SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 2018
SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR
2018
Hafnarfjörður
Sjá kort

Í Hafnarfjarðarkaupstað bjuggu 29.412 þann 1. janúar 2018. Sveitarfélagið er því þriðja fjölmennasta sveitarfélag landsins.  

Sex listar buðu fram fyrir kosningarnar 2014: B-listi Framsóknarflokks, D-listi Sjálfstæðisflokks, S-listi Samfylkingar, V-listi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þ-listi Pírata og Æ-listi Bjartrar framtíðar. Sjálfstæðisflokkurinn fékk fimm fulltrúa af ellefu í bæjarstjórn með 35,8% atkvæða. Samfylkingin fékk 20,2% atkvæða og þrjá fulltrúa. Björt framtíð fékk 19% atkvæða og tvo fulltrúa og Vinstrihreyfingin – grænt framboð fékk einn fulltrúa með 11,7% atkvæða. Kjörsókn var 60,8%. 

Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð mynduðu meirihluta í bæjarstjórn að loknum kosningum. Auglýst var eftir bæjarstjóra og var Haraldur Líndal Haraldsson ráðinn í starfið. Rósa Guðbjartsdóttir úr Sjálfstæðisflokki varð formaður bæjarráðs og Guðbjörg Kristjánsdóttir úr Bjartri framtíð varð forseti bæjarstjórnar. 

Í Hafnarfirði er innheimt hámarksútsvar. Skatttekjur á hvern íbúa árið 2016 námu 675.094 krónum, þegar framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er talið með, sem er undir landsmeðaltali. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið fái rúmlega tvo milljarða króna í framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári. Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2016 námu 170% af árstekjum. Samkvæmt samantekt Íslandsbanka frá því í júní 2017 var Hafnarfjarðarkaupstaður eitt þeirra sveitarfélaga sem er með litla skuldsetningu og rekstur stendur vel undir núverandi skuldum, miðað við gefnar forsendur. Þær upplýsingar voru unnar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2016. 

Samgöngumál hafa verið nokkuð í brennidepli í Hafnarfirði á kjörtímabilinu. Langþráð mislæg gatnamót á Reykjanesbraut við Krýsuvíkurveg urðu loksins að veruleika en eftir það hafa bæjaryfirvöld barist fyrir því að tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum bæinn verði kláruð, einkum kaflinn frá Kaldárselsvegi að fyrrgreindum mislægum gatnamótum. 

Þá losnaði bærinn frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga þegar skuldahlutfallið náðist niður fyrir 150% í fyrra. Bæjarstjórinn lýsti í kjölfarið yfir að bærinn gæti fjármagnað framkvæmdir sínar með eigin fé en þyrfti ekki að taka lán. Þetta gekk hraðar en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. 

Annað baráttumál, að fá fluttar háspennulínur og tengivirki við Hamranes flutt fjær Vallahverfinu, varð fyrir bakslagi þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi framkvæmdaleyfi bæjarins fyrir Lyklafellslínu. Það er ný lína sem átti að koma í staðinn fyrir Hamraneslínurnar. Bæjaryfirvöld eru nú í viðræðum við Landsnet um næstu skref. 

Meirihlutasamstarfið hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Meðal annars greiddi fulltrúi Bjartrar framtíðar atkvæði gegn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að bæði yrði fjármagnað knatthús fyrir FH í Kaplakrika og Hauka á Ásvöllum. Nú í lok kjörtímabils komu svo upp deilur innan Bjartrar framtíðar sem urðu til þess að báðir bæjarfulltrúar flokksins, Guðbjörg Kristjánsdóttir og Einar Birkir Einarsson, sögðu sig úr flokknum og ákváðu að starfa sjálfstætt. Þetta varð meðal annars til þess að ekkert varð úr sameiginlegu framboði Bjartrar framtíðar með Viðreisn, og því ákvað Viðreisn að bjóða fram ein. 

Átta framboð verða líklega í boði fyrir kjósendur í Hafnarfirði í þessum kosningum. 

Framsókn og óháðir bjóða fram eins og undanfarnar kosningar en Framsóknarflokkurinn hefur ekki haft bæjarfulltrúa í Hafnarfirði frá árinu 2002. Ágúst Bjarni Garðarsson er oddviti flokksins, rétt eins og fyrir fjórum árum. Flokkurinn vill meðal annars bjóða upp á fríar skólamáltíðir, tryggja aukið framboð lóða og byggja meira en gert hefur verið. Þá ætlar flokkurinn að innleiða sérstaka fjölskyldustefnu í sveitarfélaginu. 

