SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 2018
SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR
2018
Vestmannaeyjar
Sjá kort

Í Vestmannaeyjum bjuggu 4.284 þann 1. janúar 2018. Sveitarfélagið er því í 12. sæti yfir fjölmennustu sveitarfélög landsins. 

Tveir listar buðu fram fyrir kosningarnar 2014: D-listi Sjálfstæðisflokks og E-listi Eyjalistans. Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur, fékk 73,2% atkvæða og fimm bæjarfulltrúa. Eyjalistinn fékk 26,8% atkvæða og tvo fulltrúa. 

Elliði Vignisson efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins varð bæjarstjóri. Hildur Sólveig Sigurðardóttir varð forseti bæjarstjórnar og Páll Marvin Jónsson varð formaður bæjarráðs.  

Í Vestmannaeyjabæ er innheimt 14,36% útsvar. Það var 13,98% í uppafi kjörtímabilsins en var hækkað árið 2016. Skatttekjur á hvern íbúa árið 2012 námu 717.766 krónum, þegar framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er talið með, sem er alveg við landsmeðaltal. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið fái tæpar 574 milljónir króna í framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári. Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2016 námu 106% af árstekjum. Samkvæmt samantekt Íslandsbanka frá því í júní 2017 var Vestmannaeyjabær eitt þeirra sveitarfélaga sem er með litla skuldsetningu og rekstur stendur undir núverandi skuldsetningu, miðað við gefnar forsendur. Þær upplýsingar voru unnar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2016. 

Eins og oft áður hafa samgöngumálin verið stór hluti af bæjarpólitíkinni í Vestmannaeyjum. Í september 2017 lágu áætlunarsiglingar Herjólfs niðri í þrjá daga þar sem Herjólfur var í slipp, afleysingaskipið sem Vegagerðin útvegaði hafði ekki leyfi til að sigla í Þorlákshöfn og ófært var í Landeyjahöfn. Þetta fór illa í heimamenn og þeir kröfðust opinberrar rannsókna á þessu. 

Eyjamenn bíða nú nýrrar Vestmannaeyjaferju, en nýjustu fréttir benda til þess að hún verði afhent í október. Vestmannaeyjabær hefur verið í viðræðum við ríkið um að taka við rekstri skipsins, sem Eimskip er með núna. Þrýst hefur verið á að halda íbúakosningu um málið en bæjaryfirvöld hyggjast ekki gera það fyrr en samkomulag liggi fyrir. 

Þrír listar bjóða fram í Eyjum. 

Sjálfstæðisflokkurinn breytir nú um taktík og setur bæjarfulltrúann Hildi Sólveigu Sigurðardóttur í efsta sætið en Elliða Vignisson bæjarstjóra sest í fimmta sætið. Elliði sagði að það hefði verið að sínu frumkvæði og að hann væri þar að tala tillit til þeirrar umræðu að það fylgdi því lýðræðishalli að vera í öruggasta sætinu, vera oddviti og sá reynslumesti. Þá skapi það aukna sátt að víkja fyrir yngra fólki. Hann muni því í raun leiða listann úr sæti varabæjarfulltrúa. 

E-listi Eyjalistans býður einnig fram, með  nýjan oddvita, Njál Ragnarsson.  

Þá er komið nýtt framboð, Fyrir Heimaey, sem er klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum. Íris Róbertsdóttir, sem er fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, leiðir þennan lista. Hann er tilkominn meðal annars vegna óánægju með að Sjálfstæðisflokkurinn hélt ekki prófkjör, en tillaga þess efnis var naumlega felld í fulltrúaráði flokksins. Íris hafði hug á að bjóða sig fram í því prófkjöri, sem og fleiri sem hafa gengið til liðs við hið nýja framboð. 

Fylgiskannanir sem gerðar hafa verið benda til þess að meirihluti Sjálfstæðismanna falli. Samkvæmt könnun sem gerð var á vef Eyjafrétta fá Sjálfstæðismenn og Fyrir Heimaey þrjá fulltrúa hvor og Eyjalistinn einn. Könnun sem Fréttablaðið birti 24. apríl sýnir Sjálfstæðisflokkinn með 41% fylgi, Fyrir Heimaey með 32% og Eyjalistann með rúm 25%, sem myndi þýða að Sjálfstæðismenn fengju þrjá fulltrúa og Fyrir Heimaey og Eyjalistinn tvo hvor.

Um sveitarfélagið

Framboð í sveitarfélagi

Kosningafréttir: Vestmannaeyjar

Air Iceland Connect flýgur til Vestmannaeyja í vor

Air Iceland Connect hyggst hefja áætlunarflug til Vestmannaeyja næsta vor. Þá hefur...
07/10/2020 - 21:54

„Kemur ekki á óvart en er mjög sérstakt“

Bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum kemur saman til fundar nú í hádeginu, til þess að ræða...
29/09/2020 - 12:11

Mjaldrasystur taka fyrsta sundsprettinn í Klettsvík

Mjaldrarnir Litla-Grá og Litla-Hvít tóku fyrsta sundsprettinn á nýjum heimaslóðum í...
28/09/2020 - 10:36

Sveitastjórnarkosningar 2014

vestmannaeyjar