Færslur: Alþingiskosningar 2016

Guðlaugur fékk kaffibolla frá Lilju
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fékk kaffibolla merktan Icesave frá forvera sínum í starfi, Lilju Alfreðsdóttur. Kaffibollinn hafði verið pakkaður inn og ofan í honum var aðgangskortið að ráðuneytinu. Lilja sagði gjöfina vera praktíska því framundan væri mikil vinna hjá Guðlagi. „Ég veit að þú átt eftir að gera þetta mjög vel.“
11.01.2017 - 17:32
Þorgerður Katrín: „Sérstök tilfinning“
Gunnar Bragi Sveinsson afhenti Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur lyklana að sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneytinu og sagði við það tækifæri að hún væri að taka við frábæru ráðuneyti með góðu starfsfólki. „Þú tekur við góðu búi,“ sagði Gunnar sem tekur sér nú sæti hinumegin borðsins sem liðsmaður stjórnarandstöðunnar.
11.01.2017 - 17:12
Illugi: „Enginn veit sína ævi fyrr en öll er“
Illugi Gunnarsson, sem lét af embætti mennta-og menningarmálaráðherra í dag og afhenti Kristjáni Þór Júlíussyni lyklavöldin að ráðuneytinu, gaf sér góðan tíma til að ræða við fjölmiðla. Hann sagðist ekki vita hvað hann tæki sér fyrir hendur næst - hann væri búinn að vera í stjórnmálum í 16 ár og hefði aldrei ætlað sér að daga uppi sem stjórnmálamaður.
11.01.2017 - 16:58
„Söguleg stund að fá lyklana að ríkiskassanum“
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, hafði ekki fyrr tekið við lyklunum í forsætisráðuneytinu en að hann þurfti að skila lyklunum að skrifstofu fjármálaráðherra. Þar beið hans Benedikt Jóhannesson og Bjarni sagði að það yrði sameiginlegt verkefni þeirra að viðhalda „þessum góðu ytri aðstæðum“ í íslenskum efnahagsmálum.
11.01.2017 - 16:14
Bjarni: „Eins og að það birti til í huganum“
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, segir að verkefni nýrrar ríkisstjórnar leggist mjög vel í sig og að það sé eins og það hafi birt til í huganum. Hann viðurkenni að hafa haft áhyggjur af því hvernig það myndi spilast úr stöðunni eftir kosningar. „Þetta eru kaflaskil í dag og tímamót og ég er bara með sól í huga - það er bjart framundan.“
11.01.2017 - 14:46
Ríkisstjórn Sigurðar Inga farin frá - viðtöl
Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannsson mætti á sinn síðasta ríkisráðsfund á Bessastöðum klukkan tólf í dag. Framsóknarráðherrarnir, sem nú verða flestir í stjórnarandstöðu, sögðust vera þakklátir fyrir tíma sinn í ríkisstjórninni og bættu því við að þeir ætluðu sér að vera harðir í horn að taka hinum megin við borðið. En þegar við höldum að menn séu að fara á ranga leið, þá munum við berjast gegn því," sagði Sigurður Ingi.
11.01.2017 - 13:18
Kristján: Alltaf hrifinn af nýjum áskorunum
Kristján Þór Júlíusson er annar tveggja ráðherra sem hefur stólaskipti en hann fer úr heilbrigðisráðuneytinu yfir í mennta-og menningarmálaráðuneytið. Hann sagði það leggjast ágætlega í sig. „Ég hef alltaf verið hrifinn af nýjum áskorunum og íslensk menning er fjársjóður okkar Íslendingar sem standa þarf dyggan vörð um.“
11.01.2017 - 12:42
Hefur ekki trú á afrekum nýrrar ríksstjórnar
Gunnar Bragi Sveinsson, fráfarandi sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, segir það leggjast ágætlega í sig að fara aftur í þingið og vera í stjórnarandstöðu. „Ég verð brjálaður“ gantaðist Gunnar með á tröppunum á Bessastöðum þar sem ríkisstjórn Sigurðar Inga mætti á sinn síðasta ríkisráðsfund.
