Færslur: Málefni flóttafólks

Fundu 86 manns í farmrými vöruflutningabíls
Lögregla í Norður-Makedóníu fann á laugardagskvöld gær 86 manneskjur, þar á meðal allmörg börn, í yfirfullu farmrými vöruflutingabíls skammt frá landamærunum að Grikklandi. Lögreglumenn uppgötvuðu þennan ólöglega og illa meðhöndlaða farm við handahófseftirlit nærri landamærabænum Gevgelija í Norður-Makedóníu.
Saka Litáa um gróf mannréttindabrot gegn flóttafólki
Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International gagnrýna stjórnvöld í Litáen harðlega fyrir forkastanlega meðferð þeirra á flóttafólki og margvísleg, alvarleg brot gegn mannréttindum þess. Í nýrri úttekt samtakanna eru Litáar sakaðir um að halda fólkinu nauðugu í lokuðum flóttamannabúðum við ömurlegar aðstæður þar sem það sætir illri meðferð, misþyrmingum og jafnvel hreinum pyntingum.
Átján fórust er þúsundir stormuðu spænska hólmlendu
Minnst átján manns úr hópi afrísks flótta- og förufólks lét lífið og á þriðja hundrað manns slasaðist þegar fjöldi fólks freistaði þess að komast inn í spænsku hólmlenduna Melilla á norðurströnd Marokkó í gær. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir spænskum og marokkóskum yfirvöldum.
25.06.2022 - 04:35
Meira en hundrað milljónir á flótta í heiminum
Meira en hundrað milljónir manna eru nú á flótta í heiminum og hafa aldrei verið fleiri. Tæplega níutíu milljónir voru á flótta í lok síðasta árs. Innrás Rússa í Úkraínu er ástæða þessarar fjölgunar. Talið er að um fjórtán milljónir Úkraínumanna séu nú á flótta. Þetta kemur fram í skýrslu flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Rúanda hvikar ekki frá samningi um móttöku flóttafólks
Stjórnvöld í Rúanda segjast enn staðráðin í að taka á móti flóttafólki og hælisleitendum sem þangað verða send frá Bretlandi, samkvæmt samkomulagi ríkjanna tveggja þar að lútandi. Tilkynningin er gefin út í tilefni þess að Mannréttindadómstóll Evrópu setti í gær lögbann á fyrstu fyrirhuguðu flugferðina með flóttafólk frá Bretlandi til Rúanda.
Vilja efla varnir á landamærum Finnlands og Rússlands
Finnska ríkisstjórnin hyggst endurskoða landamæralöggjöf landsins með það fyrir augum að heimila auknar varnir á landamærunum að Rússlandi. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu.
10.000 flóttafólks farið sjóleiðina til Bretlands í ár
Minnst 10.000 flóttafólks og hælisleitenda hafa farið sjóleiðina til Bretlands frá Frakklandi það sem af er ári. Breska fréttastofan Press Association (PA) greinir frá þessu. Í frétt PA segir að þessum fjölda hafi verið náð í gær, þriðjudag, en að það verði að líkindum ekki staðfest opinberlega fyrr en í dag. Enn fleiri eru sögð hafa verið stöðvuð áður en þau lögðu á Ermarsundið eða áður en þau komust yfir það.
08.06.2022 - 05:32
Tæplega 200 í ólöglegri dvöl hér á landi
Alls eru 169 flóttamenn, 129 karlar og 40 konur, hér í ólögmætri dvöl og þurfa að yfirgefa landið samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, kom fyrir allsherjar- og menntamálanefnd í gær í fór yfir stöðu þeirra sem til stendur að vísa úr landi.
Um þriðjungur flóttamanna frá Úkraínu kominn með vinnu
Hátt í þriðjungur þeirra úkraínsku flóttamanna sem hingað hafa komið undanfarnar vikur er kominn með vinnu. Aðgerðastjóri flóttamannateymis segir að fólkið festist í búsetuúrræðum fyrir flóttafólk vegna húsnæðisskorts og leiguverðs.
