SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 2018
SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR
2018
Rangárþing eystra
Sjá kort

Í Rangárþingi eystra bjuggu 1.798 þann 1. janúar 2018. Sveitarfélagið er í 24. sæti yfir fjölmennustu sveitarfélög landsins. 

Þrír listar buðu fram fyrir kosningarnar 2014. B-listi Framsóknarmanna og annarra framfarasinna, D-listi Sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna og L-listi Framboðs fólksins – lista óháðra. B-listi fékk fjóra fulltrúa af sjö i sveitarstjórn með 46,4% atkvæða og hélt því hreinum meirihluta. D-listi fékk tvo fulltrúa með 34% atkvæða og L-listi einn fulltrúa með 19,6%. Kjörsókn var 84,8%.  

Ísólfur Gylfi Pálmason varð áfram sveitarstjóri og varð jafnframt formaður byggðaráðs. Lilja Einarsdóttir varð oddviti sveitarstjórnar.  

Í Rangárþingi eystra er innheimt hámarksútsvar. Skatttekjur á hvern íbúa árið 2016 námu 774.702 krónum, þegar framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er talið með, sem er aðeins yfir landsmeðaltali. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið fái tæpar 437 milljónir króna í framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári. Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2016 námu 42% af árstekjum. Samkvæmt samantekt Íslandsbanka frá því í júní 2017 var Rangárþing eystra eitt þeirra sveitarfélaga sem er með litla skuldsetningu og stendur rekstur vel undir skuldum, miðað við gefnar forsendur. Þær upplýsingar voru unnar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2016. 

Ferðaþjónustan setti sinn svip á sveitarfélagið á þessu kjörtímabili. Ný eldfjallamiðstöð var opnuð á Hvolsvelli í júní 2017, sem er stærsta eldfjallasýning landsins. Innviðir á nokkrum ferðamannastöðum í sveitarfélaginu hafa hins vegar verið töluvert til umræðu. Þetta á meðal annars við um Seljalandsfoss, þar sem slæmar aðstæður hafa verið gagnrýndar.  

Mikil óánægja kom upp með skerta þjónustu heilsugæslunnar þar. Opnunin eftir sumarlokun 2015 seinkaði um tvo og hálfan mánuði og eftir það var heilsugæslan aðeins opin þrjá daga í viku í stað fimm daga. Heilbrigðisstofnunin gaf þá skýringu að það ætti að auka heimahjúkrun í staðinn en lítið var gefið fyrir þær skýringar. Í febrúar var ákveðið að stöðin yrði aftur opin fimm daga vikunnar. 

Nýr skrifstofubygging fyrir sveitarfélagið kláraðist loksins í vor en hún hafði verið afar umdeild og farið langt fram úr fjárhagsáætlunum. Þær bæta hins vegar aðstöðuna á bæjarskrifstofunum til muna. Þá fékkst í gegn langt baráttumál um að koma lágvöruverðsverslun í bæinn þegar Krónan opnaði verslun þar nú í april. Frekari framkvæmdir eru í gangi, til að mynda er verið að ljúka við að byggja við hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvol og þá er stefnt að því að ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins verði lokið á þessu ári. 

Framsóknarmenn og aðrir framfarasinnar bjóða fram aftur, og er oddvitinn áfram Lilja Einarsdóttir. Ísólfur Gylfi Pálmason mun hins vegar hætta sem sveitarstjóri að loknum kosningum. 

Sjálfstæðismenn og aðrir lýðræðissinnar tefla fram nýjum oddvita, Antoni Kára Halldórssyni.  

L-listinn, óháð framboð sem bauð fram í fyrsta sinn í síðustu kosningum, býður fram aftur núna. Christiane L. Bahner er áfram oddviti framboðsins. 

 

Um sveitarfélagið

Framboð í sveitarfélagi

Kosningafréttir: Rangárþing eystra

Sveitarfélög ekki á einu máli um Hálendisþjóðgarð

Þau sveitarfélög sem eiga aðild að óstofnuðum Hálendisþjóðgarði eru ekki einhuga í...
30/01/2021 - 09:00

Styðja sveitarfélög sem urðu fyrir mestum áföllum

Sex sveitarfélög fá samtals 150 milljónir króna til að bregðast við hruni í ferðaþjónustu...
18/08/2020 - 15:25

Andlát á dvalarheimili á Hvolsvelli til rannsóknar

Andlát karlmanns á tíræðisaldri á Kirkjuhvoli, hjúkrunar- og dvalarheimili aldraðra á...
05/02/2020 - 07:49

Sveitastjórnarkosningar 2014

rangarthing-eystra