11.01.2017 - 12:30
Bjarni: Verður að velja og hafna
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Páll Magnússon, þingmaður flokksins, sé í fullum rétti að segja sína skoðun á valinu á ráðherrrum flokksins. „Mér finnst hann hafa gert það málefnalega með sama hætti og hann gerði við mig persónulega og ég veit að Páll er tilbúinn að taka þátt í styðja nýja ríkisstjórn.“
11.01.2017 - 12:17
Beint: Nýir ráðherrar taka við lyklum
Ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum að loknum ríkisráðsfundi í dag. Sjö karlar og fjórar konar eiga sæti í ríkisstjórninni, sex frá Sjálfstæðisflokki, þrír frá Viðreisn og tveir frá Bjartri framtíð. Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar mætti á Bessastaði klukkan tólf þar sem hún kvaddi. „Það er bjart framundan,“ sagði Bjarni en ný ríkisstjórn mun væntanlega funda í fyrsta skipti á föstudag.
11.01.2017 - 11:55
Elliði: „Áttum von á því að fá ráðherra“
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segist skilja vel hvað Páll eigi við með færslu sinni á Facebook. Páll greiddi ekki atkvæði með tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins um ráðherraskipan og sagði hana vera lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði unnið sinn stærsta sigur í kosningunum.
11.01.2017 - 11:17
Ráðherralistinn tilbúinn
Formenn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks undirrituðu í dag stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Í kvöld kom í ljós hvaða þingmenn verða ráðherrar en fyrir lá að Sjálfstæðisflokkur fengi sex ráðherra, Viðreisn þrjá og Björt framtíð tvo. Heilbrigðiskerfið verður styrkt með fjölþættum aðgerðum og greiðsluþátttaka sjúklinga minnkuð. Þá verður peningastefnan endurskoðuð og áfram verður haldið í styrkingu á öðrum innviðum samfélagsins.
10.01.2017 - 11:26
Þingflokkur Viðreisnar fékk Bjarna á símafund
Þingflokkur Viðreisnar sat á maraþonfundi í gær þar sem skýrslumálið svokallaða var rætt í þaula. Flokkurinn fékk meðal annars Bjarna Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, á símafund. Varaformaður Viðreisnar segir þingflokkinn hafi viljað velta við hverjum steini. Þingmaður segir flokkinn hafa ákveðið að leyfa Bjarna að njóta vafans.
10.01.2017 - 08:08
„Drulluerfitt“ að vera með nauman meirihluta
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það verða merkilegt ef Björt framtíð og Viðreisn fá fimm ráðherrastóla í stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Hann vill þó ekki segja að það sé kergja innan þingflokksins vegna þessa. „En mönnum finnst það auðvitað sérstakt.“ Hann hefur áhyggjur af því hversu nauman meirihluta flokkarnir þrír hefðu á Alþingi. Þingstörfin myndu að mestu leyti lenda á þingflokki Sjálfstæðisflokksins „og það er bara drulluerfitt“.
06.01.2017 - 09:27
Formlegar viðræður hefjast á morgun
Formenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður á morgun. Þetta er í annað sinn sem flokkarnir gera tilraun til að mynda meirihluta en þeir áttu í formlegum viðræðum strax eftir þingkosningarnar í október.
01.01.2017 - 19:05
Mögulega „vænlegast að halda aftur kosningar“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að það sé sífellt að verða vænlegri lausn á vandræðunum við að mynda meirihlutastjórn að gera einhverjar bráðabirgðaráðstafanir - annað hvort minnihluta-eða utanþingsstjórn - og halda kosningar að nýju í vor. Hann segir stöðuna flókna en mögulega sé hægt að greiða úr henni og ná mönnum saman ef þeir sannmælast um að reyna nýjar kosningar.
14.12.2016 - 19:25
Þingflokkarnir bera saman bækur sínar í kvöld
Samfylking, Píratar, Vinstri grænir, Björt framtíð og Viðreisn halda áfram óformlegum viðræðum sínum í dag. Gert er ráð fyrir að undirhópur fari yfir sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál í dag. Í kvöld ætla þingflokkar flokkanna síðan að ráða ráðum sínum og eftir þau fundarhöld gæti dregið til tíðinda.