Félagsráðgjafar lýsa áhyggjum af brottvísun flóttamanna
Félagsráðgjafafélag Íslands segir mikið áhyggjuefni að stór hópur umsækjenda um alþjóðlega vernd eigi nú yfir höfði sér að vera vísað úr landi. Í ályktun frá félaginu segir að íslenska ríkið stuðli með brottvísununum að því að hrekja fleiri á flótta um Evrópu. Skorar félagið á stjórnvöld að hafa mannúðarsjónarmið í fyrirrúmi í ákvörðunum um móttöku flóttafólks og við lagasetningu er varðar málefni útlendinga.
Sjónvarpsfrétt
Óttast að fólkið verði sent í hættulegar aðstæður
Hættulegar aðstæður bíða þeirra tæplega 300 útlendinga sem til stendur að senda úr landi til Grikklands, að mati Rauða krossins. Kona sem hefur starfað í flóttamannabúðum í Grikklandi óttast þá stefnu sem verið sé að marka í útlendingamálum hér á landi.
Sakar Evrópuríki um tvöfeldni í málefnum flóttafólks
Skjót viðbrögð, opin landamæri og hlýjar móttökur sem þær milljónir Úkraínumanna sem flúið hafa innrás Rússa og hernað í heimalandi þeirra eru fagnaðarefni, sem afhjúpa um leið tvískinnung Evrópusambandsríkja í málefnum flótta- og förufólks, segir forseti Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Munurinn á þessu og þeirri höfnun og útilokun sem mætir fólki sem þangað flýr undan ofbeldi og átökum í Afríku, Mið-Austurlöndum og annars staðar í heiminum sé sláandi.
Minnst ellefu drukknuðu skammt frá Púertó Ríkó
Minnst ellefu manns fórust þegar bát þeirra hvolfdi skammt undan ströndum Púertó Ríkó síðdegis á fimmtudag. Ekki er vitað hversu mörg voru um borð, en bandaríska strandgæslan bjargaði rúmlega þrjátíu úr sjónum; 20 körlum og ellefu konum, og hefur fundið ellefu lík til þessa.
Yfir 3.000 fórust á leið yfir hafið til Evrópu í fyrra
Minnst 3.077 manns fórust eða hurfu þegar þau reyndu að ferðast sjóleiðina frá Afríku til Evrópu árið 2021. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Eru þetta mun fleiri en árið 2020, þegar staðfest er að 1.776 manns fórust eða hurfu á leið sinni frá Afríku.
Danir ræða líka við Rúandamenn um málefni flóttafólks
Mattias Tesfaye, ráðherra útlendinga- og innflytjendamála í Danmörku, segir Dani eiga í viðræðum við yfirvöld í Afríkuríkinu Rúanda um að taka á móti hælisleitendum sem til Danmerkur koma. Hann ber lof á áform Breta um að senda flóttafólk og hælisleitendur til Rúanda á meðan unnið er úr umsóknum þeirra um hæli.
Bretar ætla að senda hælisleitendur til Rúanda
Bresk stjórnvöld hyggjast flytja hælisleitendur, sem koma til landsins á bátskænum eftir hættuför yfir Ermarsundið, til Afríkuríkisins Rúanda. Þar verður þeim komið fyrir í flóttamannabúðum á meðan unnið er úr umsóknum þeirra um hæli í Bretlandi. Þetta kemur fram í áætlun bresku ríkisstjórnarinnar, sem búist er við að innanríkisráðherrann Priti Patel leggi fram í dag, fimmtudag, samkvæmt bresku fréttastofunni PA Media.
14.04.2022 - 02:44
6,5 milljónir í hrakningum innan landamæra Úkraínu
Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 6,5 milljónir manna séu á flótta innan landamæra Úkraínu, til viðbótar þeim 3,3 milljónum sem hafa flúið úr landi frá því að Rússar réðust þar inn hinn 24. febrúar.
