Færslur: Eldgos í Fagradalsfjalli

Ekki nýtt eldgos heldur tunglið að stríða fólki
Það sem fjöldi fólks taldi vera annað eldgos austan við Fagradalsfjall reyndist vera tunglið. Þetta kemur fram á Facebook síðu Veðurstofu Íslands en töluvert af tilkynningum barst þangað og allir höfðu sömu sögu að segja af greinilegum bjarma austan við eldstöðvarnar.
Lögregla hafði afskipti af fólki á gosstöðvunum
Ekki tóku allir jafn vel í tilmæli björgunarsveita þegar fólki var vísað frá gosstöðvunum á Reykjanesskaga fyrr í dag. Lögregla hafði afskipti af einstaklingum sem sinntu ekki tilmælum björgunarsveita.
Púlsavirkni í gosinu álíka og var í vor
Kvika hefur verið áberandi bæði í hrauninu við Fagradalsfjall í dag og i stóra gígnum. Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að um klukkan 15:45 hafi aftur byrjað púlsavirkni eins og sást síðast í apríl og maí. Salóme segir erfitt að greina þýðingu þessara breytinga; þarna séu að eiga sér stað einhvers konar fasaskipti og spurning hversu lengi þau standa.
Myndskeið
Skjálftar og hugsanlegur undanfari goss á Snæfellsnesi
Sjö eldstöðvakerfi á Íslandi láta nú á sér kræla. Síðan í maí hefur verið jarðskjálftavirkni á Snæfellsnesi en þúsund ár eru frá því að gaus þar síðast. Jarðeðlisfræðingur býst þó ekki við glóandi hrauni upp á yfirborð þar á þessu ári. 
Sjónvarpsviðtal
Hvorki hægt að sjá fyrir goslok né áframhald
Ógerningur er að segja til um hvenær eldgosi ljúki á Reykjanesskaga. Þetta segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Þá sé ekki hægt að ráða af mælingum á Reykjanesskaga hvort þar gjósi áfram eða hætti. Landris og kvikustreymi við Öskju gæti endað án þess að glóandi hraun komi upp á yfirborð. Páll segir að það gerist í helmingi tilfella.
Myndskeið
Ekkert goshlé heldur stífluð gosrás í gíginn
Eldgosið við Fagradalsfjall sást vel frá höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld, þegar tók að gjósa upp úr gígnum á ný eftir nokkurra daga hlé. Gosórói tók sig upp að nýju í gærmorgun og kvikan tók að flæða undan gígnum og braut sér leið upp í gegnum hraunið. Þar var hins vegar ekki fyrr en í gærkvöld sem gígurinn sjálfur tók við sér á ný.
Ekki gosið síðan klukkan 14:22 á fimmtudag fyrir viku
Stóri gígurinn í Fagradalsfjalli er tómur. Þetta sýnir myndskeið sem Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti á Facebook-síðu sinni. Glóandi hraun sást hins vegar vel á mynd í gegnum lítið op sem sérfræðingarnir kalla „himnaljóra á þaki“. Gosið hætti klukkan 14:22 á fimmtudag í síðustu viku en jarðeðlisfræðingur segir engum greiði gerður með því að tala um einhver goslok. Þetta gos hafi hætt og byrjað þrjátíu sinnum.
Ótímabært að lýsa yfir goslokum
Ótímabært er að lýsa yfir lokum eldgossins í Geldingadölum þó að hlé hafi verið á því síðan á fimmtudaginn. Enn streymir gas úr gígnum og kvika virðist malla og sér í hana í næturmyrkinu.
Eldgosið að taka sér næst-lengsta frí frá upphafi
Ekkert hefur sést í glóandi hraun úr eldgosinu við Fagradalsfjall í meira en tvo og hálfan sólarhring. Náttúruvársérfræðingur segir þetta ekkert endilega óeðlilegt, enda hafi gosvirknin legið niðri í fjóra sólarhringa í sumar. Enn rýkur myndarlega úr gígnum þó hraunið sjáist ekki.
Rólegt á gosstöðvunum síðustu tvo sólarhringa
Virknin í eldstöðinni í Fagradalsfjalli datt niður um klukkan 15:00 á fimmtudag og hefur síðan þá verið í lágmarki. Samkvæmt upplýsingum frá Einari Hjörleifssyni, náttúruvársérfræðingi hjá Veðurstofu Íslandi, þá hefur mælst örlítill órói á svæðinu en að allar líkur séu á að það sé veðurórói.
Myndskeið
Augnakonfekt í Nátthaga
Eldgosið á Reykjanesskaga skartaði sínu fegursta í gær þegar það breytti hraunflæði sínu þannig að hraun tók að renna í Syðri-Geldingadali og þaðan í Nátthaga. Mikil og öflug hrauná myndaðist þegar glóandi hraunið steyptist ofan í hagann. Christopher Hamilton fangaði þetta augnakonfekt með dróna í gærdag.
Myndskeið
Hrauná með boðaföllum í Nátthaga
Hraunflæðið frá gígnum á Reykjanesskaga hefur breytt um stefnu og flæðir nú í Syðri-Meradali og þaðan niður í Nátthaga. Daníel Páll Jónasson tók myndskeið af hraunfossinum rétt fyrir hádegið. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur er staddur í Nátthaga og segir hraunfossinn niður í Nátthaga tilkomumikinn. „Hraunið rennur niður hlíðina í skemmtilegum boðaföllum,“ segir Þorvaldur.
