Færslur: Alþingiskosningar 2016

Bjarni: „Eins og að ferðast um í völundarhúsi“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjáfstæðisflokksins, hefur orðið fyrir vonbrigðum að ekki skuli hafa náðst meiri árangur í myndun nýrrar ríkisstjórnar nú þegar mánuður er liðinn frá kosningum.„Manni hefur á köflum liðið eins og maður væri að ferðast um í völundarhúsi,“ segir hann. Það sé hans skoðun að það eigi að skoða möguleikana sem séu á borðinu um myndun þriggja flokka stjórnar áður en reyndur sé margra flokka meirihluta. „En kannski sjá aðrir þetta öðruvísi.“
01.12.2016 - 16:18
„Engin augljós lausn í sjónmáli,“ segir Katrín
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir ljóst að engin augljós lausn sé í sjónmáli um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þing kemur saman í næstu viku en hvorki gengur né rekur fyrir flokkanna sjö að ná saman meirihluta. Katrín segir að hugsanlega þurfi flokkarnir að hugsa út fyrir rammann - ekki sé hægt að útiloka myndun breiðrar þjóðstjórnar ef þeir sjá ekki fram úr þessu.
01.12.2016 - 15:03
Ætla ekki að hefja formlegar viðræður
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir hafa ákveðið að hefja ekki formlegar viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þetta staðfesti Katrín í samtali við fréttastofu. Hún segir að staðan sé snúin og hún útilokar ekki að komið sé að þeim tímapunkti að mynda breiða þjóðstjórn. Katrín segir að það hafi ekki steytt á neinu ákveðnu í viðræðum þeirra Bjarna - það sé einfaldlega of langt á milli þessara tveggja flokka.
01.12.2016 - 14:24
Fjórir flokkar á biðilsbuxunum
Formenn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Samfylkingar hafa tekið upp óformlegar viðræður að nýju um möguleika á myndun ríkisstjórnar. Engar fregnir hafa borist af því hvort samtölum formanns Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks sé lokið eða þau verði formleg.
01.12.2016 - 12:11
Alþingi kemur saman í næstu viku
Forseti Íslands hefur fallist á tillögu forsætisráðherra um að þing verði kallað saman þriðjudaginn 6. desember nk. kl. 13.30. Ríkisstjórnin fjallaði um fyrirhugaða þingsetningu á fundi sínum í morgun og þar var jafnframt fjallað um framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017 og tengdra þingmála sem lögð verða fram í upphafi þings.
30.11.2016 - 17:43
Gaf lítið upp að loknum þingflokksfundi VG
Þingflokksfundi VG lauk skömmu fyrir klukkan 14 og Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, sagði lítið að frétta - óformlegum viðræðum hennar og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, yrði haldið áfram í dag. Hún sagði ekki ljóst hvenær hlutirnir yrðu komnir á hreint. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við RÚV að þau hefðu ekki sett sér neinn tímaramma en væru þó meðvituð um að þau væru undir tímapressu.
30.11.2016 - 14:08
Bjarni: Staðan verið að skýrast
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hafi í fyrsta skipti „átt dýpra samtal um málefnin og stefnu flokkanna á einstökum sviðum og hvort hægt væri að brúa það bil,“ á fundi sínum í gær. Hann segir að staðan hafi verið að skýrast með hverjum deginum.
30.11.2016 - 11:00
Hafa upplýst Guðna um viðræður sínar
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins hafa upplýst forseta Íslands að samkomulag hafi náðst um að kannaður verði möguleiki á samstarfi þessara tveggja flokka í ríkisstjórn. „Forseti fylgist náið með þróun þessara viðræðna og væntir þess að komist verði að niðustöðu um myndun nýrrar ríkisstjórnar innan skamms,“ segir í yfirlýsingu frá forsetaembættinu.
29.11.2016 - 11:53
Bjarni og Katrín ætla að hittast í dag
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, ætla að hittast á fundi í dag og ræða hvort mögulegt sé fyrir flokkanna tvo að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Ekkert er gefið upp til hvaða flokks verður leitað til að tryggja meirihluta. Þetta upplýsti Bjarni að loknum þingflokksfundi Sjálfstæðisflokks í morgun. Þingflokkur VG kom einnig saman til fundar í morgun.
29.11.2016 - 11:29
Þingmaður Viðreisnar segir marga bolta á lofti
Þingmaður Viðreisnar segist ekki vita hvort viðræður formanns flokksins, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leiði til þess að flokkarnir þrír reyni aftur við formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Formaður Samfylkingarinnar segir að flokkurinn sé ekki gerandi.
28.11.2016 - 08:14
Líkur á þriggja flokka stjórn aukast að nýju
Líkur á að Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð hefji formlegar stjórnarmyndunarviðræður hafa aukist að nýju. Formenn flokkanna þriggja ræddu saman í gær.
27.11.2016 - 12:13
Staðan í Framsókn flækir stjórnarmyndun
Óvenjulegt er að Framsóknarflokkurinn skuli ekki vera inni í myndinni eins og staðan er eftir kosningarnar, segir Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði. Staðan innan Framsóknarflokksins flæki stjórnarmyndunarviðræður.
26.11.2016 - 10:10
Eiríkur Bergmann: Opnar fyrir breiðari samtöl
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir að ákvörðun forsetans um að veita engum einum formanni stjórnarmyndunarumboð opna fyrir fleiri og breiðari samtöl „en við höfum haft í þessu niðurnjörvaða kerfi.“ Menn þurfi núna að fara leita nýrra leiða.
