SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 2018
SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR
2018
Reykjanesbær
Sjá kort

Í Reykjanesbæ bjuggu 17.805 þann 1. janúar 2018.  Sveitarfélagið er því fimmta fjölmennasta sveitarfélag landsins. 

Sex listar buðu fram fyrir kosningarnar 2014. Á-listi Frjáls afls, B-listi Framsóknarflokksins, D-listi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, S-listi Samfylkingarinnar og óháðra, Y-listi Beinnar leiðar og Þ-listi Pírata. Sjálfstæðisflokkurinn fékk mest fylgi þó að hann hafi tapað talsverðu frá fyrri kosningum. Hann fékk 36,5% og fjóra fulltrúa – missti þar með meirihlutann sem hann hafði haft í tólf ár. Samfylkingin fékk 20,8% atkvæða og tvo fulltrúa, Bein leið fékk 16,9% og tvo fulltrúa, Frjálst afl fékk 15,3% og tvo menn og Framsóknarflokkurinn fékk 8,1% og einn mann. Píratar fengu 2,5% og náðu ekki manni inn. 

Bein leið, Samfylkingin og Frjálst afl mynduðu meirihluta að loknum kosningum. Kjartan Már Kjartansson var ráðinn bæjarstjóri en hann er utan flokka. Friðjón Einarsson úr Samfylkingunni varð formaður bæjarráðs og Guðbrandur Einarsson frá Beinni leið varð forseti bæjarstjórnar.  

Í Reykjanesbæ er innheimt hámarksútsvar. Sveitarfélagið fékk heimild til að innheimta útsvar umfram lögbundið hámark, sem er 14,52%, vegna fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Útsvarið varð 15,05% frá ársbyrjun 2015 og þangað til um síðustu áramót þegar það lækkaði aftur í 14,52%. Skatttekjur á hvern íbúa árið 2016 námu 679.689 krónum, þegar framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er talið með, sem er nokkuð undir landsmeðaltali. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið fái rúmlega 2,2 milljarða króna króna í framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári. Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2016 námu 232% af árstekjum. Samkvæmt samantekt Íslandsbanka frá því í júní 2017 var Reykjanesbær eitt þeirra sveitarfélaga sem er með mikla skuldsetningu en reksturinn stendur undir núverandi skuldsetningu, miðað við gefnar forsendur. Þær upplýsingar voru unnar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2016. 

Fjárhagur Reykjanesbæjar hefur verið í brennidepli á þessu kjörtímabili eins og reyndar næsta kjörtímabil á undan. Minnstu munaði að fjárhaldsstjórn hafi verið skipuð yfir bænum, en bærinn bað reyndar formlega um að það yrði gert. Síðan var óskað eftir að því yrði frestað meðan reynt væri til þrautar að semja við kröfuhafa. Það tókst á endanum í október 2017, og fékkst ýmist niðurfelling á skuldum, lækkun á vöxtum eða lenging í lánum. Útsvarið var hækkað tímabundið, en síðan lækkað aftur. Það sem hefur líka hjálpað sveitarfélaginu í gegnum þetta eru auknar tekjur, sem hafa ekki síst komið vegna fjölgunar íbúa, en hún hefur verið einna mest á landinu í Reykjanesbæ. Nú er í gangi aðlögunaráætlun sem gerir ráð fyrir að skuldir náist niður fyrir 150% af tekjum árið 2022. 

Harmsaga United Silicon hefur einnig haft mikil áhrif í Reykjanesbæ, en mikil lyktarmengun frá henni fór illa í íbúa í næsta nágrenni. Áætlað var að þessi verksmiðja, sem var ákveðin á fyrra kjörtímabili, skilaði miklum tekjum og því var það áfall fyrir bæjaryfirvöld að svona skyldi fara.  

Átta framboðslistar bjóða fram í Reykjanesbæ í þessum kosningum. 

