Færslur: Túnis

Túnisforseti heldur þinginu enn frá völdum
Kais Saied, forseti Túnis, hefur framlengt hlé það á störfum þingsins, sem hann fyrirskipaði fyrir réttum mánuði síðan. Þá gaf hann út tilskipun um mánaðarlangt hlé en að þessu sinni mælir hann fyrir um ótímabundið hlé á þingstörfum. Um leið framlengir hann niðurfellingu á þinghelgi sitjandi þingmanna.
24.08.2021 - 02:26
Þjóðarsorg í Alsír þar sem 65 eru látin í skógareldum
Forseti Alsír lýsir yfir þriggja daga þjóðarsorg í landinu til að minnast þeirra sextíu og fimm sem látið hafa lífið í gríðarlegum skógareldum. Stjórnvöld grunar sterklega að eldarnir hafi kviknað af mannavöldum.
11.08.2021 - 15:47
Túnisforseti hvattur til að virða leikreglur lýðræðis
Bandaríkjastjórn hvetur Túnisforseta til að mynda starfhæfa ríkisstjórn svo hægt verði að takast á við erfiðleika í landinu. Hann þurfi að hafa lýðræði að leiðarljósi.
Saied Túnisforseti tilnefnir nýjan innanríkisráðherra
Kais Saied, forseti Túnis, tilnefndi í gær innanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn sinni. Ridha Gharsallaoui sem áður var öryggisráðgjafi ríkisins tekur nú við sem innanríkisráðherra en enn liggur ekki fyrir hver verði nýr forsætisráðherra.
30.07.2021 - 05:17
Heimsglugginn
Heimsglugginn: Spenna í Túnis
Mikil spenna ríkir í Túnis eftir að Kais Saied, forseti, rak forsætisráðherrann og sendi þingið í leyfi. Andstæðingar forsetans saka hann um valdarán og einræðistilburði. Forsetinn, sem var prófessor í stjórnlagarétti, vísar því á bug að hann hafi rænt völdum og segir þá sem haldi því fram þurfa að læra lögfræði sína betur.
Pólítísk óvissa ríkir enn í Túnis
Pólítísk óvissa eykst enn í Túnis en Kais Saied forseti landsins rak fleiri embættismenn í gær, nokkrum dögum eftir að hann rak Hichem Mechichi forsætisráðherra landsins og skipaði þingmönnum í þrjátíu daga leyfi.
Túnis
Forsetinn rak forsætisráðherrann og tók sér öll völd
Kais Saied, forseti Túnis, rak í kvöld forsætisráðherra landsins og skikkaði þingið í leyfi, eftir mikil og fjölmenn mótmæli gegn forsætisráðherranum og flokki hans um land allt. Saied tilkynnti þessa ákvörðun sína að loknum neyðarfundi í forsetahöllinni, við mikinn fögnuð mótmælenda. Talsmenn stjórnarflokksins Ennahdha, fordæmdu hins vegar ákvörðun forsetans og saka hann um valdarán.
25.07.2021 - 23:37
Styðja við þingkosningar í Líbíu
Egyptar og Túnisar hyggjast veita nágrannaríkinu Líbíu nauðsynlegan stuðning svo halda megi þar þingkosningar í desember. Þetta kom fram á sameiginlegum blaðamannafundi Abdel Fattah Al-Sisi , forseta Egyptalands og Kais Saied forseta Túnis í Kaíró í dag. Forseti Túnis lýsti einnig yfir stuðningi við Egypta í deilum við Eþíópíu vegna virkjana.
10.04.2021 - 16:33
Erlent · Afríka · Stjórnmál · Egyptaland · Túnis · Líbía · Súdan
38 gervitunglum skotið út í geim
Rússneskri Soyuz-eldflaug var skotið á loft frá Baikonur í Kasakstan í morgun. Um borð eru þrjátíu og átta gervitungl sem senda verða á braut um hverfis jörðu. Gervitunglin eru frá átján löndum, en þar á meðal er fyrsta gervitunglið sem framleitt er fyrir stjórnvöld í Túnis.
