Færslur: Pistlaröð Spegilsins um óhefðbundnar húsnæðislausnir

Að byggja sjálfur
Fyrrum ráðherra færir fórnir fyrir drauminn
Eygló Harðardóttir, fyrrverandi húsnæðismálaráðherra, ákvað að hlusta ekki á þá sem sögðu henni að það væri liðin tíð að það væri hægt að byggja sjálfur á Íslandi. Hún og maðurinn hennar, sem er framhaldsskólakennari, keyptu lóð í Mosfellsbæ árið 2016 og tóku fyrstu skóflustunguna að rúmlega 150 fermetra, íslenskum burstabæ árið 2017. Torfþakið verður klárað í sumar. Þau gerðu margt sjálf og færðu ýmsar fórnir fyrir drauminn, bjuggu um tíma í hjólhýsi á lóðinni og voru án sturtu í fimm mánuði.
Myndir
Verða varir við framkvæmdir á hótel mömmu
Postulínvaskar, sturtubotnar, hurðir og parket sem er enn í plastinu. Það stóð til að fleygja þessu öllu en þökk sé nýrri efnismiðlun Góða hirðisins á Sævarhöfða í Reykjavík var það ekki gert. Dæmi eru um að viðskiptavinir hafi byggt skúra og nýtt nær eingöngu efnivið úr miðluninni. Starfsmenn ráða þeim sem vilja byggja húsnæði þó frá því að stóla alfarið á Góða hirðinn. Þeir verða aðeins varir við húsnæðisvandann fólk kaupi efni í þeim tilgangi að innrétta litla íbúð í bílskúr eða kjallara.
Óhefðbundið húsnæði: Líður okkur vel í litlu?
Arkitekt hefur ekki trú á smáhýsum sem almennri húsnæðislausn. Forstjóri Mannvirkjastofnunar segir að það að búa í smáu rými geti leitt til alvarlegs þunglyndis, jafnvel sjálfsvíga. Umhverfissálfræðingur varar við því að sveipa smáheimili of miklum ævintýraljóma en segir heldur ekki í lagi að dæma þessa lausn á grundvelli persónulegra skoðana. 
Úttekt
Óhefðbundið húsnæði: „Þú átt ekkert heima þar“
Einar Tönsberg tónlistarmaður byggði sér sumarbústað í landi Háls í Kjós. Hann hefur búið í bústaðnum í átta ár og er enn að byggja við. Hann vildi vera nær náttúrunni og sleppa við að steypa sér í skuldir. Það tókst. Sveinn Guðmundsson, formaður Landssambands sumarhúsaeigenda, berst fyrir því að fólki verði gert kleift að skrá lögheimili sitt í frístundahúsabyggðum, það séu einfaldlega mannréttindi. Sambandið leggur upp með að lögheimili í sumarbústað fylgi takmörkuð réttindi. 
Úttekt
Óhefðbundið húsnæði: Í garðinum hjá M og P
Fjölskylda á Kjalarnesi gekk með hugmyndina í maganum í nokkur ár, ákvað svo, eftir að byggingareglugerðin var rýmkuð, að láta slag standa og reisti 35 fermetra hús í garðinum. Í haust flutti elsti sonurinn, 19 ára, inn. Í Reykjavík er þetta sjaldnast möguleiki, það er of lítið pláss á lóðunum. Borgin horfir til annarra leiða til að fjölga íbúðum í grónum hverfum og nýtt hverfisskipulag í Árbæ gerir ráð fyrir að fólk geti breytt bílskúrum í leiguíbúðir. 
Úttekt
Óhefðbundið húsnæði: Ánægð í þrettán fermetrum
Fyrir fjórum mánuðum flutti Valdís Eva Hjaltadóttir inn í lítið heilsárshús á hjólum. Hún vinnur að því að koma sambærilegum húsum á markað hér á landi. Bergþóra Pálsdóttir hefur búið í gömlum húsbíl í meira en fjögur ár og kann því ágætlega. Báðar dreymir þær um varanlegan stað fyrir heimili sitt. Valdís situr í stjórn Hagsmunasamtaka áhugafólks um smáheimili og bindur vonir við að smáhýsagarðar verði leyfðir á höfuðborgarsvæðinu, í það minnsta tímabundið. 
Úttekt
Óhefðbundið húsnæði: „Skúta er lifandi skepna“
Á Íslandi eru stórir hópar fólks fastir; fastir á leigumarkaði, í foreldrahúsum, í óleyfishúsnæði. Flestir vilja kaupa sér íbúð en það er ekki á allra færi. Margir eru eflaust orðnir leiðir á að verja stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í húsaleigu. Suma óar við að skuldsetja sig og greiða af láni áratugum saman. Er eitthvað annað í boði? Næstu daga fjallar Spegillinn um fólk sem valið hefur óhefðbundnar leiðir til að koma þaki yfir höfuðið; af hugsjón, til að búa ódýrt eða hvoru tveggja.