Færslur: Óvissustig almannavarna

Landris og kvikusöfnun skammt frá Bláa lóni og HS Orku
Nærri einn og hálf milljón rúmmetra af kviku hefur safnast upp nokkra kílómetra undir yfirborði skammt frá Bláa lóninu. Land hefur risið um nokkra sentimetra. Þetta sýnir nýtt líkan jarðvísindamanna sem gert var í morgun. Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni segir að þó að þetta sé nauðsynlegur undanfari eldgoss sé óvíst hvort það endi þannig.
Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi vegna skjálftahrinu
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga. Almannavarnir funduðu vegna stöðunnar í kvöld. Jarðskjálftahrina hófst við Eldvörp á Reykjanesskaga í morgun. Sex skjálftar yfir þremur að stærð hafa mælst, en í heild eru þeir orðnir 580 talsins á svæðinu það sem af er degi. Sá stærsti, 4,3, varð um klukkan tuttugu mínútur í sex síðdegis og fannst meðal annars á höfuðborgarsvæðinu.
Jarðskjálftahrinunni lokið og fluglitakóða breytt
Jarðskjálftahrinunni við Fagradalsfjall sem hófst 21. desember er nú lokið, er fram kemur í tilkynningu Veðurstofunnar. Fluglitakóði hefur verið lækkaður úr appelsínugulum í gulan og teljast litlar líkur á gosi að svo stöddu. Veðurstofan fylgist áfram náið með svæðinu og óvissustig Almannavarna er enn í gildi.
Sjónvarpsfrétt
Vill miklu frekar eldgos en jarðskjálfta
Grindvíkingar halda ró sinni þrátt fyrir að líklegt sé talið að geti farið að gjósa á ný við Fagradalsfjall. Sumum hugnast eldgosið betur en jarðskjálftarnir sem eru undanfari þess.
Myndbönd
Sigdældir myndast við Grímsfjall
Við hlaupið úr Grímsvötnum, sem hófst fyrir tæpum þremur vikum, hefur myndast 60 metra djúpur og tæplega 600 metra breiður sigketill suðaustur af Grímsfjalli. Austan við fjallið myndaðist að auki 1300 metra löng og 600 metra breið sigdæld. Sprungur hafa myndast á ferðaleið austan við Grímsfjall og er enn varað við ferðum á þeim slóðum.
Óvissustigi Almannavarna lýst yfir vegna netöryggis
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna í samráði við netöryggissveit CERT-IS og fjarskiptastofu vegna Log4j veikleikans. Nú er unnið að viðbragðsáætlun um verndun ómissandi upplýsingainnviða. Í tilkynningu ríkislögreglustjóra kemur fram að almenningur þurfi ekki að óttast veikleikann þegar kemur að heimilistölvunni eða farsímum. Von er á leiðbeiningum fyrir rekstraraðila net- og tölvukerfa um viðbrögð við veikleikanum síðar í dag.
Þægilegra fyrir íbúa að geta séð hvað gerist í hlíðinni
Enn er skriðuhætta á Seyðisfirði og hreyfingar mælast í hryggnum ofan Búðarár. Íbúar eru hvattir til varkárni við Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum. Yfirlögregluþjónn segir unnið að því að lýsa upp hlíðina, það minnki ónot íbúa að hafa yfirsýn.
23.10.2021 - 18:50