SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 2018
SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR
2018
Reykjavík
Sjá kort

Í Reykjavík bjuggu 126.041 þann 1. janúar 2018 og er sveitarfélagið því fjölmennasta sveitarfélag landsins. Um 36% íbúa landsins búa í Reykjavík. 

Átta listar buðu fram fyrir kosningarnar 2014 – jafn margir og í kosningunum 2010. Þetta voru B-listi Framsóknar og flugvallarvina, D-listi Sjálfstæðisflokks, R-listi Alþýðufylkingarinnar, S-listi Samfylkingingarinnar, T-listi Dögunar, V-listi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þ-listi Pírata og Æ-listi Bjartrar framtíðar. 

Flest atkvæði hlaut Samfylkingin, eða 31,9% atkvæða og fimm fulltrúa af fimmtán í borgarstjórn. Næst kom Sjálfstæðisflokkurinn, með 25,7% atkvæða og fjóra fulltrúa. Björt framtíð fékk 15,6% atkvæða og tvo fulltrúa og Framsókn og flugvallarvinir fengu 10,7% og svo menn. VG fékk einn fulltrúa með 8,3% atkvæða og Píratar 5,9% atkvæða sem skilaði einu manni. Dögun fékk 1,4% atkvæða og Alþýðufylkingin 0,4% - hvorugt framboðið fékk mann kjörinn. Kjörsókn var 62,7% og dalaði mikið frá kosningunum 2010 þegar hún var 73,4%.  

Í Reykjavík er innheimt hámarksútsvar. Skatttekjur á hvern íbúa árið 2016 námu 686.979 krónum, þegar framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er talið með, sem er undir landsmeðaltali. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið fái rúmlega sjö milljarða króna í framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári. Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2016 námu 187% af árstekjum.  

Samkvæmt samantekt Íslandsbanka frá júní 2017 var Reykjavík eitt þeirra sveitarfélaga sem er með mikla skuldsetningu en rekstur stendur undir núverandi skuldum, miðað við gefnar forsendur. Þær upplýsingar voru unnar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2016. 

Samfylkingin, Björt framtíð, VG og Píratar mynduðu meirihluta að loknum kosningum. Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu, varð borgarstjóri. Sigurður Björn Blöndal úr Bjartri framtíð varð formaður borgarráðs og Sóley Tómasdóttir úr VG varð forseti borgarstjórnar. Sóley hætti svo í borgarstjórn á miðju kjörtímabili og tók þá Líf Magneudóttir við sem forseti borgarstjórnar. 

Húsnæðismálin hafa verið býsna fyrirferðarmikil á kjörtímabilinu. Meirihlutinn hefur verið gagnrýndur mikið fyrir að vera ekki með nóg framboð af lóðum nú þegar eftirspurnin er mikil, og leggja of mikla áherslu á þéttingu byggðar, sem bæði séu dýrari lóðir og taki lengri tíma að undirbúa. Tölur yfir lóðaúthlutanir virðast styðja þessa gagnrýni að einhverju leyti – framan af kjörtímabili voru til dæmis Kópavogur og Reykjanesbær, margfalt minni sveitarfélög, að úthluta fleiri íbúðalóðum en Reykjavík. Mikill kippur kom hins vegar í úthlutanir á síðari hluta kjörtímabilsins og á síðasta ári var til dæmis úthlutað lóðum undir jafn margar íbúðir og eru á öllu Seltjarnarnesi og gerir ráð fyrir að úthluta lóðum til að byggja 1.173 íbúðir á fyrri hluta ársins.  

Þessu tengt hefur einnig verið gagnrýnt hversu seint hafi gengið að stytta biðlistann eftir félagslegu húsnæði – hann hafi þvert á móti lengst. Ein birtingarmynd þess sé að margir sem komist ekki í slíkt húsnæði hafist nú við í hjólhýsi eða húsbíl á tjaldstæðinu í Laugardal. 