Flóttinn frá Úkraínu
Svíar taka upp landamæraeftirlit að nýju
Ríkisstjórn Svíþjóðar áformar að innleiða vegabréfaeftirlit á landamærum sínum að nýju, eins og tíðkaðist þegar flóttamannastraumurinn vegna Sýrlandsstríðsins var hvað mestur árið 2015. Ástæðan er sá mikli flótti sem brostinn er á eftir innrás Rússa í Úkraínu, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst sem mesta fólksflótta í Evrópu frá lokum heimstyrjaldarinnar síðari. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sænska innviðaráðuneytinu.
Mesti fólksflótti í Evrópu frá seinni heimsstyrjöld
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir fólksflóttann frá Úkraínu síðustu daga þann mesta sem sést hefur í Evrópu síðan í heimsstyrjöldinni síðari. Aldrei hafa jafn margir flúið eitt og sama landið á jafn skömmum tíma og nú.
Úkraínumenn fá sérstaka vernd í Bandaríkjunum
Bandarísk stjórnvöld tilkynntu á fimmtudag að Úkraínumenn nytu „sérstakar, tímabundinnar verndar“ í Bandaríkjunum næstu 18 mánuði, vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þessi ákvörðun heimavarnarráðuneytisins hefur ekki síst þýðingu fyrir Úkraínumenn sem þegar eru í Bandaríkjunum, sem nú þurfa ekki að óttast brottvísun þótt landvistarleyfi þeirra renni út.
20 manns frá Úkraínu hafa sótt um alþjóðlega vernd
Tuttugu manns frá Úkraínu hafa þegar sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu. Unnið er að því, í nokkrum ráðuneytum og stofnunum, að undirbúa komu flóttamanna frá Úkraínu.
Metfjöldi flóttafólks sigldi yfir Ermarsund árið 2021
Metfjöldi flótta- og farandfólks fór yfir Ermarsund til Bretlands á síðasta ári eða yfir 28 þúsund. Það er þrefaldur fjöldi ársins 2020. Langflest lögðu í siglinguna á litlum kænum og sum komust aldrei á áfangastað.
Írakar fljúga sínu fólki heim frá Hvíta Rússlandi
Írakar hafa sótt þúsundir írakskra flóttamanna til Hvíta Rússlands og flogið þeim aftur heim til Íraks. Rússneska fréttastofan Tass greinir frá þessu og vísar í upplýsingar frá írakska utanríkisráðuneytinu. Ráðuneytið upplýsir að íröksk yfirvöld hafi notað níu farþegaþotur til að sækja rúmlega 3.500 Íraka, sem safnast höfðu saman við landamæri Hvíta Rússlands að Póllandi, Lettlandi og Litáen.
Boða fjölþjóða starfshóp gegn smygli á fólki
Stjórnvöld í Mexíkó ætla að setja á laggirnar fjölþjóðlegan starfshóp sem ætlað er að berjast gegn smygli á fólki frá Mið- og Suður-Ameríku til Bandaríkjanna. Utanríkisráðherra Mexíkós tilkynnti þetta í gær, daginn eftir að 54 manneskjur fórust þegar flutningabíll með yfir 150 manns falin í tengivagni valt á þjóðvegi í sunnanverðu landinu.
Funda um flóttann yfir Ermarsund - Bretar ekki með
Innanríkisráðherrar Frakklands, Belgíu, Hollands og Þýskalands koma saman til fundar í frönsku hafnarborginni Calais í dag. Þar munu þeir ræða ástandið við Frakklandsstrendur Ermarsunds og leiðir til að koma í veg fyrir að flóttafólk leggi þaðan á djúpið á manndrápsfleytum á vegum smyglara, í von um að komast til Bretlands. Þúsundir flótta- og förufólks hafa lagt í slíka hættuför á síðustu misserum.
28.11.2021 - 05:35