SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 2018
SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR
2018
Ísafjarðarbær
Sjá kort

Í Ísafjarðarbæ bjuggu 3.707 þann 1. janúar 2018. Sveitarfélagið er í 15. sæti yfir fjölmennustu sveitarfélög landsins. 

Fjórir listar buðu fram í kosningunum 2014: B-listi Framsóknarflokksins, D-listi Sjálfstæðisflokksins, Í-listi íbúanna og Æ-listi Bjartrar framtíðar. Níu fulltrúar eru í bæjarstjórn. Í-listinn hlaut góða kosningu og hreinan meirihluta, 44% atkvæða og fimm menn. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 32,3% atkvæða og þrjá menn – missti einn fulltrúa - og Framsóknarflokkurinn 15,6% og einn mann. Björt framtíð fékk 8,2% atkvæða og náði ekki inn manni. Kjörsókn var 77,3%. Þessi úrslit mörkuðu tímamót því Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn höfðu verið með meirihluta í bænum í 18 ár fram að því. 

Meirihlutinn réð Gísla Halldór Halldórsson sem bæjarstjóra, en hann var ekki á framboðslista flokksins. Nanný Arna Guðmundsdóttir varð forseti bæjarstjórnar og Arna Lára Jónsdóttir formaður bæjarráðs.  

Í Ísafjarðarbæ er innheimt hámarksútsvar. Skatttekjur á hvern íbúa árið 2016 námu 818.179 krónum, þegar framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er talið með, sem er yfir landsmeðaltali. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið fái rúmar 854 milljónir króna í framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári. Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2016 námu 146% af árstekjum. Samkvæmt samantekt Íslandsbanka frá því í júní 2017 var Ísafjörður eitt þeirra sveitarfélaga sem er með litla skuldsetningu og stóð rekstur vel undir skuldum að öllu jöfnu, miðað við gefnar forsendur. Þær upplýsingar voru unnar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2016. 

Auk Ísafjarðar eru byggðakjarnarnir Flateyri og Þingeyri hluti af Ísafjarðarbæ. Framtíð Þingeyrar hefur verið áhyggjuefni en þar hefur verið viðvarandi fólksfækkun og lítið um að ungt fólk setjist þar að. Haustið 2017 var það hluta af byggðaþróunarverkefni Byggðastofnunar, Brothættum byggðum. Þar vonast menn til að Dýrafjarðargöng breyti miklu þar sem Þingeyri verði miðsvæðis á Vestfjörðum með tilkomu þeirra. 

Fámenni er líka á Flateyri – ákveðið var að sameina starfsemi leikskólans og grunnskólans haustið 2016. Þá voru 17 börn í grunnskólanum og sex í leikskólanum. Til stóð að starfsemi leikskólans yrði flutt í húsnæði grunnskólans en frá því var horfið. 

Alvarlegt mál kom upp á sama stað þetta haust þegar í ljós kom að saurgerlamengun hefði mælst í neysluvatninu þar en íbúar ekki verið upplýstir um það. Mengunin var rakin til rigningarvatns og leysinga. Bæjarstjórinn baðst afsökunar á þessu og lofaði að bæta upplýsingaflæðið frá Heilbrigðiseftirlitinu. 

Á kjörtímabilinu hafa bæjaryfirvöld verið að berjast fyrir að fá að taka á móti fiskeldisfyrirtækjum í Ísafjarðardjúpi. Hafrannsóknastofnun gaf hins vegar út áhættumat árið 2017 þar sem ráðlagt var að það yrði ekki heimilað og hafa bæjaryfirvöld verið ósátt við það. Hvatt hefur verið til frekari athugana. 

Þreifingar voru í gangi við Súðavíkurhrepp um sameiningu sveitarfélaganna. Það skilaði sér ekki í sameiningu fyrir kosningar.  

Dagvistunarmálin voru einnig nokkuð til umræðu. Skortur var á þeim í upphafi kjörtímabilsins eftir að fimm ára deild sem hafði verið á efstu hæð sundhallarinnar á Ísafirði var lokað. Dæmi voru um að foreldrar 9-18 mánaða barna þyrftu að hverfa af vinnumarkaði vegna skorts á dagvistunarúrræðum – og þá voru það iðulega mæðurnar sem voru heima. Bæjarstjórn samþykkti fljótlega að opna tímabundna leikskóladeild fyrir fimm ára börn í Skutulsfirði. Fyrst var lagt til að hún yrði opnuð í barnaskólanum á Hnífsdal en það mætti andstöðu vegna mikillar fjarlægðar frá Ísafirði. Á endanum var 5 ára deild opnuð í byrjun árs 2017 í húsnæði Tónlistarskóla Ísafjarðar, sem er sameiginleg fyrir leikskólana Eyrarskjól og Sólborg.  

Fjárhagurinn hefur batnað í Ísafjarðarbæ eins og annars staðar. Fyrri hluta kjörtímabilsins jukust þó skuldirnar, meðal annars vegna þess að kostnaður við byggingu hjúkrunarheimilis var um tvöfalt meiri en gert var ráð fyrir. Skuldirnar og fjárhagsstaðan eru hins vegar nú í eðlilegu horfi. 

Þrír listar bjóða fram í kosningunum að þessu sinni. 

Framsóknarmenn tefla fram sama oddvita og síðast, Marzellíusi Sveinbjörnssyni.  

Sjálfstæðismenn bjóða fram sama oddvita og síðast, Daníel Jakobsson, sem jafnframt er bæjarstjóraefni flokksins. Skoðaður var möguleikinn á að bjóða fram ásamt óháðum en í tilkynningu frá þeim koma fram að þeir sem slógust í hópinn vildu flestir kenna sig við sjálfstæðisstefnuna og því hafi verið horfið frá hugmyndum um sameiginlegt framboð. 

Í-listinn býður fram áfram eins og hann hefur gert frá árinu 2006, en þá var hann sameiginlegt framboð Samfylkingarinnar, VG, Frjálslyndra og óháðra. Oddvitinn er áfram Arna Lára Jónsdóttir. Gísli Halldór Halldórsson er áfram bæjarstjóraefni listans. Nýr maður er í öðru sæti á listanum, Aron Guðmundsson. 

 

Um sveitarfélagið

Framboð í sveitarfélagi

Kosningafréttir: Ísafjarðarbær

Íbúar langþreyttir á hávaða frá girðingu við sparkvöll

Húsfélag við Grundargötu á Ísafirði hefur farið þess á leit við bæjaryfirvöld að þau geri...
12/07/2021 - 22:32

Kampi byrjaður að greiða niður forgangskröfur

Greiðslustöðvun rækjuvinnslunnar Kampa á Ísafirði hefur verið framlengd til 7. ágúst. Þá...
23/06/2021 - 12:15

Undirritun skilmála fyrir nýjum þjóðgarði frestast

Orkubú Vestfjarða hefur áhyggjur af því að fyrirhugaður þjóðgarður á Vestfjörðum muni...
13/06/2021 - 16:18

Sveitastjórnarkosningar 2014

isafjardarbaer