Þá hafa samgöngumálin verið fyrirferðarmikil á seinni hluta kjörtímabilsins. Umræða hefur verið um eflingu almenningssamgangna, meðal annars Borgarlínu, og þá hefur einnig verið rætt um þörf fyrir vegaframkvæmdir, sem mörgum finnst ekki hafa verið sinnt nægilega. Meirihlutinn hefur farið í framkvæmdir sem margar hverjar hafa verið til að greiða götu gangandi og hjólandi vegfarenda, meðal annars þrengingu Grensásvegar og hjólastígslagningu og vegg við Klambratún en minnihlutinn hefur gagnrýnt að nauðsynlegar umbætur í vegakerfinu hafi setið á hakanum. 

Meirihlutasamstarfið hefur gengið vel og ekkert stórvægilegt ósætti komið upp. En það hafa þó komið upp nokkur vandræðamál. Til dæmis voru borgaryfirvöld gagnrýnd mjög fyrir að sinna ekki tilkynningaskyldu við íbúa vesturbæjar þegar óhreinsað skólp flæddi í sjóinn við Faxaskjól í nokkra daga og almenningur frétti af því í gegnum fjölmiðla. Einnig voru yfirvöld gagnrýnt þegar tilkynnt var að sjóða þurfti neysluvatnið til að öruggt væri að drekka það. 

Borgarfulltrúum mun fjölga úr 15 í 23 eftir kosningarnar, í samræmi við ákvæði laga um sveitarfélög. 

Sextán framboðslistar verða í boði í Reykjavík. Fyrir liggur að Björt framtíð býður ekki fram í borginni. Hér verður tæpt á helstu stefnumálum flokkanna. 

Framsóknarflokkurinn býður fram í breyttri mynd en báðir borgarfulltrúar flokksins, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, sögðu sig úr flokknum áður en kjörtímabilinu lauk. Ingvar Jónsson leiðir listann núna. Flokkurinn telur að það þurfi raunhæfar lausnir í samgöngum og hann leggur mikla áherslu á að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri. Forgangsraða þurfi í þágu leik- og grunnskóla, ásamt því að taka húsnæðismál í borginni til gagngerrar endurskoðunar. Þá hafi grunnþjónustu hrakað mikið undanfarin ár og þeirri þróun þurfi að snúa við. 

Viðreisn býður fram í fyrsta sinn í borgarstjórn Reykjavíkur, en lista þeirra leiðir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Viðreisn hyggst leggja áherslu á frjálslyndi, víðsýni, almannahagsmuni og jafnrétti. Stuðla á að því að Reykjavík verði besta borg Evrópu. 

Sjálfstæðisflokkurinn teflir fram nýjum oddvita, Eyþóri Arnalds. Marta Guðjónsdóttir er sú eina af núverandi borgarfulltrúum sem er á lista flokksins nú. Þeirra helstu áherslur eru að 2000 íbúðir verði byggðar á ári, svifryksmengun fari ekki yfir heilsuverndarmörk, stórátak í samgöngumálum með sérakreinum fyrir Strætó, öll börn fái leikskólapláss við 18 mánaða aldur og að fasteignaskattur verði afnuminn á 70 ára og eldri. 

Íslenska þjóðfylkingin býður fram í fyrsta sinn í borgarstjórn, með Guðmund Karl Þorleifsson sem oddvita. Helsti stefnumálin eru að draga til baka lóð undir mosku og allar leyfisveitingar vegna viðbyggingar á bænahúsi múslima í Öskjuhlíð, meðal annars kallturni. Flokkurinn hafnar þéttingu byggðar á kostnað grænna svæða og vill endurvekja verkamannabústaðakerfið. Flokkurinn hafnar borgarlínu en vill nýta fjármagnið frá Vegagerðinni til að byggja mislæg gatnamót. Þá verði gjaldfrjálst í strætó fyrir námsmenn á höfuðborgarsvæðinu. 

