Færslur: Fjárlagafrumvarp 2019

Kröfum stéttarfélaga mætt í fjárlagafrumvarpi
Fjármálaráðherra segir að í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem kynnt var í morgun, sé brugðist við mörgum af kröfum stéttarfélaga. Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkisins aukist um fimmtíu og fimm milljarða á næsta ári. Framlög til heilbrigðismála hækka um tæpa þrettán milljarða og til félags-, húsnæðis- og tryggingamála um rúma þrettán milljarða. Bæði persónuafsláttur og barnabætur verða hækkaðar.
11.09.2018 - 12:12
Framkvæmdir við þinghús hefjast á næsta ári
Áformað er að hefjast handa við byggingu skrifstofu og nefndahúsnæðis á Alþingisreit á næsta ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 sem kynnt var í morgun.
11.09.2018 - 11:10
Útgefendur styrktir en bækur áfram skattlagðar
Áform um afnám virðisaukaskatts á bækur, sem lofað var í sáttmála ríkisstjórnarinnar í lok síðasta árs, hafa verið lögð á hilluna. Í staðinn mun Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra á nýju þingi leggja fram frumvarp um beinan stuðning við bókaútgefendur með það að meginmarkmiði að efla íslenska tungu. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Lagt er til að bókaútgefendur fái 25% af kostnaði við útgáfu bóka á íslensku endurgreiddan.
Útgjöld til Alþingis lækka um 455 milljónir
Útgjöld til Alþingis lækka um 455 milljónir króna á næsta ári að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum. Eru útgjöldin, samkvæmt nýbirtu fjárlagafrumvarpi, áætluð um 4.541 milljón króna.
11.09.2018 - 10:30
Lögreglan fær 410 milljónir vegna ferðamanna
Lagt er til í fjárlagafrumvarpinu að lögreglan fái 410 milljónir til að bregðast við auknu álagi á löggæsluna vegna fjölgunar ferðamanna. Þá er lagt til að lögreglan og héraðssaksóknari fái 91 milljón króna til að efla aðgerðir gegn peningaþvætti. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær 80 milljónir til að efla aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi þar sem áhersla verður lögð á fíkniefnasölu, innflutning fíkniefna og framleiðslu þeirra.
11.09.2018 - 10:10
Sendiráð í Washington og á Indlandi fá 160 m.
Lagt er til í fjárlagafrumvarpinu að 160 milljónum verði varið til að efla sendiráð Íslands í Washington og Nýju-Delí. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að vegabréfsáritunum á Indlandi og Bandaríkjunum fjölgi mikið vegna fjölgunar ferðamanna á leið til Íslands. Þá er einnig lagt til að 14,5 milljónum króna verði varið í kosningabaráttu Íslands vegna framboðs til setu í framkvæmdastjórn UNESCO.
11.09.2018 - 09:52
153 milljónir vegna fjölgunar aðstoðarmanna
Lagt er til í fjárlagafrumvarpinu að launaliður ríkisstjórnarinnar verði hækkaður um 153 milljónir. Það sé vegna þess að aðstoðarmönnum ráðherra hafi fjölgað eftir að Alþingi samþykkti lög þar sem ráðherrum er heimilt að ráða til sín tvo aðstoðarmenn auk þess sem ríkisstjórnin getur veitt leyfi til að ráða þrjá aðstoðarmenn.
11.09.2018 - 09:34
Persónuafsláttur og barnabætur hækkaðar
Lagt er til í fjárlagafrumvarpinu að persónuafsláttur og barnabætur verði hækkaðar og að varið verði 25 milljörðum króna í stuðning vegna húsnæðis. Gert er ráð fyrir að 29 milljarða króna afgangur verði af rekstri ríkissjóðs. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti þetta á blaðamannafundi í morgun.
11.09.2018 - 07:58
  •