11.12.2016 - 08:40
Þurfum eitthvað fastmótað til að taka afstöðu
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vill ekki gefa upp hvort hún sé bjartsýn á að flokkarnir fimm fari í formlegar stjórnarmyndunarviðræður.„Við skulum sjá til,“ segir hún. Nokkuð ljóst sé að ný ríkisstjórn þurfi að afla tekna - ekki sé hægt að hunsa áskorun 86 þúsund Íslendinga um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.
10.12.2016 - 18:19
Skýrist á mánudag hvort viðræður skila árangri
Það skýrist í síðasta lagi á mánudag hvort flokkarnir fimm - Píratar, Viðreisn, Björt framtíð, Samfylking og VG - hefji formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata. Hún segir flokkana komna ansi langt en viðræðurnar séu þó á viðkvæmum stað. Birgitta segist vera bjartsýn á að þeim takist að finna málamiðlanir og geti myndað ríkisstjórn.
10.12.2016 - 18:03
„Alltaf hægt að finna samstarfsgrundvöll“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, vildu ekki útiloka að flokkarnir tveir gætu rætt saman um myndun ríkisstjórnar ef ekkert kemur út úr viðræðum flokkanna fimm. „Ég sé Sjálfstæðisflokkinn ná saman með langflestum ef ekki öllum flokkum. Ég held að það sé alltaf hægt að finna samstarfsgrundvöll,“ segir Áslaug.
10.12.2016 - 13:45
„Höldum ekki umboðinu í einhverju gríni“
Smári McCarthy, einn af þremur umboðsmönnum Pírata, segir að forsetinn ætli ekki að leyfa flokknum að halda stjórnarmyndunarumboðinu í einhverju gríni. Unnið sé að myndun ríkisstjórnar í fullri alvöru og flokkunum fimm miði hratt áfram. „Við höfum verið með umboðið í átta daga og þótt þetta taki einhverja daga í viðbót veldur það engum vandræðum,“ segir Smári.
10.12.2016 - 12:34
„Kannski myndast meirihluti fyrir kosningum“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki vita hvað gerist næst í stjórnarmyndunarviðræðum - það geti vel verið að það komi enn fleiri möguleikar upp. „Svo eru sumir sem segja að það eigi að ganga aftur til kosninga. Kannski myndast meirihluti á þinginu fyrir því að það eigi að kjósa aftur,“ segir Bjarni.
05.12.2016 - 12:23
Fjárlög og kjararáð væntanlega efst á baugi
Forystumenn stjórnmálaflokkanna komu saman til fundar í stjórnarráðinu klukkan 11 í morgun til að ræða hvernig störfum þingsins verði háttað. Kjósa þarf í bráðabirgðanefndir þingsins og koma sér saman um hver verði forseti Alþingis því enn hefur ekki gengið að mynda ríkisstjórn. Þingflokksformaður Pírata og formaður Sjálfstæðisflokksins eru sammála um að forgangsverkefni þingsins fyrir áramót auk fjárlagafrumvarpsins séu kjararáð og lífeyrissjóðsfrumvarpið.
05.12.2016 - 12:09
„Formlega séð ríkir stjórnarkreppa“
Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðiprófessor, segir að stutta svarið við spurningunni um hvort skollinn sé á stjórnarkreppa á Íslandi sé já. Formlega séð ríki stjórnarkreppa í landinu. Það sé hins vegar mjög dramatískt orð - hér sé ekkert neyðarástand þótt hérna sé formlega stjórnarkreppa.
01.12.2016 - 19:48
Guðni boðar formennina á sinn fund
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur boðað forystumenn allra þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi á sinn fund á morgun. Fundirnir verða ekki á Bessastöðum heldur á skrifstofu forsetans við Sóleyjargötu. Bjarni Benediktsson mætir fyrstur klukkan tíu og síðan fylgja hinir í kjölfarið. Ráðgert er að fundirnir standi í hálfa klukkustund. Ekki kemur fram hvort Guðni ætli að ræða við fjölmiðla að fundarhöldunum loknum.
01.12.2016 - 18:01