Flokkur fólksins býður fram í fyrsta sinn í borgarstjórn og er oddviti listans Kolbrún Baldursdóttir. Meðal helstu stefnumála er að koma á öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminna fólk í samvinnu við ríki og lífeyrissjóði, ráða hagsmunafulltrúa aldraðra, aðgengi fyrir alla í anda sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks, brúa bilið strax milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að foreldri fái greiðslu til að vera heima með barnið allt til tveggja ára aldurs og að allar skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar. 

Höfuðborgarlistinn býður fram í fyrsta sinn, með Björgu Kristínu Sigþórsdóttur sem oddvita. Listinn vill byggja 10 þúsund íbúðir fyrir ungt fólk, fjölskyldur og einstaklinga í borginni í úthverfum borgarinnar. Listinn vill hverfa frá þéttingu byggðar og að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Þeir vilja efla almenningssamgöngur en eru á móti Borgarlínu. Þá fá þeir sem vilja hafa börnin heima sérstaka heimgreiðslu.  

Sósíalistaflokkurinn býður fram fyrst og er oddviti listans Sanna Magdalena Mörtudóttir. Helstu áherslur framboðsins eru að færa valdið til fólksins og að þeir sem hafi lægstar tekjur fái beina aðkoma að sínum málum í stjórn borgarinnar. 

Kvennahreyfingin býður fram í fyrsta sinn og er það Ólöf Magnúsdóttir sem leiðir listann. Helstu áherslur eru að tryggja að konur geti lifað af laununum sínum og séu þannig engum háðar um grundvallarlífsgæði, að konur og störf þeirra njóti virðingar á vinnustað og vinna gegn skaðlegum hugmyndum um kynin og samskipti þeirra innan skólakerfisins, á vinnustöðum og í frítíma. 

Miðflokkurinn býður fram í fyrsta sinn í borgarstjórn og er oddviti listans Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi alþingismaður. Meðal stefnumála er að forgangsraða fjármagni borgarinnar í grunnþjónustu og koma fjármálum borgarinnar í lag. Margfalda á húsnæði fyrir fjölskyldur og ungt fólk í úthverfum borgarinnar, til dæmis Úlfarsárdal. Koma á Sundabraut og uppbyggingu á Geldinganesi strax í framkvæmd og að gerð verði fagleg staðarvalsgreining á nýjum spítala sem verði byggður á nýjum stað. Borgin myndi bjóða upp á Keldur sem valkost í þeim efnum. Flokkurinn vill að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri og er á móti hugmyndum um borgarlínu. Ókeypis á að vera í strætó fyrir þá sem búa í Reykjavík. 

O-listi Borgarinnar okkar – Reykjavík er nýtt framboð þar sem Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi leiðir. Meðal helstu stefnumála er að skapa betri umgjörð fyrir skólastjórnendur og kennara, banna snjallsímanotkun í grunnskólum, auka framboð á lóðum og leita raunhæfra leiða við úrlausn samgöngumála. Þá er það á stefnuskránni að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri og að umferðaröryggi verði aukið, meðal annars með uppsetningu hraðaakstursmyndavéla í öllum götum þar sem grunn- og leikskólar eru. 

Píratar tefla fram nýjum oddvita, Dóru Björk Guðjónsdóttur. Þeir leggja áherslu á valdeflingu borgarbúa, meira gagnsæi í þágu almennings og meira samráð við borgarbúa í þessum málum sem þá varða. Áætlun verði gerð til lands tíma í samgöngumálum, meðal annars með borgarlínu. Þá þurfi að hækka laun kennara á öllum skólastigum.  

