Færslur: Mislingar

Óttast að mislingafaraldur brjótist út í Úkraínu
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við því að stríðið í Úkraínu geti leitt til þess að mislingafaraldur brjótist þar út að nýju. Bólusetningarhlutfall gegn mislingum er ekki mjög hátt í Úkraínu. Stofnunin telur líkur á að það muni lækka enn vegna stríðsins, þar sem það muni óhjákvæmilega leiða til þess að færri ungbörn verði bólusett. Á sama tíma neyðist fólk á flótta frá stríðinu til að hópast saman á litlum svæðum, sem eykur smithættu.
Mislingafaraldur í Afganistan
Skæður mislingafaraldur er nú kominn upp í Afganistan, sem herjar að mestu á börn fimm ára og yngri. Talið er að tilfellin séu yfir 35 þúsund í janúar, en aðeins tíunda hvert hefur verið staðfest með sýnatöku - hin eru aðeins greind út frá einkennum.
11.02.2022 - 13:46
Hvetur fertuga og eldri til örvunarbólusetningar
Landlæknir Grænlands hvetur alla fertuga og eldri til að þiggja örvunarskammt enda sé hætta á talsverðum veikindum þess aldurshóps af völdum Omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Bólusetningar barna hefjast innan skamms.
Hungursneyð vofir yfir milljónum afganskra barna
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, varar við yfirvofandi hungursneyð í Afganistan. Sérfræðingar stofnunarinnar telja að allt að þrjár milljónir afganskra barna muni búa við næringarskort í árslok. Þriðjungur þeirra, ein milljón barna, mun að óbreyttu búa við lífshættulega hungursneyð þegar nýtt ár gengur í garð.
Óttast að mislingafaraldur geti verið yfirvofandi
Bakslag kom í baráttuna gegn mislingum í covid-faraldrinum. Mun færri ungabörn voru bólusett á heimsvísu við mislingum í fyrra en árin á undan og er óttast að faraldur brjótist út þegar lífið kemst í sama takt og fyrir kórónuveirufaraldurinn. 
Flóttaflugi seinkað vegna mislinga
Bandaríkjamenn frestuðu í gær flugferðum afganskra flóttamanna til Bandaríkjanna vegna mislingatilfella meðal flóttamanna sem þegar eru komnir til landsins. Á blaðamannafundi í gærkvöld greindi Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, frá því að þetta væri gert í samráði við heilbrigðisyfirvöld og í forvarnarskyni.
Milljónir barna missa af mislingasprautu vegna COVID-19
Sameinuðu þjóðirnar greina frá áhyggjum sínum yfir því að heimsfaraldurinn hafi hægt á almennum bólusetningum barna á heimsvísu. Óttast samtökin að milljónir barna séu þar með berskjaldaðar gegn mislingum og öðrum hættulegum sjúkdómum.
Dauðsföll vegna mislinga ekki fleiri í áratugi
Ekki hafa fleiri látist af völdum mislinga í 23 ár samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og bandaríska sóttvarnareftirlitsins. Aukninguna má meðal annars rekja til COVID-19 faraldursins sem og lækkandi tíðni bólusetninga gegn sjúkdómnum.
Börn síður bólusett í faraldrinum
Milljónir barna á heimsvísu fengu ekki lífsnauðsynlegar bólusetningar á árinu. Ástæðan er rakin til COVID-nítján faraldursins. Í 68 löndum, hið minnsta, höfðu takmarkanir tengdar faraldrinum þær afleiðingar að ekki var farið með ungabörn í bólusetningu við sjúkdómum eins og barnaveiki, mislingum, stífkrampa og kíghósta.
Skylda að bólusetja börn við mislingum í Þýskalandi
Samkvæmt lögum sem tóku gildi í Þýskalandi í gær fá börn ekki inngöngu í leikskóla eða skóla nema hafa fengið bóluefni gegn mislingum. Bólusetningin verður að vera skráð. Ef svo er ekki verða skólar að gera heilbrigðisyfirvöldum viðvart.
02.03.2020 - 06:29
Ætla að bólusetja 45 milljónir barna gegn mislingum
Gavi, alþjóðleg baráttusamtök fyrir bólusetningum, tilkynntu í gær að þau hygðust standa fyrir bólusetningu allt að 45 milljóna barna í Asíu og Afríku gegn mislingum á næstu sex mánuðum. Samtökin starfa náið með heilbrigðisyfirvöldum víða um heim og alþjóðastofnunum á borð við Alþjóðaheilbrigðsstofnunina og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Höfuðáhersla verður lögð á bólusetningu viðkvæmasta hópsins; barna undir fimm ára aldri.
05.02.2020 - 05:43
Óvenjumörg mislingatilfelli í ár
Óvenjumörg mislingatilfelli hafa komið upp í ár. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. Eins og sagt var frá í gær greindist átta mánaða gamalt barn með mislinga á Íslandi í vikunni. Barnið var að koma með flugi frá Asíu með millilendingu í Svíþjóð. Barnið er á batavegi.
31.12.2019 - 09:03
Útgöngubanni vegna mislingafaraldurs aflétt á Samóa
Tekist hefur að koma böndum á mislingafaraldurinn sem geisað hefur á Samóaeyjum, að sögn heilbrigðisyfirvalda þar í landi, og hefur útgöngubanni sem gilt hefur á eyjunum í sex vikur nú loks verið aflétt.