22.03.2021 - 09:07
Hundruð handtekin í Túnis um helgina
Yfir 600 voru handteknir í Túnis á sunnudagskvöld, þar sem mótmæli og óeirðir hafa staðið yfir frá því á föstudag. Mótmælin eru víða um landið, þar sem fólki finnst pólitískar umbætur ekki nægar þann áratug sem liðinn er frá arabíska vorinu, auk þess sem megn óánægja er með útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins.
19.01.2021 - 03:18
19 konur og einn karl drukknuðu undan ströndum Túnis
19 konur, þar af fjórar þungaðar, drukknuðu þegar bát þeirra hvolfdi undan ströndum Túnis í gær. Einn karlmaður fórst með bátnum en þrettán manns er enn saknað og er þeirra leitað. Alls voru 37 um borð í yfirfullu og afar lélegu manndrápsfleyinu þegar það fórst, en fjórum var bjargað.
26.12.2020 - 07:09
225 flótta- og förumenn fá að fara í land á Ítalíu
Spænska björgunarskipið Open Arms sigldi upp að ströndum Sikileyjar í dag með 225 föru- og flóttamenn innanborðs, sem færðir voru í umsjá ítalskra yfirvalda. Þetta kemur fram í tilkynningu spænsku hjálparsamtakanna sem gera skipið út. 184 fullorðnir og 71 barn frá 20 Afríkuríkjum voru flutt frá borði yfir í tvö ítölsk skip, þar sem þau munu dvelja í sóttkví á meðan gengið er úr skugga um að enginn í hópnum sé smitaður af COVID-19.
15.11.2020 - 01:13
Flóttamanna saknað eftir að bátur sökk á Miðjarðarhafi
Um tuttugu er saknað eftir að bátur sökk undan ströndum Túnis í gær. Fréttastofa Reuters hefur þetta eftir yfirvöldum í Túnis. Um þrjátíu flóttamenn voru um borð í bátnum, sem stefndi norður yfir Miðjarðarhafið að ítölsku eyjunni Lampedusa. Að minnsta kosti ellefu drukknuðu, átta konur og þrjú börn, að sögn strandgæslunnar í Túnis. Leit stendur yfir.
12.10.2020 - 03:58
24 dóu í rútuslysi í Túnis
24 létu lífið og nítján slösuðust þegar rúta hrapaði niður í klettagjá í norðvestanverðu Túnis í dag. Rútan var á leið frá Túnisborg til fjallabæjarins Ain Draham, nærri alsírsku landamærunum, þegar slysið varð. Í tilkynningu frá yfirvöldum segir að fórnarlömbin hafi flest verið á þrítugsaldri.
02.12.2019 - 00:10
Erlent · Afríka · Túnis
Nýr forseti tekinn við í Túnis
Kais Saied, nýkjörinn forseti Túnis, sór embættiseið í morgun. Saied, sem var lagaprófessor með enga reynslu af stjórnmálum, sigraði með yfirburðum í seinni umferð forsetakosninga í Túnis fyrir í þessum mánuði. Hann hlaut 77 prósent atkvæða.
23.10.2019 - 10:54
Erlent · Afríka · Túnis
Útgönguspá: Saied vann stórsigur í Túnis
Kais Saied vann afgerandi sigur í forsetakosningunum í Túnis í dag samkvæmt þarlendum fjölmiðlum. Saied, sem AFP fréttastofan segir íhaldssaman menntamann, þakkaði ungu fólki sérstaklega í sigurræðu sinni.
13.10.2019 - 23:16
Lögmaður og fjölmiðlamógúll mætast í Túnis
Þeir Kais Saied og Nabil Karoui kljást um forsetaembættið í Túnis miðað við útgönguspár eftir fyrri umferð forsetakosninganna. Saied er 61 árs lagaprófessor og sérfræðingur í stjórnarskrárrétti. Hann bauð sig fram óháð stjórnmálaflokkum, og kveðst hafa fengið flest atkvæði í fyrri umferðinni.
16.09.2019 - 00:59
Myndskeið
Aðrar lýðræðislegu forsetakosningarnar í Túnis
Íbúar í Túnis gengu til forsetakosninga í dag. Þetta er í annað sinn sem frjálsar lýðræðislegar forsetakosningar fara fram í landinu. Kosningaþátttaka var dræm, aðeins um 35%.