Viðreisn býður fram í fyrsta sinn til bæjarstjórnar, og er oddviti framboðsins Jón Ingi Hákonarson. Flokkurinn ætlar að berjast fyrir réttlátu og fjölskylduvænna samfélagi og virkja almenning til áhrifa. Setja á sálfræðing í fullt starf í alla skóla Hafnarfjarðar og fella tómstundir og íþróttir inn í skóladaginn. Þá á að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum úrræðum. Þá á að auka framboð ódýrari íbúða. 

Hjá Sjálfstæðisflokknum verður Rósa Guðbjartsdóttir áfram oddviti. Flokkurinn stefnir á að auka framboð lóða og lækka gjaldtöku á nýbyggingar. Þá verði aukin áhersla lögð á forvarnir til að stemma stigu við hvers kyns ofbeldi. Einnig verður áfram stuðlað að betur reknum Hafnarfjarðarbæ og útsvarið lækkað. 

L-listi Bæjarlistans býður fram í fyrsta sinn en hann leiðir Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir, sem hefur verið oddviti Bjartrar framtíðar á þessu kjörtímabili. Framboðið hyggst auglýsa eftir bæjarstjóra og beita sér fyrir styttingu vinnuvikunnar. Þá eigi að reka bæjarfélagið áfram af skynsemi. 

Miðflokkurinn býður fram í fyrsta sinn og er oddviti hans í Hafnarfirði Sigurður Þ. Ragnarsson. Helstu stefnumál eru betri þjónusta við eldri borgara og að matur í grunnskólum verði ókeypis fyrir nemendur. Þá á að hækka frístundastyrki og gera afreksfólki kleift að sækja um sérstaka afreksstyrki. Þá á að bjóða upp á ódýrari íbúðir, fjölda leikskólaplássum, hækka frístundastyrki og bjóða námsmönnum upp á afslátt af fasteignagjöldum. 

Píratar bjóða fram í annað sinn í Hafnarfirði og er oddviti listans Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir. Helstu stefnumálin eru ábyrgari stjórnsýsla og aukið aðgengi íbúa á allan hátt, til dæmis að gögnum og upplýsingum.  

Miklar breytingar eru á lista Samfylkingarinnar frá síðustu kosningum. Tveir bæjarfulltrúar hætta, Gunnar Axel Axelsson og Margrét Gauja Magnúsdóttir, og nýr oddviti tekur við, Adda María Jóhannsdóttir. Tryggja á nægt framboð á lóðum oghagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Þá boðar flokkurinn stórsókn í leikskólamálum, meðal annars með fjölgun leikskóla og ungbarnadeilda og með því að tryggja leikskólapláss frá 12 mánaða aldri. Einnig á að efla heimaþjónustu fyrir eldri borgara og lækka gjöld á fjölskyldufólk. 

Vinstri græn tefla fram nýjum oddvita, Elvu Dögg Ásudóttur Kristinsdóttur. Flokkurinn vill meðal annars eyða biðlistum eftir nauðsynlegri þjónustu og gera það eftirsóknarvert að búa í Hafnarfirði. Þá vill flokkurinn beina þungaflutningum úr miðbænum og bæta leiðarkerfi strætó. Þá eigi að stefna að plastpokalausum bæ. 

 

Um sveitarfélagið

Framboð í sveitarfélagi

Kosningafréttir: Hafnarfjörður

Gefa Hafnfirðingum matjurtafræ

Allir Hafnarfirðingar fá í dag pakka með kryddjurtarfræjum að gjöf frá bæjarfélaginu....
30/04/2021 - 10:38

Stóð í farþegasæti með höfuðið upp um topplúguna

Um kvöldmatarleytið í gær stöðvaði lögregla för bifreiðar í Breiðholti þar sem ellefu ára...
27/04/2021 - 05:35

Snjóleysi gott fyrir vegfarendur, síðra fyrir skíðafólk

Mjög lítið hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu í vetur. Búast má við að þau sem þurfa að...
04/03/2021 - 15:30

Sveitastjórnarkosningar 2014

hafnarfjordur