SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 2018
SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR
2018
Garðabær
Sjá kort

Í Garðabæ bjuggu 15.709 þann 1. janúar 2018. Sveitarfélagið er því sjötta fjölmennasta sveitarfélag landsins. 

Fimm listar buðu fram fyrir kosningarnar 2014. B-listi Framsóknarflokksins, D-listi Sjálfstæðisflokksins, M-listi fólksins í bænum, S-listi Samfylkingarinnar og Æ-listi Bjartrar framtíðar. Sjálfstæðisflokkur hlaut hreinan meirihluta, sjö fulltrúa af ellefu í bæjarstjórn með 58,8% atkvæða. Björt framtíð fékk 14,8% atkvæða og tvo menn kjörna. M-listinn og Samfylking fengu báðir 9,9% atkvæða og einn fulltrúa hvor. Framsóknarflokkurinn fékk 6,6% atkvæða og engan fulltrúa í bæjarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með hreinan meirihluta í Garðabæ frá árinu 1976. 

Gunnar Einarsson varð áfram bæjarstjóri í Garðabæ. Hann var reyndar á framboðslista Sjálfstæðisflokksins en náði ekki kjöri í bæjarstjórn. Hann hefur hins vegar verið bæjarstjóri í Garðabæ frá árinu 2005. Skipt hefur verið um forseta bæjarstjórnar á árs fresti. Fyrst var það Sturla Þorsteinsson, síðan Sigríður Hulda Jónsdóttir og þá Gunnar Valur Gíslason. Nú er Jóna Sæmundsdóttir forseti bæjarstjórnar. Áslaug Hulda Jónsdóttir hefur hins vegar verið formaður bæjarráðs allt kjörtímabilið. 

Í Garðabæ er 13,70% útsvar innheimt. Skatttekjur á hvern íbúa árið 2016 námu 701.867 krónum, þegar framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er talið með, sem er rétt undir landsmeðaltali. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið fái tæplega 910 milljónir króna í framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári. Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2016 námu 79% af árstekjum. Samkvæmt samantekt Íslandsbanka frá því í júní 2017 var Garðabær eitt þeirra sveitarfélaga sem er með litla skuldsetningu og stendur rekstur undir skuldum, miðað við gefnar forsendur. Þær upplýsingar voru unnar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2016. 

Meðal helstu mála í Garðabæ hafa verið barátt fyrir að laga gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar með því að setja Hafnarfjarðarveg í stokk. Mikil uppbygging hefur verið í Garðabæ eins og víða annars staðar, og helstu framkvæmdirnar eru nú í Urriðaholti þar sem áætlanir voru kynntar 2015 um byggja 1.600 íbúðir á næstu árum. 

Fjórir listar bjóða fram í Garðabæ í þessum kosningum. 

Framsókn býður fram í Garðabæ og er Ármann Höskuldsson oddviti listans. Meðal áherslna er að hlúa betur að barnafjölskyldum í bænum, bæta búsetu úrræði eldri og yngri íbúa. Skattlagning á neysluvatni sé sambærileg við nágrannasveitarfélögin og efla menntastefnu bæjarins á leik- og grunnskóla stigi.  

Hjá Sjálfstæðisflokknum er listinn skilaður á svipaðan hátt og fyrir fjórum árum. Áslaug Hulda Jónsdóttir er áfram oddviti og bæjarfulltrúar skipa sex efstu sætin. Gunnar Einarsson er í áttunda sæti listans. Flokkurinn vill auka áherslu á flokkum sorps og snyrtilegt umhverfi og þétta göngu- og hjólastíganetið. Þá á að bjóða frjálst val um skóla og fjölbreytt rekstrarform þeirra. Efla á nágrannavörslu. Þá á að setja Hafnarfjarðarveg í stokk. Sjálfstæðismenn ætla einnig að auðvelda ungu fólki að eignast eða leigja húsnæði með samningum við verktaka og úthlutun lóða sérstaklega í þeim tilgangi. 

Garðabæjarlistinn býður fram í fyrsta sinn en að honum standa Björt framtíð, Samfylkingin, Píratar, Viðreisn, Vinstri græn og óháðir. Sara Dögg Svanhildardóttir leiðir listann. Slagorð listans er Virkjum lýðræðið og ber það með sér að færa valdið meira til íbúanna sjálfra og að stjórnsýslan verði gagnsæ. Framboðið vill taka upp virka verkefnastjórnun í framkvæmdum og rekstri bæjarins til að tryggja betri nýtingu fjármuna. Tekin verði upp jafnlaunavottun. Stefnt verði að leikskóla fyrir öll börn frá tólf mánaða aldri og endurskoða rammann um viðveru barna í grunnskólum. Þá verði Hafnarfjarðarvegur settur í stokk og stígakerfið bætt. Einnig á að styðja við uppbyggingu á leiguhúsnæði. 

Miðflokkurinn býður fram í fyrsta í Garðabæ og er oddvitinn María Grétarsdóttir, sem er nú bæjarfulltrúi fyrir M-listann, Fólkið í bænum. Ráðast á í hagræðingu án þjónustuskerðingar og lækka álögur á borð við útsvar og fasteignaskatta. Þá verði tryggt að lóðaframboð verði til staðar í bænum í samræmi við eftirspurn. 

 

Um sveitarfélagið

Framboð í sveitarfélagi

Kosningafréttir: Garðabær

Meirihlutaviðræður hafnar í Hafnarfirði

Formlegar meirihlutaviðræður eru hafnar í Hafnarfirði og hefjast í vikunni í Mosfellsbæ....
17/05/2022 - 12:26

Meirihlutar héldu í flestum stærstu sveitarfélögunum

Meirihlutar héldu flestir velli í stærstu sveitarfélögum landsins. Í Mosfellsbæ féll...
15/05/2022 - 05:54

Barnaflóð í Urriðaholti kom meirihlutanum á óvart

Íbúasamsetning í nýjum hverfum í Garðabæ komu meirihluta bæjarstjórnar í bænum á óvart....
28/04/2022 - 16:30

Sveitastjórnarkosningar 2014

gardabaer