29.12.2019 - 06:27
Bólusettum fjölgar í Kaliforníu eftir lagabreytingu
Fleiri börn eru bólusett í Kaliforníu eftir að lög um undanþágu af öðrum ástæðum en læknisfræðilegum voru afnumin í ríkinu. Rannsókn Kaliforníuháskóla í San Francsisco sýnir að 94,5 prósent fimm ára barna mættu bólusett í skólann árið 2015, en 97,8 prósent ári síðar, þegar lögin voru afnumin. Börnum sem fengu undanþágu frá bólusetningu samkvæmt læknisvottorði fjölgaði úr 0,2 prósentum upp í 0,6 prósent. 
24.12.2019 - 00:49
Andstæðingur bólusetninga handtekinn á Samóa
Andstæðingur bólusetninga var handtekinn á Samóa í gær. Áróður gegn bólusetningum verður ekki umborinn í landinu að sögn yfirvalda. Tugir barna hafa látið lífið af völdum mislinga á Samóa síðan faraldur sjúkdómsins hófst um miðjan október.
06.12.2019 - 06:53
Myndskeið
Nær 50 börn látin í mislingafaraldri á Samóa
Nærri 50 börn undir fimm ára aldri hafa látist í mislingafaraldri á Samóa. Sjúkdómurinn breiddist hratt út vegna dræmrar þátttöku í bólusetningu. Um helmingur barnanna sem létust úr sjúkdómnum voru yngri en eins árs. 
03.12.2019 - 20:00
5.000 látnir í mislingafaraldri í Kongó
Nærri fimm þúsund eru látnir af völdum mislinga í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó það sem af er ári að sögn yfirvalda þar í landi. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir faraldurinn í landinu vera þann sem breiðist hraðast og víðast út í heiminum í dag. Um 250 þúsund manns hafa smitast í landinu það sem af er ári.
Skyldubólusetning fyrir alla á Samóa
Stjórnvöld á kyrrahafsríkinu Samóa hyggjast innleiða skyldubólusetningu gegn mislingum þar í landi. Neyðarástandi var lýst yfir á Samóa á föstudag vegna mislingafaraldurs sem þar geisar og hefur dregið minnst sex börn til dauða, flest undir tveggja ára aldri. Mislingafaraldur geisar líka á nágrannaeyjunni Bandaríska Samóa, Tonga, Fiji og fleiri eyríkjum Kyrrahafsins. Ástandið er þó langverst á Samóa, þar sem yfir 700 mislingasmit hafa greinst.
18.11.2019 - 06:36
Mannskæður mislingafaraldur á Kyrrahafseyjum
Stjórnvöld á Kyrrahafseyjunni Samóa hafa lýst yfir neyðarástandi vegna nokkurra dauðsfalla, sem talin eru afleiðing mislingafaraldurs á eyríkinu. Öllum skólum hefur verið lokað og leggja yfirvöld sig fram um að koma í veg fyrir allar fjöldasamkomur og mannsöfnuð yfirhöfuð.
17.11.2019 - 08:23
Skyldubólusetning gegn mislingum innleidd í Þýskalandi
Þýska þingið samþykkti á fimmtudag löggjöf sem skyldar foreldra til að láta bólusetja börn sín gegn mislingum. Dagmæður, leik- og grunnskólakennarar og annað starfsfólk skólastofnana þurfa líka að vera bólusett. Sama gildir um íbúa og starfsfólk flóttamannabúða, starfsfólk á heilbrigðisstofnunum og fleiri. Foreldrar sem þráast við og neita að láta bólusetja börn sín geta búist við sektum upp á allt að 2.500 evrur, jafnvirði um 340.000 króna, og óbólusett börn fá ekki inni á leikskólum.
16.11.2019 - 01:42
Mislingatilfellum fjölgar hratt á heimsvísu
Fjögur Evrópuríki eru fallin af lista Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, yfir ríki sem hafa útrýmt mislingum. Mislingatilfelli tvöfölduðust á milli ára í 48 Evrópuríkjum. 
29.08.2019 - 06:17
Mislingar greinast í Reykjavík
Fullorðinn einstaklingur búsettur á höfuðborgarsvæðinu, greindist með mislinga fyrir nokkrum dögum. Hann hafði verið á ferðalagi í Úkraínu í júnímánuði og hefur ekki skjalfesta bólusetningu gegn mislingum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landlækni. Ekki er búist við að faraldur sé í uppsiglingu.
16.07.2019 - 14:05
Mislingar í strangtrúuðu hollensku þorpi
Hollensk heilbrigðisyfirvöld glíma nú við mislingafaraldur í strangtrúuðu fiskiþorpi í norðurhluta landsins, á svæði sem kallað hefur verið „Biblíubelti“ landsins. Þar eru flestir íbúar mótmælendatrúar og fjöldi þeirra sem bólusettur er fyrir sjúkdómnum með því lægsta sem þekkist í landinu.
25.06.2019 - 21:00
Yfir 1.000 mislingatilfelli á þessu ári
Yfir eitt þúsund manns hafa greinst með mislinga í Bandaríkjunum það sem af er ári, langflest í New York borg og útborg hennar, Rockland County. Er þetta nú þegar orðinn alvarlegasti mislingafaraldur þar í landi síðan 1992 og ekkert útlit fyrir að hann sé í rénun, nema síður sé.
15.06.2019 - 23:13
Skip vísindakirkjunnar farið úr höfn
Freewinds, skip vísindakirkjunnar, sem sett var í sóttkví á eyjunni Sankti Lúsíu í karabíska hafinu vegna mislingasmits hefur lagt úr höfn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti eyjarinnar.
03.05.2019 - 16:16