SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 2018
SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR
2018
Akureyri
Sjá kort

Á Akureyri bjuggu 18.787 þann 1. janúar 2018. Sveitarfélagið er því fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins.  

Sjö listar buðu fram fyrir kosningarnar 2010: B-listi Framsóknarflokks, D-listi Sjálfstæðisflokks, L- listi fólksins, S-listi Samfylkingarinnar, T-listi Dögunar,  V-listi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Æ-listi Bjartrar framtíðar. Sjálfstæðisflokkurinn fékk mest fylgi, 25,8% og þrjá menn. L-listinn fékk 21,1% og tvo menn en hann hafði kjörtímabilið á undan verið með hreinan meirihluta. Samfylkingin fékk 17,6% atkvæða og tvo menn og Framsóknarflokkurinn 14,2% og tvo menn. Vinstri græn fengu 10,5% og einn mann og Björt framtíð 9,4% og einn mann. Dögun fékk svo 1,4% og ekki mann kjörinn. Kjörsókn var 67,2%. 

Eftir kosningar mynduðu Framsóknarflokkurinn, L-listinn og Samfylkingin saman meirihluta. Eiríkur Björn Björgvinsson hélt stöðu sinni sem bæjarstjóri en hann hafði verið ráðinn árið 2010. Guðmundur Baldvin Guðmundsson úr Framsóknarflokki varð formaður bæjarráðs og Matthías Rögnvaldsson úr L-lista varð forseti bæjarstjórnar. Eiríkur hefur tilkynnt að hann ætli að hætta sem bæjarstjóri að loknu kjörtímabilinu. 

Á Akureyri er innheimt hámarksútsvar. Skatttekjur á hvern íbúa árið 2016 námu 735.375 krónum árið 2016, þegar framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er talið með, sem er rétt yfir landsmeðaltali. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið fái rúmlega 3,2 milljarða króna í framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári. Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2016 námu 106% af árstekjum. Samkvæmt samantekt Íslandsbanka frá því í júní 2017 var Akureyrarkaupstaður eitt þeirra sveitarfélaga sem er með litla skuldsetningu og stendur rekstur vel undir skuldum, miðað við gefnar forsendur. Þær upplýsingar voru unnar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2016. 

Eitt af umdeildu málunum sem komið hafa upp í bænum eru framkvæmdir á Drottningabrautarreit. Þar hafa íbúar við eitt húsi í Hafnarstræti ákveðið að fara fram á skaðabætur vegna útsýnisskerðingar og sjónmengunar við húsið. Þá hafa verið miklar framkvæmdir við Sundlaug Akureyrar sem hafa farið vel fram úr áætlunum. 

Fjárhagur Akureyrar hefur farið batnandi eins og hjá flestum öðrum sveitarfélögum, þó að hækkun lífeyrisskuldbindinga hafi haft áhrif til hins verra.  

Húsnæðismálin hafa líka verið í brennidepli þar, en nú síðustu mánuði hefur húsnæðisverð á Akureyri hækkað verulega. Bærinn hefur samið við Búfesti og Bjarg íbúðarfélag um að byggja samanlagt allt að 200 íbúðir til leigu og búseturéttar. Þá er áformað að byggja 170 íbúðir í Glerárhverfi. Áhersla hefur verið mikil á þéttingu byggðar. 

Sjö listar verða í framboði í kosningunum á Akureyri. 

Framsóknarflokkurinn er með sama oddvita og síðast, Guðmund Baldvin Guðmundsson. Flokkurinn vill efla íbúalýðræði, meðal annars með íbúakosningum þegar þar á við, auka fjármagn í stígakerfi bæjarins, hækka frístundastyrk úr 30 þúsund krónum í 50 þúsund og vinna að langtímalausn fyrir börn sem eru of ung til að komast inn á leikskóla. Þá vill flokkurinn færa Ráðhústorgið í hlýlegri búning. Einnig á að fjölga leiguíbúðum í eigu félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.  

Sjálfstæðisflokkurinn er með sama oddvita og síðast, Gunnar Gíslason. Heldur áherslur flokksins eru að öll börn komist í leikskóla við eins árs aldur eða þegar fæðingarorlofi lýkur, skapandi og árangursríkt skólakerfi, öflugt félagskerfi, snyrtilegur bær, fjölbreytt atvinnulíf og ábyrgur rekstur. Þá á að gera fýsilegt fyrir verktaka að byggja litlar íbúðir til sölu eða leigu á almennum markaði, hækka frístundastyrk í 50 þúsund krónur á mánuði og að innanlandsflug verði niðurgreitt fyrir íbúa á landsbyggðinni. 

