiganda kísilversins í Helguvík, um að skipulags- og matslýsing verði tekin til meðferðar. Fyrirtækið óskaði einnig eftir heimild til að vinna deiliskipulagsbreytingu í samræmi við matslýsinguna.
13.10.2018 - 09:27
Þrotabú United Silicon stefnir Magnúsi aftur
Þrotabú United Silicon hefur höfðað annað skaðabótamál á hendur Magnúsi Garðarssyni, stofnanda félagsins, fyrir meint fjársvik hans. Málið var höfðað í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun ágúst og snýst um 570 þúsund evrur, jafnvirði rúmlega 71 milljónar króna, sem Magnús er talinn hafa látið leggja inn á bankareikning í Danmörku og nýtt í eigin þágu.
23.08.2018 - 12:31
Vilja áhrif niðurrifs í matsáætlun
Umhverfisstofnun hefur gert athugasemdir við að ekki sé fjallað um þann kost að sleppa því að endurræsa kísilverksmiðjuna í Helguvík í drögum að tillögu að matsáætlun vegna nýs umhverfismats. Meðal annarra athugasemda stofnunarinnar er að kanna þurfi betur áhrif framkvæmda á fuglalíf.
17.07.2018 - 08:39
Yfir 100 athugasemdir við drög matsáætlunar
Alls bárust 112 athugasemdir við drög að tillögu að matsáætlun vegna nýs umhverfismats fyrir kísilverksmiðju í Helguvík, sem áður var í eigu United Silicon. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum í lok júní og var óskað eftir athugasemdum við hana fyrir 10. júlí síðastliðinn.
16.07.2018 - 09:14