Alþýðufylkingin hefur boðið fram í flestum kosningum frá hruni, bæði til borgarstjórnar og Alþingis. Þorvaldur Þorvaldsson er oddviti listans. Áhersla er lögð á aukið vægi hins félagslega á kostnað markaðsvæðingar. Hækka eigi laun til muna í leikskólum um leið og hæfniskröfur séu auknar. Einnig þurfa að hækka laun grunnskólakennara og námsgögn og skólamáltíðir verði endurgjaldslausar. Hækkar þurfi framfærslustyrk og borgin komi upp endurhæfingarúrræði fyrir fólk sem hefur verið í óreglu. Efla þurfi almenningssamgöngur og hafa Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri þangað til önnur og betri lausn finnst. Þá eigi að fjölga félagslegu húsnæði 

Samfylkingin verður áfram í framboði með Dag B. Eggertsson borgarstjóra í oddvitasæti. Aðaláherslur þeirra eru á að ljúka samningum við ríkið um Borgarlínu og hefja framkvæmdir við hana á næsta ári Og tryggja fjármagn til að setja Miklubraut í stokk. Þá á að tryggja ungu fólki og fyrstu kaupendum 500 íbúðir í Gufunesi, Úlfarsárdal, Bryggjuhverfi, Skerjafirði, á Veðurstofuhæð og á lóð Stýrimannaskólans. Þá á að klára uppbyggingu leikskólanna og frúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. 

Hjá Vinstri grænum verður Líf Magneudóttir áfram í oddvitasætinu. Þar verður lögð höfuðáhersla á að stórbæta kjör fjölmennra kvennastétta hjá borginni, halda áfram að lækka útgjöld barnafjölskyldna og bæta lífsgæði í borginni með því að minnka álag á fólk og umhverfi. 

Karlalistinn býður fram í fyrsta sinn og er Gunnar Kristinn Þórðarson oddviti listans. Það afl hyggst einblína á réttindi feðra, barna þeirra og drengja í skólakerfinu. Koma þurfi til móts við drengi í grunnskólum þar sem þeir eigi undir högg að sækja. Þá þurfi að gera barnavernd faglegri með sérstaka áherslu á að stemma stigu við umgengnistálmunum og bæta réttaröryggi málsaðila. Þá þurfi félagsþjónusta borgarinnar að mæta fátækum feðrum sérstaklega með tilliti til framfærslu varna þeirra í gegnum umgengni. 

Frelsisflokkurinn býður fram í fyrsta sinn og leiðir Gunnlaugur Ingvarsson listann. Helstu áherslumál þeirra eru að sporna gegn Islamvæðingu og hafa fjölmenningu sem boðar undirgefni við Islam. Þá á að stöðva byggingar á moskum í Skógarhlíð og Sogamýri. Þá eigi að segja upp samningi borgarinnar við Útlendingastofnun um að útvega hælisleitendum húsnæði. Flokkurinn vill byggja 3.000 íbúðir strax fyrir ungt fólk á viðráðanlegu verði. Þeir eru á móti borgarlínunni og vilja frekar nota fjármunina í að stækka stofnæðar. Flokkurinn vill rafbílavæða Reykjavík og opna skrifstofu fyrir þá sem glíma við alvarleg veikindi.  

Kannanir benda til þess að kosningarnar geti orðið býsna spennandi. Slagurinn um mesta fylgið er milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar og í flestum könnunum hefur Sjálfstæðisflokkurinn mælst með ívið meira fylgi. Þá benda kannanir til að Píratar, Vinstri græn, Viðreisn og Miðflokkurinn nái inn mönnum og í nokkrum könnun hefur Framsóknarflokkurinn mælst með mann inni. Nokkrir fleiri eru svo nálægt því, meðal annars Flokkur fólksins.  

 

Um sveitarfélagið

Framboð í sveitarfélagi

Kosningafréttir: Reykjavík

Barnið sem féll út um glugga er á öðru aldursári

Barn var flutt á bráðamóttöku síðdegis í gær eftir að það datt út um glugga á...
24/07/2022 - 11:17

Krotað yfir regnboga við Grafarvogskirkju

Guðrúnu Karls Helgudóttur sóknarpresti Grafarvogskirkju brá í brún þegar búið var að...
23/07/2022 - 16:14

Nýr æfingaflugvöllur á að losa borgarbúa við hávaða

Dagur B Eggertsson, borgarstjóri, horfir til þess að umferð einkaflugvéla á...
20/07/2022 - 13:53

Sveitastjórnarkosningar 2014

reykjavik