L-listinn býður fram aftur en hann heldur einmitt upp á 20 ára afmæli sitt á þessu ári. Fyrir kosningarnar fékk listinn til liðs við sig fólk úr Viðreisn og Bjartri framtíð, sem er áberandi á listanum. Meðal annars er bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar, Præben Jón Pétursson, á L-listanum, þó ekki ofarlega. Listinn breyttist mikið frá síðustu kosningum en hvorugur bæjarfulltrúa listans gaf kost á sér áfram. Halla Björk Reynisdóttir leiðir listann. Meðal áherslan er að fjölga dagvistarúrræðum því foreldrar eigi aldrei að standa uppi úrræðalausir með dagvistun fyrir barn sitt. Þá vill framboðið stytta vinnuvikuna til að meiri tími gefist með börnunum. 

Miðflokkurinn býður fram í fyrsta sinn og er Hlynur Jóhannsson oddviti listans. Flokkurinn vill meðal annars gera átak í námi barna af erlendum uppruna og auka fjármuni í vegakerfið. Þá þurfi að auka sveigjanleika til náms. 

Píratar bjóða fram á Akureyri þó að undirbúningurinn hafi gengið brösuglega. Prófkjör sem þeir héldu í febrúar varð endasleppt því að aðeins þrír gáfu kost á sér og einungis 27 tóku þátt í prófkjörinu. Framboðslistinn er þó tilbúinn og er Halldór Arason í efsta sæti. Einar Brynjólfsson fyrrverandi þingmaður Pírata, sem sóttist eftir að leiða listann í framangreindu prófkjöri, er í 13. sæti listans. Píratar leggja mikla áherslu á beint lýðræði og möguleika bæjarbúa á að hafa áhrif á þau málefni sem þá varðar. Þeir vilja raunverulegt samráð við bæjarbúa í ákvarðanatöku. 

Samfylkingin býður fram eins og áður, en teflir nú fram nýjum oddvita, Hildi Jönu Gísladóttur, þar sem sá fyrri, Logi Már Einarsson, er kominn á þing og orðinn formaður flokksins. Flokkurinn vill beita sér fyrir því að bæjarfélagið fái meira fjármagn til að geta sómasamlega staðið undir þeim verkefnum sem sveitafélagið hefur lögbundna skyldu til að sinna. Þá vill flokkurinn gera langtímaáætlun til að börn komist á leikskóla að loknu fæðingarorlofi. Þá verði fjárveitingar til íþróttafélaga skilyrtar við markvissar siðareglur og jafnréttisstefnu, efla eigi flokkun á sorpi og draga úr plastnotkun. Þá á að hækka frístundastyrkinn enn frekar. 

Vinstri græn bjóða aftur fram, og með Sóleyju Björk Stefánsdóttir áfram sem oddvita. Flokkurinn vill styðja við vistvænar samgöngur, minnka sóun og úrgang og auka flokkun og endurvinnslu. Stefna á að því að Akureyri verði kolefnishlutlaust sveitarfélag. Bæta á aðgengi að leikskólaplássum og gera menntun gjaldfrjálsa í leikskóla og grunnskóla, sem og skólamáltíðir og frístundastarf. Þá á að styðja við uppbyggingu sanngjarns leigumarkaðar á húsnæði.  

 

Um sveitarfélagið

Framboð í sveitarfélagi

Kosningafréttir: Akureyri

Jólin, jólin alls staðar - allavega á Akureyri

Jólaljósin spretta upp eitt af öðru á Akureyri og lýsa upp skammdegið. Starfsmaður...
01/11/2022 - 17:02

Hryllileg stemning á skautadiskói á Akureyri

Búast má við hryllilegri stemningu í Skautahöll Akureyrar í kvöld þar sem verður...
28/10/2022 - 18:37

Hætta að glæða Grímsey

Ekki stendur til að framlengja samstarf Byggðastofnunar og Grímseyjar í verkefninu Glæðum...
26/10/2022 - 16:25

Sveitastjórnarkosningar 2014

akureyri