SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 2018
SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR
2018
Norðurþing
Sjá kort

Í Norðurþingi bjuggu 3.234 þann 1. janúar 2018. Sveitarfélagið er í 18. sæti yfir fjölmennustu sveitarfélög landsins. 

Fjórir listar buðu fram fyrir kosningarnar 2014. B-listi Framsóknarflokks, D-listi Sjálfstæðisflokks, S-listi Samfylkingarinnar og annars félagshyggjufólks og V-listi VG og óháðra í Norðurþingi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk mest fylgi. 27,6% og þrjá menn kjörna. Framsóknarflokkurinn fékk 27,1% og tvo fulltrúa, VG fékk 26,8% og tvo menn og Samfylkingin 18,5% og tvo menn. Kjörsókn var 73,4%. 

Sjálfstæðisflokkurinn og VG mynduðu meirihluta að loknum kosningum. Kristján Þór Magnússon var ráðinn sveitarstjóri. Örlygur Hnefill Örlygsson varð forseti sveitarstjórnar og Óli Halldórsson úr VG formaður byggðaráðs. 

Í Norðurþingi  er innheimt hámarksútsvar. Skatttekjur á hvern íbúa árið 2016 námu 793.749 krónum, þegar framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er talið með, sem er yfir landsmeðaltali. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið fái tæplega 608 milljónir króna í framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári. Skuldir sveitarfélagsins í árslok 2012 námu 178% af árstekjum. Samkvæmt samantekt Íslandsbanka frá því í júní 2017 var Norðurþing eitt þeirra sveitarfélaga sem er með litla skuldsetningu og stendur vel undir skuldum að öllu jöfnu, miðað við gefnar forsendur. Þær upplýsingar voru unnar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2016. 

Atvinnuuppbygging hefur verið áberandi hjá Norðurþingi á kjörtímabilinu. Þar ber hæst fyrirhugað kísilver PCC á Bakka, sem hefja á starfsemi á þessu ári. Það hefur ekki alveg gengið þrautalaust að koma henni upp. Fyrst gengu kærumál út af raflínum sem meðal annars áttu að þjóna kísilverinu og voru framkvæmdir við þær stöðvaðar um tíma meðan verið var að taka kæruna fyrir. Kærunum var svo vísað frá. Þá gekk erfiðlega að fá iðnaðarmenn til að ljúka framkvæmdunum. Það hefur því reglulega dregist að framleiðslan fari af stað en það átti upphaflega að gerast í byrjun þessa árs. Hún ætti þó að fara að bresta á fljótlega. 

Þessi nýi vinnuveitandi hefur gert það að verkum að mikil íbúafjölgun hefur orðið í sveitarfélaginu. Árið 2016 fjölgaði þeim um 9% meðan fjölgunin var 3% á landsvísu. Þetta hefur valdið húsnæðisskorti á Húsavík, þannig að ungt fólk hefur átt erfitt með að fá leiguhúsnæði. 

Atvinnulífið hefur þó ekki verið eintómur dans á rósum. Fyrsta maí missti tuttugu manns vinnuna þegar Reykfiskur ákvað að loka fyrirtækinu á Húsavík.  

Ferðaþjónustan hefur einnig dafnað vel í Norðurþingi, ekki síst vegna umsvifa í Hvalaskoðun, og sveitarfélagið hefur notið þess í auknum tekjum. 

Fjárhagsstaða Norðurþings var þung í upphafi kjörtímabilsins en smátt og smátt hefur tekist að snúa þeirri þróun við og er skuldastaða þess nú orðin ágæt miðað við hefðbundna mælikvarða. 

Fimm listar bjóða fram í Norðurþingi í komandi kosningum. 

Framsóknarflokkurinn býður fram undir merkjum Framsóknar og félagshyggjufólks. Nýr oddviti er tekinn við, Hjálmar Bogi Hafliðason, en núverandi oddviti, Gunnlaugur Stefánsson, sest í heiðurssætið. Hinn sveitarstjórnarfulltrúi flokksins, Soffía Helgadóttir, hætti líka eftir kosningar. 

Sjálfstæðisflokkurinn er áfram í framboði, og nú verður oddviti flokksins Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri. 

E-listi, Listi samfélagsins, býður fram í fyrsta sinn og er óháð framboð. Guðbjartur Ellert Jónsson leiðir þann lista. 

Samfylkingin teflir fram nýjum oddvita, Silju Jóhannesdóttur. Núverandi oddviti, Jónas Einarsson, sest í sjötta sætið. Hinn sveitarstjórnarfulltrúi flokksins, Kjartan Páll Þórarinsson, hætti líka.  

VG og óháðir bjóða aftur fram, og er oddvitinn sem fyrr Óli Halldórsson. Hinn sveitarstjórnarfulltrúi flokksins Sif Jóhannesdóttir, sest í fjórða sætið. 

 

Um sveitarfélagið

Framboð í sveitarfélagi

Kosningafréttir: Norðurþing

Byggðu nýtt hús í Flatey á Skjálfanda

Það er ekki á hverjum degi sem ný hús rísa í Flatey á Skjálfanda. Húsið sem þar er nú...
08/06/2022 - 14:31

Nýr meirihluti tekinn við í Norðurþingi

B-listi Framsóknarflokks og D-listi Sjálfstæðisflokks hafa undirritað samning um...
31/05/2022 - 17:52

Hefja viðræður um myndun meirihluta í Norðurþingi

Fulltrúar B-lista Framsóknarflokks og félagshyggju og D-lista Sjálfstæðisflokks hafa...
16/05/2022 - 23:23

Sveitastjórnarkosningar 2014

nordurthing