Frjálst afl, sem bauð fram í fyrsta sinn í síðustu kosningum og var klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, er með sama oddvita, Gunnar Þórarinsson. Engin stefnumál hafa verið kynnt. Nokkrir úr röðum Viðreisnar hafa gengið til liðs við framboðið. 

Framsóknarflokkurinn teflir fram nýjum oddvita, Jóhanni Friðriki Friðrikssyni. Stefnumálin hafa ekki verið kynnt. Jóhann hefur þó sagt að hann vilji vindani íbúakosningu um Sameinað sílikon og leita leiða til að stöðva fyrirhugaða kísilverksmiðju Thorsil í Helguvík. Þá vill hann að bæjarfélagið skoði kosti þess að taka þátt í uppbyggingu húsnæðis í samstarfi við húsnæðissjálfseignarstofnanir og haldi áfram uppbyggingu á Nesvöllum. 

Sjálfstæðisflokkurinn teflir fram nýjum oddvita í Reykjanesbæ, Margréti Sanders, en Árni Sigfússon hefur verið oddviti flokksins í Reykjanesbæ í sextán ár. Böðvar Jónsson, sem hefur setið lengi í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn ætlar einnig að hætta. Listinn er nokkuð ferskur en sex af þeim tólf efstu á lista hafa ekki komið nálægt starfi Sjálfstæðisflokksins áður. Stefnan hefur ekki verið kynnt. 

Miðflokkurinn býður fram í fyrsta sinn í Reykjanesbæ og leiðir Margrét Þórarinsdóttir lista framboðsins. Flokkurinn leggur áherslu á virkt íbúalýðræði. Íbúar fái að segja sína skoðun í mikilvægum málum í beinum íbúakosningum, til dæmis skiplagsmálum, samgöngu- og gatnakerfi og skólamálum. Þá eigi að vinda ofan af röngum ákvörðunum bæjarfulltrúa með staðfestu og djörfung. 

Píratar bjóða fram í Reykjanesbæ í annað sinn, og er oddviti þeirra Þórólfur Júlían Dagsson. Þeir vilja meðal annars mannvænni leigumarkað og að tryggja nægilegt framboð af húsnæði. Þá þurfi að koma heilbrigðismálum á Suðurnesjum í betra horf og tryggja eðlilegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þrýsta þurfi á ríkið til að tryggja þetta en líka skoða yfirtöku sveitarfélaga á rekstri heilsugæslu og sjúkrahúss. Þá vilja Píratar að bæjarstjórar séu kosnir í bindandi íbúakosningu. 

Samfylkingin og óháðir tefla fram sama oddvita, Friðjóni Einarssyni. Þau hafa ekki kynnt formlega stefnumál sín, en hafa þó gefið út að flokkurinn vilji Kjartan Má Kjartansson áfram sem bæjarstjóra. 

Bein leið býður fram í annað sinn til bæjarstjórnar, og er oddviti sem fyrr Guðbrandur Einarsson. Áhersla verður lögð á þjónustu við íbúa, velferð þeirra og möguleika til þátttöku í daglegu lífi, þar sem flestir fái notið sín á eigin forsendum. 

Vinstri græn og óháðir bjóða nú fram á ný, en flokkurinn bauð ekki fram síðast í bænum. Dagný Alda Steinsdóttir leiðir listann.  

 

Um sveitarfélagið

Framboð í sveitarfélagi

Kosningafréttir: Reykjanesbær

320 þúsund manns að gosstöðvunum

Um 320 þúsund manns hafa nú gengið að gosstöðvunum á Reykjanesskaga frá því að teljarar...
12/10/2021 - 07:47

Lagning Suðurnesjalínu 2 þokast nær

Lagning Suðurnesjalínu 2 þokast nær með úrskurðum Úrskurðarnefndar umhverfis- og...
05/10/2021 - 12:11

Mótmæla öryggisvistun í íbúabyggð í Reykjanesbæ

Yfir 800 manns hafa undirritað yfirlýsingu þar sem fyrirhugaðri byggingu öryggisvistunar...
17/09/2021 - 17:10

Sveitastjórnarkosningar 2014

reykjanesbaer