15.09.2019 - 20:45
Fangi sigurstranglegur í forsetakosningum
Nabil Karoui, einn 26 frambjóðenda í forsetakosningum í Túnis á sunnudag, losnar ekki úr fangelsi fyrir kjördag. Áfrýjunarréttur í Túnisborg komst í dag að þeirri niðurstöðu að hann hefði ekki dómsvald til að láta frambjóðandann lausan. Þar af leiðandi getur hann ekki einu sinni greitt atkvæði í kosningunum.
13.09.2019 - 16:48
Forseti Túnis látinn
Fyrsti lýðræðislega kjörni forsetinn í sögu Túnis, Beji Caid Essebsi, er látinn 92 ára að aldri. Hann var næstelsti þjóðhöfðingi heims á eftir Elísabetu Bretadrottningu.
25.07.2019 - 10:40
Alsír og Senegal keppa um Afríkubikarinn
Það verða lið Alsírs og Senegals sem mætast í úrslitum Afríkubikarsins í knattspyrnu. Senegalar báru sigurorð af Túnisum síðdegis, með naumindum þó, einu marki gegn engu, og þetta eina mark var sjálfsmark Túnisans Dylan Bronn í uppbótartíma. Í kvöld mörðu Alsírmenn svo sigur á Nígeríumönnum, 2-1, og sigurmarkið í þeim kom líka á síðustu sekúndum þessa leiks, beint úr aukaspyrnu Riyads Mahrez, sem reyndist bókstaflega síðasta spyrna leiksins.
15.07.2019 - 02:40
Ellefu nýburar létust í Túnisborg
Ellefu nýburar dóu á einum sólarhring á fæðingardeild sjúkrahúss í Túnisborg, frá fimmtudegi fram á föstudag. Heilbrigðisyfirvöld greina frá því að vísbendingar séu um, að börnin hafi öll látist úr blóðeitrun. Heilbrigðisráðherra Túnis, Abderraouf Cherif, hefur sagt af sér vegna málsins. Forsætisráðherrann, Youssef Chahed, segir að rannsókn sé hafin á starfsemi sjúkrahússins, verklagi lækna og hjúkrunarliðs, lyfja- og hreinlætismálum.
10.03.2019 - 04:40
Erlent · Afríka · Túnis
7 í lífstíðarfangelsi fyrir hryðjuverk í Túnis
Sjö menn voru á dögunum dæmdir í lífstíðarfangelsi í Túnis fyrir aðild þeirra að tveimur mannskæðum hryðjuverkum í landinu árið 2015. Saksóknaraembættið í Túnisborg greindi frá þessu í morgun. Sjömenningarnir, sem allir eru sagðir tilheyra hreyfingum íslamskra trúarofstækismanna, tóku ýmist þátt í árásum á gesti Bardo-ríkislistasafnsins í Túnisborg í mars 2015 eða á baðstrandargesti í Port el Kantaoui, skammt frá borginni Sousse í júní sama ár.
09.02.2019 - 05:15
Mótmæli í Túnis eftir að maður kveikti í sér
Þrjátíu og tveggja ára fjölmiðlamaður frá Túnis, lést á mánudag úr sárum sínum eftir að hafa kveikt í sér. Áður hafði hann birt myndskeið á netinu þar sem hann lýsir bágum aðstæðum sínum í borginni Kasserine og hvetur til byltingar í landinu til þess að sporna við slæmum lífsskilyrðum og spillingu.
26.12.2018 - 11:42
Yfir 50 drukknuðu í Miðjarðarhafi á sunnudag
Minnst 46 drukknuðu þegar yfirfullur fiskibátur sökk undan austurströnd Túnis aðfaranótt sunnudags. Tekist hefur að bjarga ríflega 70 manns en haft er eftir einum eftirlifenda að allt að 180 manns hafi verið um borð í þessu manndrápsfleyi, hvort tveggja Túnisar og fólk frá öðrum Afríkulöndum. Þá fórust minnst níu þegar bátsfley þeirra sökk við strendur Tyrklands.
03.06.2018 - 23:08