Ekki tekin ákvörðun um kæru vegna ólöglegs stígs
Umhverfisstofnun og Grindavíkurbær hafa fundað í vikunni um göngustíg sem ruddur var fyrr í mánuðinum gegnum nýrunnið hraun í Geldingardölum. Ákvörðun um kæru hefur ekki verið tekin en samtalið heldur áfram eftir helgi.
Gosið heldur upp á afmælið með tignarlegu sjónarspili
Eldgosið í Fagradalsfjalli hefur í kvöld sýnt allar sínar bestu hliðar og sést nú vel frá höfuðborgarsvæðinu. Það er kannski við hæfi enda eru í dag fimm mánuðir frá því að jarðeldarnir hófust og engin leið er að spá fyrir um hvenær því ljúki. „Það er fjör í Geldingadölum í kvöld,“ segir á Facebook-síðu Eldfjallafræði og náttúruváhóps Háskóla Íslands.
Fimm mánuðir liðnir og enn mikil virkni í gosinu
Fimm mánuðir eru í dag síðan eldgos hófst við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga, en virknin hefur haldist nokkuð stöðug síðustu vikur.
Viðtal
Nýr gígur á Fagradalsfjalli
Nýr gígur hefur myndast í eldgosinu í Fagradalsfjalli. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir að nýi gígurinn virðist vera óháður eldri gígnum. Einkum tvennt sé áhugavert við gosið. Annars vegar sé það ráðgáta hvað valdi því að það gjósi í hrinum og hins vegar sé áhugavert að allar tegundir basalthrauna sem geti myndast ofan sjávar, hafi myndast við Fagradalsfjall. Til að mynda tannkremstúpuhraun og klumpahraun.
Gosmóða í loftinu við Hellu
Appelsínugul merking hefur verið í gildi við Hellu á loftgæðavef Umhverfisstofnunar í dag. Ástæðan er að öllum líkindum vestlæg átt sem ber gosmóðu frá Fagradalsfjalli beint í austur.
16.08.2021 - 17:30
Bæta við mælitækjum á Gónhóli
Starfsmenn Veðurstofu Íslands vinna nú að því að koma fyrir mælitækjum á Gónhóli við eldstöðvarnar við Fagradalsfjall vegna nýrra sprungna sem virðast hafa myndast þar á síðustu tveimur vikum.
Fallegur hraunfoss fellur úr gígnum
Fallegur hraunfoss fellur nú úr gígnum í eldgosinu við Fagradalsfjall. Nokkuð líf hefur verið eldgosinu í morgun og hraunið mallar í gígnum eins og í stórum potti sem rýkur jafnframt rækilega úr.
Dregið úr hraunflæði síðustu daga
Hraunflæði úr eldgosinu í Fagradalsfjalli hefur verið að meðaltali 9,3 rúmmetrar á sekúndu síðustu daga, - samkvæmt nýjum mælingum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Flatarmál hraunsins nær nú 4,4 ferkílómetrum.
10.08.2021 - 13:46
Ruddi ólöglegan göngustíg gegnum nýrunnið hraunið
Lögregla stöðvaði nýverið stjórnanda vinnuvélar sem var að ryðja göngustíg í gegnum nýrunnið hraun í Geldingadölum. Bannað er að raska nýrunnu hrauni og var þetta gert án samráðs við nokkra þá sem leita þarf til um slíkar framkvæmdir, að sögn sérfræðings hjá Umhverfisstofnun. Lögregla telur gröfumanninn hafa verið á vegum landeigenda.
Engin merki um gos á hafsbotni
Engin merki eru um að gos sé hafið á hafsbotninum suður af Reykjanesskaga. Varðskipinu Þór var í kvöld siglt vesturundir Krýsuvíkurberg til að kanna hvort þar væri mögulega byrjað að gjósa neðansjávar. Landhelgisgæslunni barst tilkynning rétt eftir klukkan átta í kvöld frá vegfaranda við Selvogsvita sem hafði séð dökkgráa reykjarstróka úti á hafi. Þór kom á vettvang seint á ellefta tímanum og var þá engan reyk að sjá, að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.
Rauðglóandi kvika rennur stríðum straumum í Meradali
Góður gangur er í eldgosinu í Geldingadölum þar sem kvikan stendur upp úr gígnum eftir rúmlega þriggja daga hlé og rauðglóandi hraunelfur rennur stríðum straumum niður hlíðina í nokkrum myndarlegum kvíslum og fossum og flúðum og lýsir upp myrka en milda ágústnóttina.
Skjálftar við Grímsey og gos í Geldingadölum
Svolítil skjálftahrina varð austur og aust-suðaustur af Grímsey í nótt, en engar tilkynngar bárust þó um að hennar hefði orðið vart í byggð. Gosið í Geldingadölum hélt uppteknum hætti, mögulega af eilítið meiri krafti en í gær.
Gasmengun frá Vogum til Borgarfjarðar
Möguleiki er á að gasmengun frá eldgosinu við Fagradalsfjall dreifist allt frá Vogum yfir Borgarfjörð og Borgarnes í dag. Þetta má sjá á gasmengunarspá frá Veðurstofu Íslands til miðnættis í kvöld.