Færslur: Illugi Gunnarsson

Nýja kerfið til hagsbóta fyrir langflesta
Nemendur sem fara í dýrt nám erlendis og í tiltölulega láglaunað starf að því loknu koma verst út, verði frumvarp um nýtt námslánakerfi að lögum. Um 85% námsmanna taka lán undir 7,5 milljónum króna og þeirra hag er betur borgið í nýja kerfinu. Þetta segir Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. Hann óttast ekki að frumvarpið verði til þess að nemendur skrái sig eingöngu í arðbærustu greinarnar og að erfitt verði manna láglaunastörf sem krefjast háskólamenntunar. Kerfið auki jafnrétti til náms.
Óttast að frumvarpið skerði jafnrétti til náms
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er efins um að þær breytingar sem boðaðar eru á námslánakerfinu í nýju frumvarpi, séu til þess fallnar að auka jafnrétti til náms. Þær geti komið ákveðnum nemendahópum illa; þeim sem ekki fara í hálaunastörf að námi loknu, doktorsnemum, þeim sem nema við dýra háskóla erlendis og nemendum sem glími við veikindi eða þurfi að hægja á námi sínu vegna barneigna.
Skoða hvort takmarka skuli aðgengi að háskólum
Háskólanemi á Íslandi er helmingi ódýrari en meðalháskólanemi annars staðar á Norðurlöndunum. Frá aldamótum og fram til ársins 2014 drógust raunfjárveitingar með hverjum nema í Háskóla Íslands saman um tæp 20%. Menntamálaráðherra telur þarft að móta nýja stefnu um fjárveitingar til háskólanna með það fyrir augum að standa vörð um gæði menntunar. Hann telur að hugsanlega þurfi að ganga lengra í því að takmarka nemendafjölda, líkt og gert hafi verið annars staðar á Norðurlöndunum.