25.11.2016 - 12:04
Enginn fær umboð forsetans - fundurinn í heild
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ætlar ekki að veita neinum umboð að sinni til stjórnarmyndunar í ljósi þess hvernig stjórnarmyndun hefur þróast. Hann segir brýnt að kalla þing saman fljótlega. Hann segir enga ástæðu til taugaveiklunar en benti forystumönnum stjórnmálaflokkanna jafnframt á að það væri ekki vænlegt til árangurs að útiloka aðra flokka. Guðni sagðist bjartsýnn á að óformlegar viðræður beri árangur strax í næstu viku.
25.11.2016 - 11:08
Líst illa á fimmflokka stjórn með Framsókn
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, hugnast ekki fimmflokka-stjórn með Framsóknarflokkinn innanborðs - þar yrðu væntanlega fimm flokkar sem væru gjörsamlega á skjön í mörgum lykilmálum. Hann segir ekkert annað hafa verið ákveðið en að Björt framtíð og Viðreisn haldi áfram sínu samstarfi - flokkunum hugnist ekki að þeir verði notaðir sem eitthvað uppfyllingarefni.
25.11.2016 - 08:24
Línurnar skýrast hjá Katrínu í dag
Það skýrist í dag hvort Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, skilar stjórnarmyndunarumboðinu sem hún hefur haft í rúma viku. Fundur þingflokks VG hófst klukkan níu. Prófessor í stjórnmálafræði segir of snemmt að tala um stjórnarkreppu.„Það er kominn mánuður sem hefur tekið að tæma þessa tvo fyrstu kosti. Mánuður í viðbót drepur engan.“
25.11.2016 - 07:05
Katrín búin að hitta Guðna
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, áttu ítarlegan fund um ástandið í íslenskum stjórnmálum í morgun. Katrín gerði Guðna grein fyrir stöðu mála eftir að upp úr slitnaði í viðræðum flokkanna fimm í gær. Ekkert er frekar gefið upp um efni fundarins né fundarstað.
24.11.2016 - 11:06
Baldur: Engin ríkisstjórn í sjónmáli
Staðan í íslenskum stjórnmálum hefur sjaldan verið jafn flókinn - bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hafa reynt að mynda starfhæfa ríkisstjórn án árangurs. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnamálafræði, segir boltann enn vera hjá Katrínu sem ætlar að liggja undir feld fram að hádegi.
24.11.2016 - 10:05
Eins og púsluspil þar sem stykkin passa ekki
Óvíst er hvað gerist í stjórnarmyndunarviðræðum eftir að slitnaði upp úr viðræðum fimm flokka í gær. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur ekki ákveðið næstu skref hjá sér og þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir stöðuna alvarlega. Þing verður að öllum líkindum kallað saman í næstu viku..
24.11.2016 - 08:27
„Ef það gerir okkur að Svarta Pétri“
Þingmenn í flokkunum fimm, sem slitu stjórnarmyndunarviðræðunum í gær, hafa ólíkar skoðanir á því hvað fór úrskeiðis. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segir að flokkkurinn hafi lagt sín spil á borðið þegar kallað var eftir hreinskilni. „Ef það gerir okkur að svartapétri að þessu sinni þá verður svo að vera.“ Óvíst er hvað formaður VG gerir í dag, hún sagðist ætla að sofa á þessari niðurstöðu í nótt.
24.11.2016 - 06:53
Strönduðu viðræðurnar á vantrausti til Pírata?
„Ég myndi kannsk helst giska á að einhverjum hafi ekki hugnast að starfa með Pírötum eða ekki treyst þeim til að framfylgja stjórnarmálum,“ segir Eva Heiða Önnudóttir, stjórnmálafræðingur um ástæður þess að stjórnarmyndunarviðræðurnar sem Katrín Jakobsdóttir hefur leitt undanfarna viku fóru út um þúfur.
23.11.2016 - 18:49
Birgitta Jónsdóttir: Úrslitafundur í dag
Það ræðst að öllum líkindum í dag hvort flokkarnir fimm, sem nú eru í stjórnarmyndunarviðræðum, ætla sér að mynda ríkisstjórn eða ekki. Þetta er úrslitafundur segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. Formaður Viðreisnar segir að staða ríkissjóðs sé tugum milljörðum þrengri en gert var ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun - það setji strik í reikninginn í stjórnarmyndunarviðræðum. Fjármálaráðherra hafi talað fjálglega um góða stöðu ríkissjóðs.
23.11.2016 - 12:04
Segir ummæli Katrínar um ríkissjóð „yfirvarp“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spyr á Facebook-síðu sinni hvort ummæli formanns VG um að staða ríkisfjármála sé þrengri en búist var við sé yfirvarp til að réttlæta nýja og hærri skatta. Staðan sé betri en áður var gert frá sínum bæjardyrum.
23.11.2016 - 10:59
Samþykkja að hefja formlegar viðræður
Þingflokkar Pírata, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar samþykktu á fundi sínum í dag að þeir væru reiðubúnir til að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Flokkarnir hafa hist á tveimur óformlegum fundum um helgina. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist vera bjartsýn á framhaldið.
20.11.2016 - 17:34
Katrín: „Áfram bjartsýn en líka raunsæ“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að fundur forystumanna flokkanna fimm í dag hafi verið ágætur. Hún hafi lagt til ákveðið vinnulag og niðurstaðan hafi verið sú að flokkarnir fimm ræði nú við sinn þingflokk og kanni hvort látið verði á það reyna að finna samstarfsgrundvöll. Hún segir niðurstöðu af þeim fundum að vænta í kvöld. Hún segir að ef af þessu verði muni þau reyna að vinna eins hratt og skilvirkt og mögulegt er.
20.11.2016 - 15:14